2. kafli


-Jæja ertu byrjuð að pakka? spurði Emelía morguninn eftir.

Ég hafði ekki sofið mikið þá nóttina, jafnvel með ljósin kveikt, þannig að ég var töluvert hægari í hugsun en vanalega. Þrátt fyrir að ég væri á seinni kaffibollanum mínum.

-Pakka? Fyrir hvað?

-Nú fyrir líffræðiferðina, hvað annað?

-Æ já, hún er víst á morgun, sagði ég hugsi.

-Jebb, sagði Emelía. –Þetta á eftir að vera frábært!

-Æ ég veit það nú ekki, sagði Anton og kom sér inn í samræðurnar. –Heilar 24 stundir þar sem við gerum ekkert annað en að skoða plötu-og dýralíf.

-Það er ekki svo slæmt, sagði Emelía sem í laumi elskaði líffræði. –Plús það þá munum við pottþétt fá fullt af fríum tíma, sérstaklega ef við vinnum verkefnin hratt!

-Já það gæti verið, hafði samt komið þangað? spurði Anton.

Ég hristi hausinn og Emelía líka.

-Ég hef samt heyrt mjög góða hluti, sagði Emelía. –Það eru heitir hverir þarna sem er hægt að baða sig í og risastór skógur allt í kring sem er víst einstaklega fallegur!

-Ætli það sé ekki fullt af villtum dýrum þarna, sagði Anton. –Og kóngulóm.

Emelía horfði illilega á hann og sló hann í öxlina. Emelía virtist ekki vera hrædd við neitt, hún myndi ráðast gegn úlfahópi eða górillum, allt nema kóngulær. Hún var lygilega hrædd við þessu litlu kvikyndi og fékk hroll bara við það að hugsa um þau.

Bjallan ómaði um salinn og sagði okkur að við þyrftum að koma okkur inn í stofurnar. Ég stóð upp og var samferða Emelíu að stofunni sinni en fann svo mína stofu og beið eftir kennaranum. Stuttlega kom kennarinn minn, lávaxinn eldri maður með kringlótt gleraugu. Landafræði, ó mitt uppáhalds fag. Ef bara.

Kennarinn opnaði stofuna og ég náði sæti við gluggann, sem var bölvun í sjálfu sér. Það var hræðilegt að sitja hérna í stofunni meðan sólin skein fyrir utan og hlýtt veðrið kallaði á mann. Kennarinn las upp og byrjaði svo fyrirlesturinn með glærunum sínum um vatn og lönd og fólk. Ég var ekkert að fylgjast neitt sérstaklega vel með. Glósubókin mín var opin og allt saman, en ég var meira að krota á spássíuna en að skrifa niður orð viskunnar sem komu með einstaklega svæfandi röddu kennara míns. Ég fann hvernig augnlokin urðu þyngri og þyngri en ég reyndi eins og ég gat að halda mér vakandi og einbeitti mér á því að krota á spássíuna. Loks eftir klukkutíma kom ljúfur tónn bjöllunnar og nemendurnir drifu sig út, það var komið hádegishlé.

Ég settist niður með andvarpi hjá Emelíu sem var að borða samloku og lagði glósubókina mína frá mér.

-Þetta eru svo einstaklega leiðinlegir tímar, sagði ég.

-Merkilegt að heyra það frá þér, ungfrú háar einkunnir, sagði Emelía milli bitanna.

-Þótt ég hafi fyrir því að læra þýðir það ekki að mér finnist tímarnir skemmtilegir, sagði ég og fór að fletta í gegnum glósubókina mína meðan ég hugleiddi það hvort ég nennti í matarröðina.

-Vá þetta var greinilega þunglyndislegur tími hjá þér, sagði Emelía og fletti til baka í glósubókinni minni og á síðuna sem ég hafði haft opna í landafræði.

Það voru nokkrir punktar þarna en svo mestmegnis krot en á spássíunni var lítil teikning af stúlku sem hékk í hengingarlykkju. Ég fann hvernig ég fölnaði. Það var svosem ekkert hræðilegt við teikninguna sem slíka, það var ótrúlegt hvað maður átti til að teikna á spássíuna, en það var ekki ástæðan fyrir að ég fölnaði. Ég mundi hreint ekki eftir því að hafa gert þessa teikningu í tíma. Ég greip ósjálfrátt í hálsmenið mitt inn undan bolnum. Ég var við það að fá hræðslukast. Nei, Elísabet, róaðu þig, það þarf ekkert að vera að þetta tengist neinu dularfullu, þú varst nú hálfsofandi í þessum tíma. Eftir nokkra djúpa andardrætti tókst mér að róa mig þótt að ég var aftur komin með hnút í magann.

Það sem eftir var skóladagsins leið töluvert hraðar en landafræðitíminn og ég fór beint heim eftir skóla. Það var best að byrja að pakka fyrir ferðina.

-Halló? kallaði ég þegar ég kom heim.

Það lá taska og lyklar á borðinu þannig að einhver hlaut að vera kominn heim.

-Halló? kallaði ég aftur og heyrði loks svar af efri hæðinni. Bjarki var heima.

Ég henti af mér draslinu mínu og fór upp og bankaði á hálfluktar dyrnar af herbergi bróður míns og gekk svo inn. Bjarki, ljóshærður rétt eins og ég, sat í rúminu sínu með opna bók ásamt yfirstrikunarpenna. Hann var þremur árum eldri en ég og var að læra í háskólanum.

-Hæ, sagði ég loks þegar ég kom inn um dyrnar.

Ljósblá augu bróður míns litu af bókinni og til mín. –Hæ, hvernig var skólinn?

-Ágætur, sagði ég. –Má ég fá svefnpokann þinn lánaðan?

-Af hverju? spurði hann og hélt áfram að strika undir línur í bókinni.

-Það er líffræðiferð á morgun, sagði ég. –Við gistum yfir nótt.

-Já já, takt‘ann, farðu bara vel með hann, sagði Bjarki. –Pokinn er niðrí kompu.

-Okei, takk, sagði ég og fór niður.

Kompan var lítið ónotað herbergi hliðin á þvottaherberginu þar sem allskonar dót og drasl endaði í. Það tók mig smá stund á fá hurðina til að opnast þar sem gömul borðplata hafði dottið fyrir hurðina. Eftir að hafa þreifað eftir ljósrofanum lýstist upp þessi heimur af óreiðu en sem betur fer var svefnpokinn ofarlega í hrúgunni. Ég greip hann, áður en kompan myndi draga mig niður í draslið og ég myndi aldrei finnast nema útkölluð væri björgunarsveitin, og hoppaði því nánast út á ganginn.

Sigurhrósandi fór ég upp í herbergið mitt með svefnpokann og fann mér nógu stóra tösku fyrir fötin mín. Ég fór í gegnum fataskápinn minn og fann boli og nærföt og annan fatnað sem ég átti eftir að þurfa að nota, passaði að taka sundbol með svona ef við fengum tækifæri til að sprikla í þessum heitu hverum sem Emelía hafði verið að tala um. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að taka sjampó og næringu með líka, það sem hverir gerðu við hárið á manni var óskammfellið og hryllingur svo að ég noti væg orð um málið. Eftir að hafa sett meira dót í hrúguna tróð ég svefnpokanum ofaní, lagðist svo nánast ofan á töskuna til að þjappa henni saman og með viljanum einum saman náði ég að loka rennilásnum. Plássið sem svefnpokar virðast taka í töskunni manns!

Ég leit á klukkuna, hún var að verða sex og ég var orðin hálfsvöng. Ég skoppaði niður í eldhús og renndi yfir vaktaplan sem var hengt upp á ískápshurðina ásamt myndum af mér og Bjarka sem litlum börnum. Ég andvarpaði þegar ég sá að mamma var á kvöldvakt, sem þýddi að hún kæmi ekki heim fyrr en upp úr miðnætti. Ég hlóp upp stigann á efri hæðina aftur og tók tvö þrep í einu og fór inn til Bjarka, í þetta skipti án þess að banka. Hann lá ekki lengur á rúmminu sínu heldur var hann í tölvunni að spila einn af fyrstu persónu skotleikjunum sínum.

-Mamma er á kvöldvakt, sagði ég.

-Og? sagði Bjarki með augun límd á skjáinn.

-Hvað eigum við að borða í kvöldmat? spurði ég.

-Geturu ekki eldað eitthvað? sagði Bjarki.

-Ég nenni því ekki og það er ekkert gott til að borða, sagði ég með smá vælutón.

-Pantaðu þá bara pítsu, ég kem niður þegar hún kemur, sagði Bjarki.

Ábægð með sigur minn í matarmálum fór ég niður og hringdi í pítsuna. Restin af kvöldinu fór í það að ég og Bjarki sátum étandi pítsu fyrir framan sjónvarpið og hlógum af virkilega lélegri bíómynd.


***

Takk fyrir að lesa, endilega segið mér hvað ykkur finnst :) Og er þetta þægileg lengd af texta eða mætti hann vera lengri?
kveðja Ameza