Ég brosti eins fallega og ég gat til hans. Hann brosti á móti, eins og alltaf, sennilega var brosið hans samt fallegra en mitt.
Ljósskollitað hárið hans passaði svo fullkomlega við gráa stuttermabolinn hans sem var merkt eitthverri fatabúð framan á. Eitthverri flottri og vinsælli fatabúð, örugglega, hann átti bara flott og falleg föt. Ég hafði aldrei séð nokkurt hár passa svona vel við grá föt, þau virtust venjulega svo leiðinleg og litlaus. Þröngar gallabuxurnar undirstrikuðu líka fagurskapaðar útlínur hans, eins og mér fannst aldrei fara strákum að vera í þröngum buxum, þá fór þetta honum einstaklega vel. Hann var með svo langar og fullkomnar lappir að það var ekkert annað hægt.
Hann var einfaldlega fullkominn. Það var næstum ótrúlegt að nokkur manneskja skildi höndla það að vera svona fullkominn eins og hann. Andlitið var svo nákvæmt og fagurskapað, höfuðið fullkomið í laginu og húðin laus við alla mögulega galla sem fylgja því að vera táningur. Djúpblá augun sem brostu til manns þó að varirnar væru slakar, en þó gátu þau verið alvarleg á réttri stundu. Nefið var lítið, samt ekki of lítið, bara fullkomlega lítið og yndislegt. Munnurinn, ótrúlegt hversu falleg eða fyndin orð gátu komið úr honum, ótrúlegt hversu innilegt bros þessar fullkomnu og kyssilegu varir gátu myndað. Einmitt á þessari stundu var hann með svona bros í andlitinu, innilegt, hlýlegt, fallegt. Ég gæti haldið næstum endalaust áfram.
Mig langaði mest að veifa til hans en þorði því ekki. Kannski væri það asnalegt, eitthver gæti verið að horfa á okkur. Hlegið að því hvað er asnalegt að veifa. En ég vissi að ég gæti ekki sagt neitt við hann, hann heyrði aldrei í mér. Ég vissi að ég gæti ekki snert hann meðan þessi kaldi veggur aðskildi okkur.
Samt gat ég haldið áfram að stara, dást að náttúrulegri fegurð hans, brosa til hans og horfa á hann brosa á móti.
Fullkomleiki hans var næstum óhugnalegur, ég hætti að brosa og hann hætti á sama tíma, hugar okkar samtaka eins og alltaf. Ég hallaði undir flatt og hann hermdi eftir, hárið fór fyrir andlitið á okkur báðum og við strukum það frá á sama tíma með þögult fliss í andlitinu. Í smástund sneri ég baki í hann, til að jafna mig á þessu.
Loks birtist mamma í dyragættinni og dró mig frá honum. Við þurftum að drífa okkur annað, ég yrði að sjá hann seinna. Horfa á hann seinna.

Ég sá hann aftur strax um kvöldið, heima hjá vinkonu minni.
Hún hló að mér þegar ég benti á hann og spurði hana hvort henni þætti hann ekki sætur og fullkominn. Hún sagði að sjálfsögðu þætti sér hann vera það. Hún sagði að þetta væri fallegasta manneskja í heiminum. Ég leit aftur á hann og hann leit á mig og við brostum feimnislega.
Ég ætlaði að snerta hann. En það eina sem ég fann var kalt yfirborð spegilsins.