Hún gekk ákveðnum skrefum eftir glansandi malbikinu og beygði inn í litlu götuna. Stórar aspirnar teygðu greinar sínar yfir gangstéttina og mynduðu eins konar bogagöng sem skýldu henni fyrir regninu.Hún tók niður hettuna og hristi mestu bleytuna af um leið og hún gekk í gegnum stórt hvítt hlið. Hún skokkaði upp tröppurnar og hleypti sér inn í stóra rauða húsið.

Hlýtt eldhúsið og volgar möndlukökur tóku á móti henni inn úr rigningunni. Hún fór úr regnkápunni og lagði hana á stólbak, tók sér nokkrar kökur og kaffibolla. Vafði sér inn í teppi og kom sér fyrir við skrifborðið til þess að leggja lokahönd á pistilinn fyrir næstu viku.
Fátt ánægjulegra en að klára á föstudegi og eiga algjört helgarfrí. Hún lét renna í heitt freyðibað og kveikti á ilmkertum. Ná úr sér mesta hrollinum og stressinu áður en maður fer og slettir úr klaufunum.

……

Hún hafði hálfpartinn á tilfinningunni að þetta hefði allt verið fyrirfram ákveðið. Hún leit í stóra koparspegilinn á ganginum og setti í sig eyrnalokkana, klæddi sig í rauðu skóna og skellti útidyrahurðinni á eftir sér. Það var orðið dimmt. Hún setti upp hettuna um leið og hún steig út á götuna og lokaði á eftir sér hvíta hliðinu.
Þetta small allt eins og í sögu, eins og það væri eitthvað sem togaði í hana, rauður lífsþráður sem smellti öllu í réttan farveg til að fá sínu framgengt.

Regnið jókst sífellt, vatnið streymdi eftir götum og gangstéttum. Hún gekk ákveðið en létt í pollunum. Hún kom að gatnamótunum og rýndi í allar áttir út í myrkrið en sá ekki neitt. Hvorki ljósastaurarnir né umferðarljósin loguðu, hún fann litla kvíðatilfinningu vakna í maganum. Hún pírði augun og rýndi í myrkrið en sá ekkert. Hún sá glitta í eitthvað, jú þetta var rautt bremsuljós, það hlaut að vera í lagi að skjótast yfir götuna.

Skyndilega voru gatnamótin böðuð rauðum ljóma frá bremsuljósum bílanna, fyrir utan skínandi hvítt ljós, sem skein beint í augu hennar. Líkami hennar lét undan högginu og höfuðið skall í malbikið…
[quote="Elie Wiesel"]"There may be times when we are powerless to prevent injustice, but there must never be a time when we fail to Protest!."[/quote]