Ég ímynda mér að lífið fjari út.
Það er laust fyrir miðnætti, seint í októbermánuði.
Ég stend við gluggann í svefnherberginu, ýti lauslega með vinstri höndinni dimmrauðu flauelsgardínunni frá og hlusta á lágværan söng Emiliönu Torrini berast frá tónlistarforritinu í tölvunni.
Ég halla höfðinu að rúðunni, og það kemur móða.
Það er ekkert nema svartamyrkur úti, sem virðist hafa gleypt í sig allt líf.
Ég renni fingrunum í gegnum kolsvart hárið. Döpur augu mí speglast í rúðunni; tárvot og særð eftir að hafa þolað miskunnarleysi mannfólksins.
Ég stari á dimmasta blettinn sem ég finn úti og fæ það á tilfinninguna að myrkrið ætli sér að éta mig.
Innst inni vona ég það heitt. Mér hefur alltaf liðið best alein í myrkrinu, laus við afskiptasemina og illskuna í umheiminum. Ég vildi helst alltaf vera þar.
Ég loka augunum eitt andartak. Emiliana hefur þagnað og því heyrist ekki neitt nema hjartsláttur minn. Ég sný mér við og dreg gardínuna fyrir í leiðinni.
Herbergið er nú koldimmt og ég sé ekki handa minna skil. Ég geng eftir minni að rúminu mínu, legst á það og dreg ískalda sængina yfir mig.
Ég hlusta á sjálfa mig anda nokkra stund.
Skyndilega kemur Hann upp í huga mér. Örlítið bros færist yfir varir mínar, sem hverfur jafnskjótt og það birtist. Ég hugsa um alla góðu tímana okkar saman. Öll fallegu orðin sem hann lét út úr sér um mig, þétt og umhyggjusöm faðmlögin, mjúku strokurnar, blautu kossarnir…
Hvað við skemmtum okkur vel saman. Sama hvernig á stóð; hann gat alltaf fengið mig til þess að brosa og líða betur, en gat um leið grætt mig með átakanlegum lýsingum á lífinu.
Hann var sá eini sem ég gat treyst á. Sá eini sem virkilega hlustaði á það sem stelpuskjátan ég hafði að væla um harðindi lífsins, og gat fengið mig til þess að halda að það væri virkilega einhver sem þætti vænt um mig og þarfnaðist mín.
Loksins þegar ég hafði fundið einhvern sem ég gat reitt á, er allt hrifsað frá mér.
Fólk var í sífellu að reyna að troða því í hausinn á mér að þó svo það ríki algjört myrkur, þá sé alltaf smá vonarglæta. Ég virkilega trúði því þegar Hann var hér.
Auðvitað var Hann hrifsaður frá mér.
Það var eins og Hann hafi vitað það. Síðasta kvöldið þegar Hann var hér, sagði hann mér að fólkið væri afbrýðisamt út í okkur. Aðeins vegna þess að það væri eitthvað sérstakt á milli okkar, eitthvað sem þau gætu aldrei skilið.
Hann sagðist elska mig, og bað mig um að gleyma því aldrei og vera sér trú.
Hann svæfði mig þetta kvöld, eins og svo oft. Róandi strokur og lágt raul.
Mig dreymdi ekkert þá nótt.
Morgunin eftir vaknaði ég með mönnunum í hvítu sloppunum.
Þá vissi ég það. Þau höfðu tekið hann.
Ég grét hamslaust næstu daga. Þau gátu ekki skilið. Þau myndu aldrei skilja.
Aðeins vegna þess að ég hafði fundið eitthvað gott. Þau rifu Hann af mér, síendurtakandi að það yrði allt í lagi, ég fengi aðstoð, Hann hefði aldrei verið til. Bara ímyndun í mér.
Hann var það raunverulegasta sem ég mun nokkurntímann komast í kynni við.
Ég finn sting í hjartanu.
Ég opna augun, fer með hendurnar varlega að náttborðsskúfunni og dreg upp úr henni pilluspjald.
Hægt og bítandi gleypi ég allar töflurnar.
Ég sýg upp í nefið og leggst síðan niður.
Ég loka augunum og hlusta á þögnina.
Eftir nokkra stund tekur mig að syfja.
Skyndilega heyri ég kunnulegt söngl. Hjarta mitt tekur kipp.
Ég finn hlýjuna streyma um mig.
Ég er að hverfa til Hans, frá þeim…