Draugadans 1. kafli, seinni hluti Jæja fólk virtist taka ágætlega í 1. hlutann þannig ég ákvað að senda inn meira. Skiljið endilega eftir komment :)

Ein pæling, finnst fólki lengdin á þessu vera of löng/of stutt eða bara passleg?


1. kafli: seinni hluti

Ég fór aftur fram eftir að hafa náð mér niður og lagað til maskarann sem hafði klessts eftir allt saman. Þýðir ekkert að gráta með maskara, það er bara vesen.

Anton og Emelía voru að borða eitthvað og nokkuð af öðrum vinum okkar voru komin á borðið.

-Hey Elísabet, sagði Emelía um leið og ég settist niður.

-Já?

-Ertu búin að skrá þig í líffræðiferðina? Hún er eftir tvo daga, sagði Emelía.

-Já ég mundi eftir því, kennarinn lét lista ganga fyrir helgi, sagði ég.

-Frábært! Af því að þá erum við öll þrjú að fara, sagði Emelía brosandi.

Líffræðiferðin var einnar nætur ferð þar sem það var farið í gamlan skála í miðjum skógi og plöntu og dýralífið var rannsakað. Það var samt alltaf ágætlega mikið af frjálsum tíma þannig að þessar ferðir voru alltaf mjög skemmtilegar. Og maður fékk frí í öllum hinum tímunum sínum þann daginn.

Eftir þetta tók við hinn venjulegi skóladagurinn en ég var í skólanum til tvö. Eftir skóla losaði ég mig við vini mína og tók stefnuna, ekki heim, heldur beinustu leið niður í bæ. Það þýddi að ég þurfti að taka strætóinn sem var troðfullur af fólki, mest nemendum, en var glöð að ég þurfti ekki að fara lengra en niður í bæ. Það var alveg slatti af fólki niðri í bæ, enda vel skiljanlegt þar sem veðrið var fagurt. Ég gekk eftir aðalgötunni en beygði loks af henni inn á minni götu og gekk inn um dyr á búð sem kallaðist Mánaskin. Talandi um ófrumlegt nafn, ég veit. Þetta var ein af þessum ‚galdra‘ búðum sem var stútfull af tarot spilum, rúnum, göldrum, bókum og verndargripum. Staður þar sem mikið af dökkklæddum og hippalegum unglingum héldu til. Ég var hérna hinsvegar ekki fyrir búðina sjálfa heldur fyrir eigandann. Ég trúði ekkert sérstaklega á galdra og þannig dót, en var svosem ekkert að dæma fólk sem trúði á það. Ég hafði engan rétt á því. En það var ekki hægt að neita því að eigandi búðarinnar hafði hjálpað mér, hvað sem það var, dulrænir hæfileikar eða hókus pókus þá skipti það ekki máli. Það virkaði.

Um leið og ég lokaði hurðinni heyrðist dauft hringl í bjöllunni og eins og vanalega var búðin full af krökkum og einstaka eldri manneskju. Allir að skoða allt spennandi dótið, spyrja spurninga, leita eftir framtíðarspá. Voða spúkí.

Ég fór beint upp að afgreiðsluborðinu þar sem mikið máluð stelpa í dökkum fötum en með skærbleikar neglur var að japla á tyggjói. Þegar hún var búin að rukka stelpu fyrir ástargaldur og fimmhyrna stjörnu var komið að mér.

-Hæ, heyrðu ég þarf að tala við Theiu, sagði ég.

Stelpan lyfti annarri augnabrúnni meðan hún blés út tyggjóið sem var jafn bleikt og naglalakkið. –Theia er upptekin, viltu panta tíma?

-Er hún hérna? Ég þarf virkilega að tala við hana, sagði ég og þrjóskaðist við.

-Sorrý, en hún er uppbókuð. Hún á von á viðskiptavini eftir smá…

-Þetta er allt í lagi, vísaðu henni inn, sagði kona í dyragættinni bak við afgreiðsluborðið. Hún var með sítt og svolítið rytjulegt skollitað hár og var í einföldum rauðum kjól með nokkra hringi á fingrunum. Hún leit ekki út fyrir að vera hin klassíska norn var það? Ekki að hún hafi kallaði sig norn í minni návist.

-Komdu inn fyrir, Elísabet, sagði hún. Ég kinkaði kolli og gekk inn fyrir afgreiðsluborðið og inn um dyrnar meðan afgreiðslustúlkan gaf mér illt augnaráð.

Herbergið fyrir innan var lítið en með stórum gluggum sem snéru að garði fyrir aftan búðina, meðan bílagatan var hinumegin, en þar sem glugginn snéri ekki þangað gaf það manni tilfinningu fyrir næði. Húsgögnin voru öll nokkuð gamaldags í útliti en í ljósum litum og með þessa stóru glugga fylltist herbergin af gylltri birtu og hlýju. Ég settist niður í sófa á móti Theiu.

-Það er langt síðan ég sá þig seinast Elísabet, sagði hún. –Ég á von á viðskiptavini eftir nokkrar mínútur en ég get talað við þig núna. Er eitthvað sérstakt að plaga þig?
Theia tók að sér framtíðarspár og annað þess kyns, þess vegna var hún með viðskiptavini og þetta herbergi hér fyrir aftan.

Ég dró fram hálsmenið mitt og lyfti því upp á keðjunni svo að hún sæi það greinilega. –Steininn er með sprungu, ég vil að þú lagir hann.

Theia andvarpaði en sleit ekki dimm augun af mér. –Elísabet ég sagði þér að þetta myndi gerast á endanum. Það er tilgangslaust að loka á þig aftur, það myndi bara duga stutta stund.

-En þú verður að laga menið! Þú verður að halda þessu innan skefja, þetta verður að haldast lokað! Ég er búin að vera góð í fimm ár! En ég gerði eitthvað skrítið aftur í dag, ég get ekki gengið í gegnum þetta aftur, gerðu það þú verður að hjálpa mér!

Theia var þögul nokkra stund og tók svo í höndina á mér yfir stofuborðið og horfði beint í augun á mér. –Þú vissir það jafnvel og ég að þetta var bara tímabundið. Ég sagði þér það fyrir fimm árum síðan og ég verð að viðurkenna að menið hélt lengur út en ég bjóst við. Ég get ekki lokað á þetta að eilífu…

-Gefðu mér bara nýtt með, reyndu að loka á þetta aftur, gerðu það!

Theia hristi hausinn. –Nei ég get ekki lokað fyrir hæfileikann aftur, þú verður að læra að stjórna þessu, í stað þess að fela þig undan því.

-Hæfileiki? Þetta er ekki hæfileiki, þetta er bölvun! Sagði ég orðin reið yfir vanmætti mínum.

-Elísabet, sagði Theia og lyfti höndunum eins og til að róa mig.

-Víst það er ekkert sem þú getur gert, sagði ég og stóð upp. –Þakka ég þér fyrir tímann þinn, ég þarf að fara!
Ég gekk að hurðinni og stoppaði þegar Theia kallaði á mig, ég snéri mér við og leit á hana.

-Ég er alltaf hérna, sagði hún. –Þegar þú ert tilbúin að takast á við þetta, komdu þá til mín, ég get hjálpað þér.

Ég ansaði engu heldur snérist á hæli og gekk út úr herberginu og gekk næstum á afgreiðslustúlkuna þar sem ég gekk framhjá afgreiðsluborðinu. Ég fann aftur hvernig tárin hótuðu að koma fram á sjónarsviðið svo að ég var snögg að koma mér út úr búðinni og út á götu. Í stað þess að fara niður á aðalgötuna hélt ég mig á fáfarnari stígum meðan ég þurrkaði tárin.

Ég vildi ekki hjálp Theiu við að nota þetta, ég vildi bara að þetta færi og læti mig í friði, núna, strax, helst í gær!

Ég gekk hröðum skrefum í gegnum bæinn, tók upp heyrnartólin mín úr skólatöskunni og reyndi að drekkja áhyggjum mínum í háværri tónlist. Ég höndlaði það ekki að taka strætó heim svo að ég labbaði bara, tók alveg hálftíma en á þeim tíma var ég aftur í stjórn tilfinninga minna, eða af mestu leiti. Ég losnaði hinsvegar ekki við strekktan hnútinn í maganum á mér og hann var ekkert að fara. Málið var að ég var hrædd, skíthrædd við það sem gerðist fyrir fimm árum síðan. Ég vildi ekki að það endurtæki sig, ég vildi ekkert með þetta hafa, ég vildi bara vera venjuleg.

Malið var að ég var ekki eins og fólk var flest. Ég hafði vitað það síðan ég var lítil að það væri alltaf þessi litli munur á mér og þeim. Ekkert sem þú tókst eftir eða gast séð, nei, þetta voru þessir litlu hlutir…en þetta voru litlir hlutir sem voru ekki alveg þessa heims. Móðir mín hafði aldrei tekið eftir litlu telpunni sem átti það til að kíkja á mig í herberginu mínu, né fann hún aldrei fyrir gamla manninum sem hélt sig við höfnina. Sem krakki sagði ég móður minni frá þessu en hvað hjálpaði það mér? Ég var send til sálfræðings og geðlæknis, getur vel verið að þetta sé læknisfræðilegt geðrænt vandamál, ég veit það ekki. Þetta fólk gat hinsvegar ekki hjálpað mér. Þannig að ég hætti að tala um þetta og móðir mín hélt að þetta höfðu bara verið duttlungar sem fylgdu barnæskunni. En þegar ég var 13 ára lenti ég í svolitlu virkilega slæmu, það versta sem ég hafði lengt í hingað til. Fyrir tilviljun fann ég Theiu, sem gat hjálpað mér og ég lifði fullkomlega eðlilegu lífi í fimm ár. Ekkert vesen, engin hræðsla, engin skrímsli undir rúminu mínu eða draugar bak við hurðina.

Núna var tilveru minni ógnað, þetta virtist allt vera að koma aftur. Um leið og að hálsmenið myndi gefa sig myndi veruleiki minn hrynja á ný.
kveðja Ameza