Friðurinn sem fylgdi því að horfa á snjókornin falla róaði ólguna í maganum á henni að einhverju leyti. Hún dró djúpt andann og tók annan sopa af grænleitum vökva í kókflösku. Henni fannst alltaf best að fá sér blöndu af Mickey Finns, landa og Sprite sem afréttara á sunnudögum.

Reykurinn liðaðist út um munnvikin, og hún lék sér að því að gera reykhringi í kyrru vetrarloftinu. Klukkan var 5 um morguninn en það var eins og tíminn stæði í stað. Það eina sem hreyfðist voru litlu, hvítu kúlurnar sem hröpuðu af himninum og sameinuðust í eina, stóra ábreiðu yfir veröldina.

Gríma drap í sígarettunni, hrækti og tók annan sopa af blöndunni. Hún nennti ekki að fara inn strax og reka út gaurinn sem hún vaknaði við hliðina á. Ekki fyrr en höfuðverkurinn og ógleðin hyrfi.

Hún dró aftur djúpt andann, og fann þá að maginn tók klaufalegan kollhnís. Hún beygði sig fram fyrir handriðið og kúgaðist, gulbrúnn vökvi með ógeðslegum kekkjum skaust niður á leifturhraða og gerði brunagat í hvítu ábreiðuna. Hún spýtti bragðinu í burtu, skolaði munninn með blöndunni og kveikti sér aftur í sígó.

“Djöfulsins fokking rugl…” Tautaði hún þegar hún fann magann taka annan krampa og lagðist aftur yfir handriðið.



Þegar hún kom inn af svölunum aftur mætti henni samfaralykt, sígarettureykur og bræla af úldnum mat í eldhúsinu. Hún lét sig falla í sófann, teygði sig í fjarstýringuna og kveikti á South Park. Hinum megin við stofuvegginn heyrði hún að það var sturtað niður.

Hún tók gúlsopa af blöndunni, bragðið sveið hana niður sáran hálsinn. Grannvaxinn, massaður gaur með svart, sítt hár og gat í vörinni gekk inn í stofuna. Hann var pottþétt ekki svona myndarlegur í gær, hún náði sér vanalega ekki í þá allra flottustu.

“Daginn,” sagði hann letilega og hlammaði sér niður við lappirnar á henni. Hún umlaði eitthvað og fann hausverkinn magnast pínu. “Þunn?” Spurði hann, það var púkalegt glott á honum. Hún gretti sig, yppti öxlum og svolgraði í sig restina af blöndunni, um það bil hálfa flösku. Hún var farin að finna á sér aftur og fannst það gott.

“Drakkstu ekki alveg fjórar svona í gær?” Spurði hann og benti á flöskuna sem hún hafði hent á gólfið. Hún kinkaði kolli, dró teppi undan sér og vafði sig inn í það. “Og hálfan vodkapela, nokkra sopa af Captain Morgan og tvo Breezera.” Svaraði hún og teygði sig í sígarettupakkann. Hún rétti hann að gaurnum en hann afþakkaði. “Þú reyktir í gær.” Staðfesti hún. Hann hló smá. “Bara þegar ég drekk.” Svaraði hann. Hún yppti öxlum aftur og askaði á bak við sófann. Augu hans fylgdu hendinni eftir. “Sóði.” “Ég veit, er það vandamál?” Græn augu hennar rannsökuðu viðbrögðin. Hann brosti bara. “Nema þú viljir hjálpa mér að taka til, þá máttu alveg fara.” Sagði hún, var alveg skítsama hversu dónaleg hún var. Hann skellti upp úr. “Ég skil, er að fara.” Hann stóð upp og tók stefnuna á herbergið hennar.

Hún hnussaði aðeins, hóstaði og fann ólguna í maganum aftur. Hún dró fötu undan sófanum og beygði sig yfir hana. Hún fann hendi á enninu á sér, og fattaði að gaurinn hélt hárinu frá ælunni sem spýttist út úr henni. Hún hrækti út úr sér restinni af ógeðinu og settist upp aftur. Náði í sígarettuna af gólfinu og tók stóran smók. “Fyrst þú ert hérna ennþá, þá máttu ná í aðra flösku fyrir mig í ísskápinn.” Umlaði hún. “Ég held að þú sért búin að fá nóg.” Augu hennar skutu gneistum. “Hvern fjandann kemur það þér við hversu mikið ég drekk?” Urraði hún, svipti af sér teppinu og strunsaði inn í eldhús. Hún rykkti upp hurðinni á ísskápnum og sá, guði sé lof, að það var ein flaska af blöndu eftir. Hún greip hana, opnaði og tók lífsgefandi sopa. Hún hristi sig aðeins, þessi var aðeins sterkari en hinar. Það var bara betra.

Hún gekk aftur inn í stofu, tók eftir því að hann var kominn í gallabuxur og belti með hauskúpusylgju. Hann var helvíti vel vaxinn, hún varð að viðurkenna það. Augu hennar staðnæmdust við geirvörtuna, þar sem blikaði á hring með litlum demanti á. Hún hristi aðeins hausinn, fann að hún var að skoða aðeinsmeira en hún hafði leyfi til.

“Hvað heitirðu annars, fyrst þú ert hérna ennþá?” Spurði hún og renndi hendinni í gegnum sítt, svart hárið. “Kári,” svaraði hann, “en þú?” “Gríma.” “Flott nafn.” “Þakka, sömuleiðis.”

Hann greip bréfmiða á yfirfullu stofuborðinu, fann penna og hripaði eitthvað niður á miðann. “Ég þarf að drífa mig, hringdu ef þú vilt.” Hann glotti, rétti henni miðann og fór aftur inn í herbergi til að klára að klæða sig. Hún heyrði útihurðina opnast og lokast stuttu seinna. Hún braut miðann snyrtilega saman og stakk honum inn í geisladiskamöppu sem lá á borðinu. “Ég á aldrei eftir að hringja.” Sagði hún við sjálfa sig og þambaði aftur af blöndunni.



Hún varð að hringja í hann. En hún þorði því ekki. Hann varð að vita að hún hafði breyst.

Hún dró djúpt andann. Það var liðinn mánuður. Hún hafði séð hann tvisvar á djamminu, en ekkert gert í því að tala við hann, lét sig bara hverfa og fór eitthvert annað. En núna var þetta öðruvísi.

Hún hélt uppi miðanum með tölunum sjö, og hélt niðri í sér andanum á meðan hún stimplaði þær inn í símann. Það hringdi lengi.

“Halló?”
“Kári?”
“Já.”
“Þetta er Gríma.”
“Nei, blessuð! Hvað er að frétta af þér?”
“Ég er hætt að drekka.”
“Flott.”
“Og reykja.”
“Ennþá betra.”
“Já, mömmu fannst það líka.”
“Hefurðu lagað til í holunni þinni?”

Hún gat næstum því heyrt hann brosa.
“Já.”
“Glæsó.”
“Kári…”
“Já?”

Hún var svo stressuð að hún kúgaðist næstum því.
“Ég er ólétt.”
God made me an atheist. Who are you to question his wisdom?