Gleðin var mikil á Sléttuhlíð 15 klukkan þrjú á aðfangadegi. Freyja, ellefu ára, var strax kominn í jólakjólinn sem hún ætlaði að vera í um kvöldið á meðan móðir hennar þeyttist kófsveitt um eldhúsið í jogginggallanum á eftir Ástu litlu sem var nýorðin tveggja ára. Fannar sat á rúminu í herberginu sínu með heyrnartólin á höfðinu svo fagrir tónar Sex Pistols bárust til eyrna hans. Dregið var fyrir gluggana og rykið þar inni átti því auðvelt með að fela sig í dimmum skúmaskotum. Bankað var á hurðina. “Fannar minn, ætlarðu ekki í sturtu fyrir kvöldið?” spurði mamma hans, Gréta, og kom inn. Fannari brá og henti vatnspípunni sinni undir rúmið. “Nei…ég ætla ekki að vera með ykkur í kvöld,” svaraði Fannar henni.
“Hvað ertu að tala um drengur? Þú ert bara fimmtán ára og átt að vera með fjölskyldunni þinni á aðfangadag. Hvað annað ætlarðu eiginlega að gera?”
“Þið eruð bara svo ömurleg, ég ætla bara út með vinum mínum í kvöld.”
“Æj, ekki með þessa stæla,” sagði mamma hans. “Drífðu þig bara í sturtu.”
Hann dæsti, stökk upp úr rúminu og hrinti hurðinni upp. Mamma hans stökk fimlega frá og endaði ofan í þvottakörfu fullri af skítugum handklæðum. “Reyndu að hemja þig drengur!” öskraði hún á eftir honum. Hann sýndi henni puttann og fór upp.

“Nennirðu að fara út með þetta, Fannar minn,” spurði stjúppabbi hans, Jón, og rétti honum illa lyktandi Bónuspoka sem búið var að binda snyrtilega fyrir. “Lagaðu svo á þér hárið drengur, það er eins og einhver hafi sleikt á þér hárið og síðan sest á þig.”
“Nei, ég ætla ekki út með þetta helvítis rusl,” svaraði Fannar og lét pokann detta á gólfið. “Ég er farinn út og kem ekki aftur!” öskraði hann á Jón. Hann greip svo leðurjakkann sinn og rauk út með miklum látum.
“Þetta er allt í lagi, stelpur,” sagði pabbi þeirra og tók Ástu, sem var byrjuð að gráta, í fangið.

Kvöldið rann upp og allt gekk sinn vangagang í Sléttuhlíð 15, án Fannars. Stelpurnar voru fljótar að ljúka við matinn sinn og ruku strax í pakkaflóðið. “Megum við byrja að opna?” spurðu þær í kór. Móðir þeirra, sem sat á móti föður þeirra við borðið, kinkaði kolli fallega til þeirra. Þær skríktu báðar af kátínu, völdu sér sitthvorn pakkann og rifu þá upp af áfergju. Freyja var frekar fúl með það sem hún fékk. “Blýantasett frá ömmu Siggu. Þekkir hún mig ekki neitt eða?” spurði hún út í loftið. “Láttu ekki svona, Freyja mín,” sagði mamma hennar. “Þú veist að hún vill vel.”
“Mér er alveg sama.” Gréta og Jón litu á hvort annað og reyndu að bæla niðri í sér hláturinn. Ásta reif upp pakka sem á stóð: Til Ástu sætu - Frá ömmu Siggu. “Ég fékk líka pakka frá ömmu!” söng Ásta og dansaði um stofuna. “Vá, hvað er þetta?” spurði faðir hennar. “Þetta…” sagði hún. “Er…dúkka!” hrópaði hún og hljóp til mömmu sinnar til að sýna henni gripinn. Hún rétti mömmu sinni kassann. “Vá, en þú heppin.”

Jón og Gréta settust í sófann við jólatréð þegar þau höfðu lokið við að ganga frá matnum. “Haldið þið bara áfram að opna gjafirnar, stelpur, við opnum okkar bara á eftir ykkur,” sagði Jón. Stelpurnar skríktu af ánægju og réðust á fjallið undir trénu. Dúkkur, bolir, kjólar og bækur voru bara oggulítið brot af öllum þeim gjöfum sem brutust fram úr gjafapappírnum. Kvöldið gekk svona áfram alveg þangað til Jón ætlaði að fara að opna sína fyrstu gjöf. Hún var illa innpökkuð í svartan gjafapappír og á hann var límt lítið kort með svörtu, þykku límbandi. Á kortinu stóð skrifað með svörtum tússpenna: Ég hata þig, Jón. “Frá hverjum skyldi þetta nú vera?” spurði Jón með kaldhæðnum tón og andvarpaði. Hann reif pappírinn utan af og úr pakkanum birtist dauð dúfa. Hann lyfti henni upp á fótunum og höfuðið datt þá á gólfið. Gréta greip fyrir munninn og muldraði: “Hvað er að honum?” Jón vafði pappírnum utan um líkama dúfunnar, tók höfuðið upp og henti því í ruslið. “Krakkafífl, ” tautaði hann.

“Jæja, höldum þá áfram,” sagði hann og reyndi að hífa upp skapið á öllum. Stelpurnar tvær, Ásta og Freyja, voru hálfeirðarlausar. Þeim hafði brugðið við að sjá dúfuna dauða. “Svona höldum nú áfram að…” Hann gat ekki klárað setninguna því eitthvað flaug inn og braut gluggann með miklum látum. Þetta var flaska um og leið og hún brotnaði, braust út mikill eldur. Jólatréð var fyrsta bráð eldsins og pakkarnir sem voru enn undir því, hurfu fljótlega sömu leið. Eldurinn varð meiri og meiri við hvert fórnarlamb. Gréta, Ásta og Freyja voru byrjaðar að gráta á meðan Jón reyndi að finna leið út úr eldinum. “Það er engin leið út,” sagði Jón sem var byrjaður að örvænta. “Eldurinn er allsstaðar.” Glerhurðin á skápnum í stofunni sprakk og Ásta, sem var í hæð við skápinn, fékk mörg lítil glerbrot í andlitið. “Ásta!” öskraði mamma hennar og tók hana í fangið. Þau voru öll komin með bakið að veggnum. Eldurinn hafði króað þau af, þau komust ekkert í burtu. Eldurinn var ekki lengi að gleypa þau öll í sig.

Í garðinum við Sléttuhlíð 15 stóð ungur strákur í svörtum leðurjakka. Hann þurrkaði tár á hvarmi sínum. “Ég hata jólin,” sagði strákurinn og lét bensínbrúsa og kveikjara sem hann hélt á, detta í snævi þakið grasið.