Þegar gervijólatréð okkar hreinlega brotnaði í sundur þegar hundurinn stökk á það tók pabbi bara upp stóru sögina og tilkynnti okkur að núna væri komið að tréleiðangri ársins. Það voru tveir dagar í jólin og ökkladjúpur snjór, frekar lyngt og heiðskýrt. Við settum kakóbrúsa og samlokur í skottið ásamt söginni og lögðum svo af stað á bláa fjölskyldubílnum. Mamma heimtaði að vera bílstjórinn enda hikar pabbi ekki við að leika sér í hálkunni. Hann hefur margsinnis neitað beiðni móður minnar um að skella sér á nagladekk því honum finnst hitt svo miklu skemmtilegra.
Loks stansaði mamma bílskrjóðinn hjá skógræktarsvæði. Á litlu pappaskilti stóð ‘jólatréssala’, það tók okkur samt smá tíma að sjá hvað stæði því snjórinn um nóttina hafði maukað pappann dálítið. Ég skakklappaðist út úr litlum bílnum í níðþröngum snjósamfestingi sem mamma hafði átt á sínum tíma. Hann var skærfjólublár með hvítum og grænum röndum hjá öxlunum. Ég hafði sem betur fer sloppið við að fara í þessu tískuslysi í skólann en hún mamma sagði að úlpan væri alltof þunn til að fara í svona ferð. Litli bróðir minn var sem betur fer ekki nógu gamall til að hlægja að mér en hundurinn virtist hinsvegar óspart gera grín af mér. Það var eitthvað í augnaráðinu sem hann sendi mér. Kjafturinn hálfopinn svo hann virtist glotta upp til mín.
Trefillinn sem ég hafði vafið utan um hálsinn á mér til að reyna að gera hryllinginn skárri var sífellt að krækjast í furuaumingjum svo ég var orðin blá í framan af súrefnisskorti.
,,Greyið mitt’’ sagði mamma ,,er þér svona kalt?’’
Ég nýtti tækifærið.
,,Já, þessi kuldagalli gerir þveröfugt við að halda kuldanum úti, hann bara sogar hann til sín’’ laug ég, í hálfvonlausri tilraun til að fá mömmu til að henda viðbjóðnum.
Þetta hefði ég betur haft ósagt. Hún togaði mig til sín og vafði treflinum betur um hálsinn á mér svo mér leið margfalt ver. Ég hóstaði til mín súrefni meðan mamma reyndi að nudda hitann í mig.
,,Ertu að fara að fá hálsbólgu?’’ vældi hún í móðursýkiskasti.
,,Koma svo!’’ kallaði pabbi nokkrum metrum frá okkur og ég sleit mig frá klikkaðri mömmunni og hljóp til pabba. Mamma staulaðist á eftir mér í þröngum vindbuxum og síðri, ljósgrárri dúnúlpu, alveg samkvæmt tískunni því hún vildi sjálf ekkert með samfestinginn hafa.
Bróðir minn var heppinn. Hann lét fara vel um sig í rauða sleðanum sem ég hafði einu sinni átt. Mamma hafði troðið risavöxnum hausnum hans í jólahúfu og klætt mjúkar hendurnar í grófa ullarvettlinga. Það sást varla í andlitið á honum því hettan var þrengd eins mikið og mamma hafði getað. Hundurinn reyndi ýlfrandi vegna kuldans að troða sér á sleðann en var hrint harkalega í burtu af frekum bróður mínum. Svo ég tók bara kjölturakkann upp og stakk honum inn á gallann minn.
Pabbi hafði stoppað fyrir framan tveggja metra blágreni.
,,Þessi er dásamleg, fullkomin!’’ hann byrjaði að saga tréð niður án samþykkis frá okkur. Mér var svosem alveg sama, ég vissi að það kæmist ekki fyrir í pínulítilli stofunni okkar. Ég hef ekki hugmynd hversvegna hann kallaði tréð dásamleg, í kvenkyni en pældi ekkert meira í því. Mamma horfði á, brosandi þessu brjálæðisbrosi sem hún setur upp á stórútsölum á flottum skóm með tíu sentimetra háum hælum.
Þegar tréð loks skall í jörðinni svo snjórinn þyrlaðist í allar áttir reis pabbi upp, kófsveittur og rauður í framan.
,,Elsku kallinn minn, nú frýs svitinn og þér verður skítkalt’’ sagði mamma.
Ég og pabbi horfðumst glottandi í augu og kæfðum flissið við fæðingu. Mamma tók son sinn í fangið og pabbi batt risavaxið tréð við sleðann og dró hann af stað niður brekkuna í átt að bílastæðinu. Eftir örfáa metra heyrðist smellur. Þegar betur var að gáð sáum við að sleðinn hafði beinlínis klofnað í tvennt. Bróðir minn byrjaði samstundis að grenja þessu hundleiðinlega frekjugrenji, í sorg vegna sleðans, þar sem hann sat á háhest á öxlum mömmu sinnar.
,,Farðu niður eftir og sæktu hjálp, það er kofi þarna með gaurum sem gætu kannski hjálpað til’’ sagði mamma í gegnum garg sonar síns áður en pabbi gat sagt nokkuð.
Ég hljóp niðureftir. Í litlum, rauðum gámi merktur eitthverju skógræktarfélagi sátu fimm kraftaralegir menn að hlæja og drekka svart kaffi. Þer litu á mig þar sem ég birtist í gættinni á gámnum í samfestingnum sem hafði haftrað skokki mínu heldur mikið. Ég var lafmóð og reyndi að segja þeim milli hósta hvað hafði gerst og að við þyrftum hjálp við að koma trénu niður að bílastæði, mál mitt var óskýrt en þeir virtust skilja mig því þeir stukku beinlínis af stað. Þeir hlupu langt á undan mér eins og atvinnuhlaupamenn og voru löngu komnir á staðinn þegar ég hent mér þreytulega á jörðina við hlið bróður míns sem var að gera lítið snjófjall.
Kallarnir litu á mig.
,,Þú sagðir að höndin á pabba þínum hefði klofnað þegar hann reyndi að draga sleða með tveggja metra tré’’ sagði sá stærsti.
,,Nei, það hefur verið misskilningur’’ sagði mamma og útskýrði málið almennilega og þá komst loksins tréð að bílastæðinu með hjálp kraftakallanna.
Pabbi var heldur aumingjalegur við hlið þeirra og virtist ekkert líða allt of vel með það. Hann hjálpaði köllunum að festa tréð við þakið á bílnum og settist svo við bílstjórasætið þrátt fyrir ávítanir mömmu.
,,Gleðileg jól’’ kölluðu þeir á eftir okkur þegar bíllin prumpaði í gang og við héldum af stað heim. Þar blasti við okkur auðséð vandamál sem pabbi hafði ekki séð fyrir af einhverjum ástæðum. Tréð var of stórt. Allt of stórt. Pabbi sagaði mikið neðan af því og fór síðan með það á jólatréssölu til að ydda neðan af því svo það kæmist í fótinn.

Á aðfangdagsmorgun steig ég framm úr rúminu um tíuleytið. Mamma var að mata bróður minn og pabbi sat hryggur á svip fyrir framan jólatréð.
,,Ég gerði allt rétt, allt!’’ sagði hann og ég leit af honum á fullkomna tréð hans. Það var næstum alveg brúngult og lítið eftir af grænu, fyrir neðan það var allt fullt af brúnum barrnálum. Ég teygði mig undir óskreytt tréð og þreifaði á skálinni sem jólatréð var fest við, sem pabbi kallaði alltaf fót þó þetta væri ekkert líkt fæti. Hann var vanalega fullur af vatni en núna var hann næstum skraufþurr.
,,Grunaði ekki gvend’’ sagði pabbi þegar sökudólgurinn kom inn í stofuna og byrjaði að krafsa í svaladyrnar sem beiðni um að komast út til að míga. Litli tjúinn sem ég hafði fengið í tíu ára afmælisgjöf og ég hafði nennt að fara með út að labba og kenna að sitja og vera kyrr í sirka mánuð. Síðan þá hafði hann bara verið til vandræða. Eins og núna hafði hann greinilega komið sér vel fyrir í stofunni, en þar er rúmið hans staðsett, og ekki nennt um nóttina að ganga alla leið inn í eldhús til að fá sér sopa.
Mamma kom inn í stofu, sá jólatréð og brosti.
,,Við förum í Ikea, við förum í Ikea’’ söng hún og fór inn í fataherbergi í leit að kápunni sinni. Reyndar fórum við ekki í Ikea heldur eitthverja ódýra búð sem ég veit ekki nafnið á. Þar fengum við fínt gervijólatré sem við skreyttum þegar heim var komið. Pabbi keyrði með trjálufsuna út að nýársbrennu og svo héldum við jólin hátíðleg.