Amma sagði mér alltaf að afi væri engill á himnum og fylgdist með mér. Ég veit ekki hvort mér fannst það ánægjuleg eða óhugnaleg tilhugsun. Ég eyddi heilu nóttunum í það að biðja og vona að afi kæmi aftur, englar geta jú flogið. Einn daginn spurði ég ömmu af hverju hann flygi ekki bara til okkar því við söknuðum hans svo mikið. Eina svarið sem hún gat gefið mér var „Hann vængbraut sig“.
Eftir því sem ég varð eldri hætti ég að hugsa um afa sem engil. Hann var andi sem umvafði sig ömmu og húsið þeirra. Vinnustofan hans og stóllinn var umvafið afa og ég fann fyrir honum í öllu húsinu. Ég fór að kynna mér miðilsfundi, gegnt vilja foreldra minna. Loksins sannfærði ég mömmu um að koma með mér á einn slíkan fund, og ég veit með mikilli vissu að hún sér ekki eftir því. Við settumst niður hjá miðlinum sem horfði á okkur í smástund og sagði svo nafnið hans afa og skilaði frá honum kveðju. Kveðjan var stutt, aðeins tvö orð og var okkur mikil ráðgáta. Kveðjan var einfaldlega „gleðileg jól“ . Ég þóttist skynja kaldhæðni í þessum orðum sem komu úr munni miðilsins, því stutt var í desembermánuð og eflaust margir sem vilja heyra jólakveðjur að handan. Mamma hinsvegar gladdist svo um munar og brosti stanslaust út nóvember og fram í miðjan desember.
Eins og allir vita er desember erilsamur mánuður og mikið að gera hjá öllum. Ég sökkti mér í vinnu til að eiga pening í janúar. Ég gerði lítið annað en að vinna, djamma og sofa. Mamma og pabbi rifust eins og hundur og köttur þennan mánuð, enda mikið stress og peningaleysi á mínu heimili. Ég vissi fyrir víst að pabbi var ekki bara við einn kvenmann kenndur og ég vissi að mamma var að íhuga að fara frá honum fyrir fullt og allt, en gerði það ekki af tillitssemi við mig og yngri systur mína, við vorum aðeins 15 og 17 ára gamlar. Systir mín sökkti sér í íþróttir og ræktina á þessum tíma, hún fékk sína útrás í adrenalínflæðinu. Hvað mig varðar…ég sökkti mér í djamm og dóp.
Ég var alltaf mikill djammari og í nóvember á þessu ári prófaði ég fíkniefni i fyrsta sinn. Það leið ekki á löngu áður en ég varð að fá skammt nánast daglega. Ég var veikgeðja og kunni ekki að segja nei. Ég gisti fangaklefa tvisvar fyrir 10.desember fyrir ólæti á almannafæri. Ég fékk eina kæru á mig fyrir vörslu fíkniefna og eina fyrir sölu. Ég var orðin algjörlega stjórnlaus og var föst í vítahring sem snerist í kringum fíkniefni.
Ég veit ekki hvað kom yfir mig en einn daginn ákvað ég að fara í kirkju. Ég sat bara í kirkjunni og hlustaði á prestinn messa yfir öllum. Það voru englamyndir á veggjunum og mér varð hugsað til afa og kveðjunnar sem hann bar til okkar. Aðeins nokkrir dagar voru í jólin og mér leið hreint ekki gleðilega. Þarna, þar sem ég sat á bekk í kirkjunni, tók ég afdrifaríka ákvörðun og lét renna af mér og fékk mér aldrei aftur. Ég þakka englum himnaríkis fyrir þennan viljastyrk sem kom yfir mig.
Það virtist allt vera á uppleið þremur dögum fyrir jól. Ég var búin að vera edrú í viku, sem mér fannst mikill árangur, systir mín var meira heima og foreldrar okkar tóku sig á okkar vegna. Kannski þetta yrðu gleðileg jól eftir allt saman. Þar til ég dó.
Það kom mér líka á óvart, ég ætlaði mér það alls ekki. Jólin voru hreint ekki gleðileg. Mamma og pabbi voru skilin fyrir áramót og systir mín flutti með mömmu til Danmerkur. Mörgum árum seinna veiktist pabbi og dó líka. Amma dó úr elli. Mamma lenti í bílslysi. Systir mín…já hún systir mín. Hún barðist við illan sjúkdóm í mörg ár en endaði í misnotkun svefnlyfja og svipti sig að lokum lífi. Það eru mörg ár síðan þetta gerðist.
En nú sit ég milli afa og ömmu á skýji og á næsta skýji sitja systir mín og foreldrar. Þetta eru jólin sem afi var að tala um fyrir svo löngu. Öll saman um jólin í fyrsta sinn í langan tíma, vængbrotin eftir misheppnaða tilraun til að fljúga til jarðar.