Þá var ég komin í jólafrí og aðeins tveir dagar til jóla. Ég skildi aldrei jólin, allt þetta stress að finna gjafir og tilhneygingin til að skreyta hvert einasta horn í húsinu. Og afhverju að baka kökur sem bragðast eins og pipar? Svo auðvitað kom fjölskyldan hennar mömmu á þorláksmessu til að borða möndlugraut og saltfisk, allt eftir hefðum. Svona hafði það alltaf verið.
Ég átti lítil frændsystkini, börn systur mömmu minnar. Mamma átti tvö systkini, eldri systir hennar, Súsí og bróðir hennar sem er aðeins fáeinum árum eldri en hún, Ragnar. Systir hennar á tvö börn, litla stelpu sem er sex ára. Og auðvitað líkaði henni ekki við mig, hún fór alltaf að gráta ef ég var nálægt. Síðan var eldri strákurinn á aldur við mig. Hann var hræðilegur hnakki með heila geltúpu í hárinu sínu. Hann lét mig í friði eins og allir, yrti aldrei á mig.
Bróðir mömmu átti hins vegar aðeins eitt barn ættleitt frá Kína. Hann var ófrjór svo það var eini möguleikinn. Hún var nú orðin tíu ára og virtist ekki skilja að mér líkaði ekki að hafa fólk í kringum mig. Hún hékk alltaf þar sem ég var og kámaði út flygilinn minn.
Jólin voru eins og venjulega í ár, nema mamma skreytti eins lítið og hún gat þar sem við vorum að flytja í nýtt hús á milli jóla og nýárs. Ja nýtt hús var nú ekki alveg orðið, nýja íbúð. Við vorum að flytja í blokk á móti skólanum.
Þar sem við vorum aðeins tvær á heimili þurfti mamma að hringja í flutningarmenn til að hjálpa sér að pakka saman dótinu og bera það út í stórann flutningarbíl. Henni líkaði aldrei að fá hjálp við nokkurn skapaðann hlut en hún lét sig hafa það þar sem hún gat ómögulega ekki gert þetta ein.
28 desember vorum við loksins komin í nýju ibúðina okkar. Við höfðum fengið hana snemma þar sem eigandinn hafði verið örvæntingarfullur að selja íbúðina sína. Ég skildi það samstundis þegar ég sá íbúðina fyrst. Hún var lítil og subbuleg með aðeins tveim litlum svefnherbergjum og lítilli stofu sem gegndi sama hlutverki og eldhús. Baðherbergið var með gulum þema og klósettið virtist ekki hafa verið þrifið í nokkurn tíma.
Mitt herbergi var minnst, eini glugginn í herberginu sneri út að skólanum og litlu svalirnar voru rétt við gluggann minn. Flygillinn minn var seldur og í staðin keypt píanó þar sem það tók ekki eins mikið pláss. Ég var ekki sátt við það, ég hafði átt flygilinn síðan ég byrjaði fyrst á píanó og hann var í toppstandi. Í staðin fékk ég svart píanó sem var gamalt og notað og þurfti nauðsynlega að stilla. Nóturnar voru falskar og tónarnir ekki eins hreinir og þeir höfðu verið í flyglinum. Ég hélt mér við fiðluna mína á meðan píanóið fór í stillingu og viðgerð.
Herbergið mitt var jafnvel tómlegra í þessari íbúð, veggirnir voru krítahvítir og það eina í herberginu var rúmið mitt, lítil kommóða sem fylgdi íbúðinni, hilla og náttborð. Það voru bara rimlatjöld fyrir glugganum sem gerði herbergið ennþá kaldara. Auðvitað var mér sama um það, ég gerði herbergið mitt aldrei persónulegt þar sem ég var ekki með neinn persónuleika, bara tóm sem bergmálaði inn í mér.
Sauðárkrókur var lítill bær. Ég skipti bænum í fernt, fyrst var það Brekkuhverfið en það voru margar götur sem allar enduðu á brekku eins og til dæmis Árbrekka. Hverfið var á brekku sem leiddi upp í hlíðarhverfið. Það voru aðeins nýlegri hús. Fyrir neðan þessi tvö hverfi var svo bæjarhverfið en það var stærsta hverfið og elsta. Húsin voru gömul og sum hver höfðu þokka yfir sér en önnur virtust vera að detta í sundur. Ég bjó í þessum hluta á mörkunum á honum.
Aðeins neðar en bæjarhverfið var iðnaðarhverfið. Þar var tónlistarskólinn sem ég var að byrja í um leið og ég byrjaði í skólanum. Alls konar vöruhús voru þar og allt tengt bílum og fyrirtækjum.
Allt í allt var þetta notalegur bær með mikinn persónuleika og þetta augljóslega bær þar sem allir þekktu alla.
Skólinn sem ég var að byrja í hét Árskóli og var skipt í tvo hluta. Annar hlutinn var lengra frá blokkinni minni og var fyrir 1. til 3. bekki. Sá skóli var málaður gulur og var með stórt leiksvæði fyrir krakkana. Tveir kofar voru rétt fyrir utan skólann fyrir 1. bekkinn.
Hinn hlutinn var fyrir miðdeildina og unglingadeildina. Skólinn þar var í laginu eins og ‘u’ og var skipt í þrjá hluta. Það voru nokkur leiksvæði, tveir körfuboltavellir, tveir fótboltavellir og leiksvæði í miðju u-inu.
Á fyrsta deginum mínum þar fór ég í álmuna sem var nær blokkinni minni. Það var greinilega eldri álman og húsgögnin voru sorglega gömul. Krakkarnir voru byrjaðir að leka inn í stofuna. Bekkurinn minn var fámennur, aðeins átján krakkar með mér.
Kennarinn minn hét Páll og var hávaxinn maður með spékoppa og úfið, svart hár. Hann átti ekki erfitt með að þagga niður í bekknum því það virtist vera að krakkarnir hérna væru aðeins rólegri heldur en þeir voru á höfuðborgarsvæðinu.
,,Jæja, þá erum við að byrja nýja önn,’’ sagði hann við bekkinn en það var svo mikil dauðaþögn að ég velti því fyrir mér hvort hann gæti dáleitt krakkana. ,,Og eins og þið sjáið er kominn ný bekkjarsystir.’’ Bætti hann við og benti að mér en það var óþarfi þar sem allir sneru sér við í sætunum eins og þeim hafi verið gefið leyfi til að stara. Stelpa á borði nærst mér brosti til mín en ég horfði bara fram fyrir mig.
,,Viltu kynna þig?’’ spurði Páll kennari og brosti vinalega til mín.
,,Ég heiti Hrefna,’’ sagði ég og tók eftir hvernig það virtist fara eins og bylgja um bekkinn þegar þau heyrðu í tærri rödd minni, eins og hrollur um allann bekkinn.
,,Og hvaðan kemurðu?’’ spurði hann og hvatti mig til að tala.
,,Ég kem frá Reykjavík.’’
,,Og hvernig var að búa þar?’’ spurði hann. Hann var greinilega bara að þessu til að tefja kennsluna aðeins, gefa krökkunum tíma til að aðlagast.
,,Ég veit það ekki.’’ Sagði ég sannleikanum samkvæmt. ,,Fínt, býst ég við.’’ Bætti ég við þegar hann horfði ringlaður á mig.
Fyrsti dagurinn minn var nokkurn vegin svona. Fólk var að spyrja mig spurninga hvernig mér líkaði hérna og ég vissi ekki hverju ég ætti að svara þannig ‘fínt’ virtist vera fast á vörum mínum. Það virtist vera það sem þau voru að fiska eftir.
Stelpurnar reyndu að tala við mig í frímínútunum og buðu mér að vera með í sippi. Ég neitaði og hélt mig útaf fyrir mig. Of vinalegt fólk var uppáþrengjandi og því miður var þetta of vinalega fólk í meiri hluta hér í skólanum.
Það voru fáir strákar í bekknum mínum en þeir virtust allir dragast að mér. Þó sérstaklega einn strákur sem sagðist heita Gylfi. Hann sat um mig í frímínútunum og sýndi mér skólann. Skólinn var á þrem hæðum þó hann virtist vera á tveim. Tvær efstu hæðirnar voru venjulegar kennslustofur, tölvuverið, bókasafnið, matsalurinn og íþróttahúsið sem var tengt við skólann. Neðsta hæðin var mest megnið félagsmiðstöðin, Friður. Verklegu fögin voru á henni en neðsta hæðin var minnst.
,,Hverig líkar þér við skólann?’’ spurði Gylfi þegar hann var búinn að sýna mér hvert einasta horn skólans.
,,Hann er fínn.’’ Sagði ég af vana óskaði þess að hann myndi láta mig í friði. Afhverju skildi fólkið hérna að ég vildi ekki vera með neinum?
,,Komdu nú með eitthvað aðeins frumlegra ef þú ætlar að halda þessu áfram.’’ Sagði hann og glotti til mín.
,,Ha?’’ spurði ég.
,,Þér líkar ekki við skólann en þú getur nú alveg notað eitthvað orð en fínn svo fólk trúi þér.’’ Sagði hann glettnislega.
,,Ja…’’ sagði ég, ekki viss um hvernig ég ætti að leiðrétta hann eða hvort ég ætti að leiðrétta hann. En augnaráð hans ruglaði mig. Hann starði beint í augu mín og hallaði aðeins undir flatt og það var einhver tilfinning í dökkum augum hans sem ég skildi ekki.
,,Þú ert með ótrúlega falleg augu.’’ Sagði hann lágt og starði ennþá í augu mín. Ég lyfti annari augnarbrúninni og beið þar til hann jafnaði sig á hverju sem hann var að ganga í gegnum.
,,Við verðum að fara í tíma.’’ Sagði ég þegar bjallan hringdi. Hann kinkaði kolli og gekk með mér að stofunni okkar sem var á annari hæðinni. Ég skildi ekki afhverju hann horfði svona á mig og ég skildi ekki afhverju hann þurfti að ganga svona nálægt mér, þessi skóli var alveg búinn að rugla það litla sem ég vissi um tilfinningar.
Gylfi hélt áfram að elta mig en restin af krökkunum í bekknum voru hægt og rólega byrjuð að skilja að ég vildi ekki návist þeirra. Ég vissi ekki hvort Gylfi var eitthvað þroskaheftur ef hann sá það ekki en hann virtist elta mig hvert sem ég fór. Enn og aftur skildi ég ekki þörf hans fyrir þessa nálægt við mig og ég velti því fyrir mér afhverju hann hélt sig ekki frá mér eins og bekkjarfélagar hans, hann virtist vera sá eini sem skildi það ekki.
Fjóra daga í viku fór ég í tónlistarskólann, tvisvar í fiðlutíma og tvisvar í píanótíma. Þetta voru eina tímarnir sem ég fékk að finna tilfinningar þar sem hljóðfæri voru ekki vel liðin í blokkinni minni en veggirnir voru svo þunnir að það heyrðist yfir í hina íbúðina ef stóll var dreginn frá borði.
Bærinn var þægilegur, krakkarnir voru allt í lagi en eina ráðgátan var Gylfi, afhverju hann var ekki með nógu mikið vit til að halda sér frá mér.
The word ‘politics’ is derived from the word ‘poly’, meaning ‘many’, and the word ‘ticks’, meaning ‘blood sucking parasites’.