Rigningin Þetta er í fyrst skiptið sem ég hef gert einhverja svona smásögu, ja eða kannski er þetta bara örsaga, nema kannski í sögubók í fyrsta bekk… en jæja hér kemur frumburðurinn minn:

Ég man hvernig rigningin féll á axlir mínar, söng á malbikinu. Og ef maður hlustaði vandlega heyrði maður malbikið taka undir “I'm singing in the rain”

En ég leit bara upp í dimmblá skýin og söng með sjálfri mér “mér finnst rigningin góð” ..mér finnst hún virkilega góð

…Ég man eftir stingnum í hjartanu þegar ég hafði áttað mig á því að þú værir ekki að koma. Auðvitað hefur þú þínar ástæður..

Ég man bara hvernig stingurinn breiddist út um allan líkama, í hverja æð, í hvern blóðdropa, breiddist hratt.
Og allt í einu fann ég heitann dropa falla eftir vanganum, niður hálsinn, stoppa þar, eins og hann vissi ekki hvert hann ætti að fara en skreið svo eftir bringunni, niður eftir brjóstinu, féll í naflann og stoppaði þar.

Já stundum kemstu bara ekki.

En mér fannst rigningin góð og ég ætlaði að bíða eftir þér, sama hvað. Ég syng bara í rigningunni með malbikinu. Ég ætla að hætta að gráta því himininn grætur núna fögrum tárum sem kunna að syngja.

Ég man að ég beið þín með tár í naflanum og söng “mér finnst rigningin góð trallalallala…voó…”