Jæja, bara smá saga sem ég skrifaði, öðruvísi en venjulega en mér fannst hún ágæt og ákvað að láta á hana reyna hérna. Njótið vel.Ég held að það hafi verið hundurinn sem gerði útslagið. Þetta litla skrímsli sem kom inná heimili mitt án þess að ég fengi nokkru um það ráðið. Þá varð þetta endanlegt. Við yrðum saman að eilífu.
Hún kom með þetta hvolpakvikindi og sagði að mamma hans hafi dáið og hann væri við dauðans dyr og við hreinlega urðum að bjarga dýrinu. Og við björguðum. En það var ekki nóg, neinei, dýrið er ennþá hérna, þrem árum seinna. Stelpan líka. Ekki fá rangar hugmyndir úr þessu, ég elska hana…bara… ekki hundinn. Hundurinn er verkfæri djöfulsins. En hún elskar hann og þessvegna verð ég að þykjast elska þetta dýr.
Samband okkar hefur alltaf verið svolítið erfitt. Ég drekk um helgar og verð leiðinlegur í glasi, henni líkar það illa. Ég hef þó aldrei nokkurntíma verið viljandi leiðinlegur við hana. Svo vinn ég mikið. Nánast öll kvöld og allar helgar og um leið og ég fæ tækifæri til fer ég á sjó. Ég er ömurlegur kærasti, en ég elska hana og hún hlýtur að elska mig því hún er hér enn.
Hvað hún sá við mig í fyrsta sinn sem við hittumst er mér mikil ráðgáta. Ég var blindfullur, röflandi og nýkominn af sjó, lyktandi eins og fiskihlaðborð. En hún var gullfalleg. Sat þarna á barnum með vinkonum sínum þegar einhver röflandi vitleysingur bíður henni í glas, sem hún neitar pent. En henni hlýtur að hafa litist eitthvað á þennan röflandi vitleysing því við enduðum heima hjá mér þessa nótt…og hún hefur varla farið síðan.
Ég er ekki ennþá búinn að biðja hana að giftast mér. Við erum búin að vera saman í 5 ár en ég hef ekki enn tekið þetta stóra skref. Ég veit ekki af hverju, ég er líklega hræddur við að hún segi nei. Ég veit samt að einn daginn verð ég að taka af skarið. Hún talar um brúðkaup daginn út og daginn inn. Svo vill hún líka börn. Hún varð ólétt einu sinni, en missti fóstrið. Læknarnir töluðu um utanlegsfóstur og að það væri líklegt að það myndi gerast aftur. Hún vildi ekki reyna aftur. Fósturlátið fór alveg með hana. Hún vildi láta svæfa hundinn, sem hún elskar þó út af lífinu. Hún talaði ekki við mig eða vini sína og hringdi sig inn veika í vinnuna dag eftir dag. Ég áttaði mig fyrst á því hvað ástandið var slæmt þegar hundurinn var farinn að ráfa ýlfrandi um með skottið milli lappanna. Hann var alltaf fjörugur, dýralæknirinn minntist eitthvað á ofvirkni í honum. En núna var hann niðurbrotinn því húsbóndi hans var niðurbrotinn. Eitt kvöldið lagði hann hausinn í fangið á henni og ýlfraði lágt. Hún kraup niður í hans hæð og brotnaði endanlega saman. Hún grét sárum gráti í feldinn á honum meðan hann stóð þolinmóður og sorgmæddur á svip. Það var eina skiptið sem ég sá hana gráta.
Með tímanum tók hún gleði sína á ný. Hún skipti um vinnu, við máluðum svefnherbergið og hún fór að tala um að eiga börn. Ég var hikandi með það, vildi ekki sjá hana ganga aftur í gegnum fósturlát. En það heppnaðist allt. Hún þarf að fara varlega, en hún er komin 6 mánuði á leið. Ég held fast í vonina, læknarnir sögðu að það gæti allt gerst. Ef hún fær minnstu verki fer ég beint upp á spítala með hana. Ég veit það hljómar kjánalega en mér þykir svo innilega vænt um hana. Ég er jafnvel að spá í að hætta að fara á sjó og skipta um vinna svo ég geti verið meira með henni og barninu. Það verður erfitt, ég dýrka að fara á sjó. Finna sjávarlyktina, vinna svona mikið…ég á virkilega eftir að sakna þess. En hún og barnið koma fyrst. Ég held að tilgangurinn með því að létta svona á mér sé einfaldlega…Ég elska þessa stelpu og ætla mér að vera með henni að eilífu þó það þýði að ég verði að fórna öllu öðru sem ég elska.
Ég elska hana mest.