Nokkrir krakkar voru að leik á litlum leikvelli í miðju íbúðarhverfi. Sumir hengu í klifurgrind á meðan aðrir voru í eltingaleik í gegnum lítið steypurör sem stóð á miðjum leikvellinum. Það var mikil kátína í loftinu, enda ekki oft sem þau fengu frí í skólanum á virkum dögum.

- Sjáið þið! hrópaði einn krakkinn. Þarna er hvít kanína!

Lítil albínóakanína kom á harðastökki þvert yfir leikvöllinn. Hún renndi rauðum augunum til krakkanna sem komu hlaupandi á eftir henni í þeirri von um að ná henni og fá að klappa smá. En kanínan hafði ekki tíma fyrir svoleiðis vitleysu í dag. Hún flýtti sér rakleitt áfram út af leikvellinum og stökk inn í runna til þess að týna krökkunum.

Hún var svo upptekin við að fylgjast með því hvert krakkarnir færu að hún var nærri búin að rota sig á kókdós sem lá inni í runnanum. Hún áttaði sig þó fljótt og hoppaði aftur af stað áleiðis þegar hún hafði gengið úr skugga um að krakkarnir væru farnir framhjá.

Það var haustlykt í loftinu og kanínan fann greinilega fyrir köldum rakanum sem hríslaðist um hana alla. Berin á trjánum voru að syngja sitt síðasta og laufin óðum að samlitast þeim.

Nú tók að rigna og kanínan leitaði skjóls um stund undir litlum vörubíl sem lá á hvolfi uppvið stóra blokk. Kápuklæddar ungar stelpur gengu hlæjandi framhjá án þess að taka eftir henni. Loks afréð kanínan að ekki væri vert að bíða lengur eftir rigningunni og stökk af stað áfram að markinu. Hún fann matarlyktina sem laggði frá kjúklingastaðnum. Fánarnir voru alveg hreyfingarlausir í gráu andrúmsloftinu.

Nei, hvað var þarna? Kaffibolli lá á hliðinni framundan. Forvitni kanínunnar varð henni yfirsterkari og hún stökk af stað til þess að athuga hvort nokkuð þar væri nokkuð ætilegt að hafa.


Maður brunaði út Hamrahlíðina í stóra, nýja bílnum sínum. Rosalega var hann stoltur af þessu rauða tryllitæki. Nei, það var sko ekki hægt að aka svona bíl á þrjátíu, sagði hann við sjálfan sig á meðan hann þaut yfir hraðahindrunina án þess að hægja á sér.

Allt í einu sá hann litla, hvíta kanínu koma stökkvandi yfir götuna. Hann snarhemlaði en það var of seint. Lítill, blóðrauður skrokkurinn skvettist upp á rúðuna en vinnukonurnar ýttu honum niður á húddið þar sem hann lá, af og til truflaður af föstum takti rúðuþurrkanna.