“Mér finnst að við eigum að taka hann úr sambandi, þetta er ekkert líf,” sagði Jónas. Margrét snéri sér frá glugganum, með tárin í augunum. Farðinn hafði lekið niður um kinnarnar og var byrjaður að þorna í þeim fáu hrukkum sem voru í andliti Margrétar.
“Ég get það ekki Jónas, ég gæti ekki fengið það af mér, ekki okkar eina son.” “Alltaf sama vælið í þér kerling, þorir ekki að taka ákvarðanir. Þetta var ein af ástæðum fyrir því að ég vildi skilnað.” “Æji, gerðu það Jónas, ekki draga hjónabandið inn í þetta,” sagði Margrét.

Hættið að rífast og slökkvið á vélinni.

Læknirinn kom inn og tók af sér gleraugun er hann gekk að foreldrum Magga. “Eruð þið búin að komast að niðurstöðu? Maggi getur ekki verið endalaust í vélinni, hann er kominn með alvarleg legusár og eins og þið vitið þá eru margir kvillar sem fylgja þegar fólk er svona lengi í öndunarvél. Ég veit að þetta tekur á en þið verðið að fara að ákveða ykkur.”
“Magga, við verðum að ljúka þessu núna. Hann kemst á miklu betri stað ef við tökum vélina úr sambandi.”
“Ég veit en ég get bara ekki fengið það af mér að gera þetta, að drepa minn eiginn son.”
“Það er langt í frá að þið séuð að drepa hann með þessu. Þegar fólk er búið að liggja í næstum því fimm mánuði í öndunarvél þá er eru alltaf rosalega litlar líkur á því að fólk vakni aftur,” sagði læknirinn.

Ljúkið þessu bara af, andskotinn hafi það!

Margrét var byrjuð að hágráta. “Svona, svona Magga, reyndu nú aðeins að róa þig.” Margrét róaði sig aðeins niður og inn á milli ekkasoganna heyrðist: “Æj, fyrirgefðu mér Maggi minn. Ég veit ég hef aldrei verið sterk manneskja.”

Fjandinn hafi það mamma, slökktu á vélinni!

“Get ég fengið smá tíma ein með Jónasi, læknir?” spurði Margrét.
“Já, ekki málið,” sagði læknirinn og gekk út.
“Jónas, ég get ekki gert þetta. Við verðum að gefa þessu aðeins meiri tíma.”
“Þetta hefurðu verið að segja í tvo mánuði. Þó að þetta sé erfitt þá verðum við að gera það.” “Já, innst inni veit ég það,” sagði Margrét, enn hálfgrátandi. “En það er eitt sem ég vil að við gerum fyrir Magga. Við skulum biðja fyrir honum.” Allt í einu varð hjartalínuritið óreglulegra en það hafði verið.
“Maggi minn,” kallaði Margrét. Maggi opnaði augun varlega.
“Mamma, hvað er að þér,” sagði hann. Margrétt vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta, hún gerði hvorugt. Maggi rétti hendina í áttina að mömmu sinni. Mamma hans rétti sína á móti, brosandi en með tárin í augunum. En Maggi ætlaði ekki að taka í hendina á mömmu sinni heldur teygði hann sig lengra og í öndunarvélina og sagði: “Þetta átti að gerast fyrir löngu.” Svo slökkti hann á vélinni.