Fjall er ekki bara stór grjóthnullungur, það er svo miklu meira. Það er kvika, það er hraun, ofbeldi og átök, friður og rósemd, heimili og skýli, ógnarstærð náttúrunnar og smæð hennar. Fjöll eru sögur.
Fjöll rísa og síga, drottna og þjóna og á hverjum degi vikur gengur gamall maður upp á fjallið til að gefa músunum. Í fyrstu hélt hann a hann myndi deyja á leiðinni á toppinn. Leiðin er brött og skriður þekja efsta partinn. Maðurinn náði toppnum og settist svo, viss um að hann hefði það ekki niður. Hann er líka níræður elskulegur, maður sem hefur lifað af sér langa röð atburða, hvort sem hann átti þátt í þeim eður ei. Þeir voru.
Hann gengur til að gleyma. Þó svo að hann segi sér jafnt sem öðrum að hann gangi sér til heilsu, hrausts og ánægju þá er raunin önnur. Hann hefur upp viský pelann, tvö staup á dag leyfir læknirinn en 5 staup gera daginn mun betri heldur en 2. Synirnir tveir í útlöndunum og dóttirin á hinu landshorninu. Lífið er rólegt, heldur rólegt.
Maðurinn greinir hreyfingu og aðra. Fjallstoppurinn virðist iða af lífi. Lítið viðkvæmt en þó svo aðlagað. Og loks sést skepnan í engu sérstöku veldi en þó á toppi tilverunnar. Það er lítil mús, í raun litlar mýs því þær eru þó nokkar. Skjótast hér og þar, ofan í holu og önnur upp úr stuttu frá. Agnarsmáar en forvitnin gæti gleypt fjallið sjálft. Maðurinn geymir á sér nestispoka og fleygir skinkubita örstutt frá sér. Þessi nagdýr éta allt. Skinkan situr ósnert en um leið og ostur kemur úr humátt þá lifnar aðeins yfir hjörðinni og litlar snoppur snultra nett yfir ilmandi krás. Allar gjafir hverfa og þiggjendurnir víkja hér og þar í holur og maula, maula svo afar ört.
Það var eflaust ástæða fyrir því að hann kemur enn en það myndi hann aldrei játa, ekki fyrir sér, ekki fyrir öðrum. Það er svo erfitt að horfa á lokuð augun. Hún sefur mest allan daginn, elskan mín, íðilfagra ástin mín. Vaknar í tíma fyrir stutt síðdegiskaffi og sofnar svo á ný. Það er þá sem maðurinn er heima og þegar að hann sefur og les. Hann les. En undanfarið hefur hann leitað á fjallið.
Hann heilsar ekki hinum umfarendum fjallsins. Hann er ekki hér fyrir mannlegan félagskap. Osturinn er stærri en í gær og heldur blessuðum smádýrunum nálægt þegar hann hefur náð toppnum. Blessuð dýrin, hví ætli þau séu aðeins á toppnum. Eins og nýlenda fyrir yfirgefin dýr. Samansafn þeirra sem hafa lifað. Ætli þær hafi verið fæddar í ferhyrndu umhverfi. Veggir á fjóra vegu. Ætli þeim hafi verið gefið að borða og þau svo færð til næstu húsa, fundið sér félaga, sumum hlúð að, aðrar aðeins tilraunir til þess að fylla upp í umhverfið. Að lokum leifar fyrri tíma, sumar eru fluttar á fjallið en aðrar ganga þangað. Elskuleg eiginkona, og börn, faðir, sonur og skírður andi. Augun leita út eftir brattanum, út með vötnunum, renna stutt yfir borgina, stoppa stutt til að umvefja hjörtun hans, allar hans ástir og elskur og loks til skýjanna.
En fjallið heldur áfram.

Öll álit, góð eða slæm vel þegin.