Barzai og Atal héldu út í eyðimörkina frá Hatheg þrátt fyrir bænir smábændanna, og ræddu um guði jarðar við varðeld sinn á kvöldin. Þeir ferðuðust í marga daga og langt fjarri þeim gnæfði Hatheg-Kla krýndur harmsáru mistri. Á þrettánda degi komu þeir að einmana rótum fjallsins, og Atal skýrði frá óttum sínum. En Barzai var gamall, lærður og hræddist ekkert, svo að hann leiddi förina djarflega áfram upp hlíðina sem enginn maður hafði klifið síðan á tímum Sansu, sem sagt er frá á óttafullan hátt í hinum mylguðu Pnakotísku handritum.
Grýtt var leiðin, og háskaleg sökum gljúfra, klettaveggja og steinhruns. Eftir því sem ofar dró varð kaldara og leiðin snjóþyngri, og oftar en ekki misstu þeir fótfestu og duttu. Loftið varð þynnra og fjallgöngumennirnir áttu erfitt með að anda, en samt héldu þeir áfram með stafi sína og axir. Þeir dáðust að sérkennilegu landslaginu og voru jafnframt spenntir yfir því hvað myndi gerast á tindinum þegar tunglið væri hulið og fölleit þoka breiddi úr sér. Í þrjá daga klifu þeir hærra og hærra í átt að himnaþakinu, svo að lokum að þeir gerðu sér búðir og biðu eftir að fyrir tunglið drægi.
Fjórar nætur liðu en aldrei varð skýjað. Tunglið skein kaldri birtu í gegnum þunna, harmþrungna mistrið sem huldi toppinn. Fimmtu nóttina, þegar fullt tungl sigldi yfir næturhimininn, sá Barzai miklar skýjaborgir langt í norðri, og vakti við hlið Atal og horfði á þær koma nær. Þykkar og tignarlegar skriðu þær hægt og ákveðið nær. Skýin lögðust að tindinum langt fyrir ofan áhorfendurna og huldu toppinn og mánann. Í allt að klukkustund störðu þeir á. Á meðan þyrluðust þokurnar um tindinn og skýjaveggurinn varð þykkri og órólegri. Barzai var lærður í goðsögum guða jarðar og hlustaði vel eftir ákveðnum hljóðum, en Atal fann fyrir kuldabiti þokanna og óttablandinni lotningu gagnvart nóttinni, og hræddist mjög. Þegar Barzai var lagður af stað upp á toppinn og kallaði ákaft á Atal að fylgja, leið langur tími áður en hann hélt á eftir Barzai.
Þokurnar voru svo þykkar að erfitt að var feta sig áfram og þrátt fyrir að Atal hafi fylgt að lokum, gat hann í móskukenndu mánaskininu rétt greint gráar útlínur Barzais í dimmri hlíðinni fyrir ofan sig. Barzai ruddi sér leið langt á undan Atal og þrátt fyrir aldursmuninn sem var á þeim tveimur, virtist hann eiga mun auðveldar með að klífa. Hann hræddist ekki þegar hlíðarnar urðu of brattar fyrir hvern sem ekki var sterkur og óttalaus, né hægði hann á sér við breið og svört gljúfur sem Atal gat naumlega stokkið yfir. Og svona héldu þeir áfram upp kletta og gjár, runnu og hrösuðu. Þeir dáðust stundum að víðáttunni og ógnvænlegri þögn veðurbarðra ísturnanna og málleysi graníthlíðanna.
Skyndilega hvarf Barzai Atal sýnum, þar sem hann var að klífa hamar sem virtist bólgna út og standa í vegi fyrir hverjum sem ekki var blásinn andi í brjóst af nærveru guða jarðar. Atal var langt fyrir neðan og íhugaði hvað hann skyldi gera þegar hann næði toppnum, þegar það vakti það eftirtekt hans að ljósið varð bjartara, eins og að heiður og tunglbjartur staður stefnumóts guðanna væri nærri. Og eftir því sem hann klöngraðist nær þrútna hamrinum og upplýstum himninum fann hann fyrir sterkari skelfingu en hann hafði nokkurn tímann fundið fyrir áður. Í gegnum háfleygt mistrið heyrði hann Barzai í alsælu ákaft kalla:
,,Ég hef heyrt í guðunum. Ég hef heyrt glaumsöng guða jarðar á Hatheg-Kla! Raddir guðanna eru Barzai spámanni kunnar. Þokurnar eru þynnri, máninn bjartur og brátt sé ég trylltan dans guðanna á Hatheg-Kla sem þeir elskuðu áður. Vitneskja Barzais hefur gjört hann meiri en guðina, og gegn vilja hans mega galdrar þeirra og varnir síns lítils. Barzai mun líta guðina augum, hina stoltu guði, hina leyndu guði, guði jarðar sem fyrirlíta að sjá menn!”