V

,,Lífið er spennitreyja” hugsar hann og starir upp í loftið. Hann liggur á bakinu í tvíbreiða rúminu þeirra. ,,Í hvert skipti sem ég vil komast í burtu, vil sleppa héðan grípur raunveruleikinn inn í og heldur aftur af mér”.
Hann lítur á hana en rólegur og taktfastur andardráttur hennar gefur til kynna að hún sofi vært. Hann horfir aftur upp.
,,Lífið er í raun og veru bara tilbreyting á dauðanum. Áður en við fæðumst er bara svart og eftir að við deyjum er líka svart. Lífið gerist bara í nútíð. Fortíðin er liðin og framtíðin gerist þegar hún verður að nútíð. Lífið er bara til á einum tíma. Ég er bara til á einum tíma. Í núinu”. Hann stendur á fætur. Hann klæðir sig í dökkbláan slopp, afmælisgjöf frá henni. Hann gengur fram í eldhús. Hann lætur vatn renna í ketil og stingur honum í samband. Hann horfir út um eldhúsgluggann, út yfir borgina og fjöllin í kringum hana. Borgin sem hann hafði fæðst í, ávallt búið í og án efa myndi einnig deyja í. Borgin sefur og hvergi er hreyfingu að sjá. Sólin er einhver staðar langt fyrir aftan fjallahringinn að teygja úr sér og gera sig klára til að vekja borgina aftur til lífsins.
Hún stendur og horfir á hann er hann snýr sér við. Hann hafði verið svo upptekinn af útsýninu að hann tók ekki eftir henni. Er hún jafn þreytt og hann? Þráir hún tilbreytingu eða einhvern lit í lífið?
,,Gastu ekki sofið?”spyr hún.
,,Ég virðist ekki geta sofið þessa dagana”.
,,Er eitthvað sem er að angra þig?”
,,Bara það venjulega,-starfið þú skilur”. Hann á nefnilega ekki jafn létt með að skilja lífið fyrir utan íbúðina frá því lífi sem hann lifir innan veggja hennar.
,,Jæja. Áttu nóg kaffi fyrir tvo?”
Hann hellir í tvo bolla og sest við borðið. Hann starir áfram út um gluggann. Grá húsin virðast þjappa sér saman eins og þau séu að reyna að halda hita hvort á öðru. Kannski er það sem lífið gengur út á. Að finna sér einhvern til að halda hita á sér á nóttum sem þessum. Hann lítur á hana þar sem hún situr hinum megin við borðið og horfir á hann. Hann gerir heiðarlega tilraun til að brosa.
Þau hafa búið saman í fjögur ár. Kynntust á skemmtistað fyrir fimm árum. Hann lítur aftur út um gluggann. Hann reynir að muna hvernig það hafði verið að búa einn. Hvernig það hafði verið áður en hún kom til skjalanna. Var það eitthvað betra þá? Hún er sú eina sem ekki hefur gefist upp á honum. Er þetta það haldreipi sem hann leitaði að? Er ást ekki meira en að gefast ekki upp á þeim sem þú elskar? Kannski eru það örlög þeirra að vera saman og halda hvort öðru á floti. Allavega er hann viss um að þau hefðu aldrei náð þetta langt ef ekki hefði verið fyrir einhverjar sterkari tilfinningar.
,,Langar þig í ristað brauð?” spyr hún.
,,Já, takk”.
Hann horfir á hana setja brauð í brauðrist. Hann sér að hún hefur tekið eftir að hann starir á hana. Hann veit að hún tekur það ekki nærri sér þegar hann horfir á hana. Hann er mjög heppinn að eiga hana að. Hún er hans besti vinur og hann getur sagt henni allt. Í raun og veru er hún rauði liturinn í gráum hversdagsleika hans.
,,Gjörðu svo vel” segir hún og leggur disk með tveimur brauðsneiðum fyrir framan hann á borðið.
,,Takk”.
Hann stingur upp í sig brauðbita og lítur á hana. Hún hefur sest aftur á sama stað. Með alveg eins disk fyrir framan sig, með tveimur ristuðum brauðsneiðum.
,,Hvenær eigum við að gifta okkur”?spyr hann.
Andartaks þögn.
Hún lítur á hann og brosir. Hún stendur upp, gengur til hans, sest í kjöltu hans og kyssir hann. Svo horfir hún djúpt í augu hans, eins og að hún sé að leita eftir einhverju. Kannski er hún að leita að ást, skilningi eða einhverjum þarna inni sem getur haldið utan um hana þegar henni líður illa. Einhver sem er góður við hana, allt sem honum finnst hann ekki geta veitt henni á sama hátt og hún honum.
,,Varstu að biðja mín?”
,,Það má eiginlega segja það…ætli það ekki bara…eigum við að gifta okkur?”
Þögn.
Hún brosir.
,,Já”.