ég hef verið að dunda mér við það að þýða smásögur héðan og þaðan. Þessi saga er eftir H.P.Lovecraft og heitír upphaflega ,,Other Gods". Segið mér endilega hvað ykkur finnst.

Guðirnir


Uppi á heimsins hæsta tindi dvelja guðir jarðar, og líða engum manni að vera til frásagnar hafi hann litið þá augum. Áður fyrr áttu þeir sér samastað á lægri fjallatoppum, en síðan menn af sléttunum tóku að klífa snjóklæddar hlíðar og hamra fjallanna, hörfuðu guðirnir á hærri og hærri tinda, þar til nú, að aðeins einn stendur eftir. Þegar þeir yfirgáfu fyrri heimkynni sín tóku þeir með öll ummerki um veru sína, að undanskildu einu skipti, segja sögur, -er þeir skildu eftir myndristu á hamravegg fjallsins sem þeir kalla Ngranek.
En nú hafa þeir flutt á hið óþekkta Kadath, sem stendur í köldu auðninni, þangað sem enginn maður fer, og eru orðnir miskunnarlausir, þar sem þeir geta ekki flúið til annarra tinda undan ásókn mannanna. Þeir eru orðnir strangir, og það er af að þeir leyfi mönnum að hrekja sig á brott, nú banna þeir mönnum að koma, og hafi þeir komið, að snúa aftur. Það er ágætt að menn viti ekki af Kadath úti í öræfunum, annars myndu þeir í dómgreindarleysi sínu reyna að klífa það.
Stundum, þegar guðir jarðar eru haldnir heimþrá, snúa þeir aftur á kyrrum nóttum til tindanna þar sem þeir áður dvöldu, og í ljúfum harmi reyna þeir að endurvekja gamla leiki í hlíðum hlöðnum minningum. Menn hafa fundið fyrir tárum guðanna á hvítkrýnda Thurai, þó svo að þeir héldu að þau væru rigning, og hafa heyrt andvörp þeirra í hinum angurværa morgunvindi í Lerion. Guðirnir eru vanir að ferðast um á skýjaskipum, og hyggnir bændur segja þjóðsögur sem halda þeim frá ákveðnum háum tindum á skýjuðum nóttum, vegna þess að guðirnir eru ekki jafn eftirlátssamir og áður.
Í Ulthar, sem liggur handan árinnar Skai, bjó eitt sinn gamall maður sem þráði að sjá guði jarðar, maður sem var mjög vel lesinn í hinum sjö dularfullu bókum jarðar, og var kunnugur Pnakotísku handritum hins fjarlæga og frosna Lomar. Hann hét Barzai hinn vísi, og þorpsbúar geta rakið söguna af því er hann fór upp á fjall eitt sömu nótt og þegar dularfulli tunglmyrkvinn átti sér stað.
Barzai vissi svo mikið um guðina að hann gat sagt frá því þegar þeir komu og fóru, og komst að það mörgum leyndarmálum þeirra að hann var hálfpartinn tekinn í þeirra tölu. Það var hann sem ráðlagði borgurunum í Ulthar þegar þeir settu hin athyglisverðu lög gegn kattadrápum, og sagði fyrstur unga prestinum Atal hvert svartir kettir fara á miðnætti á Jónsmessunótt. Barzai var lærður í þjóðsögum um guði jarðar, og þráði að líta ásjónu þeirra. Hann trúði því að hin mikla dularfulla vitneskja hans gæti skýlt honum gegn reiði þeirra, svo að hann einsetti sér að fara upp á tind háa og klettótta fjallsins Hatheg-Kla á nóttu sem hann vissi að guðirnir yrðu þar.
Hatheg-Kla er djúpt í hrjóstugu eyðimörkinni handan Hatheg, sem fjallið dregur nafn sitt af, og rís þar eins og steinstytta í hljóðu musteri. Um tindinn stíga þokur tregafullan dans, vegna þess að þokur eru minningar guðanna, og guðirnir elskuðu Hatheg-Kla er þeir dvöldust þar áður. Oft heimsækja guðir jarðar tindinn á skýjaskipum sínum og varpa bleiku mistri niður hlíðarnar er þeir dansa undir björtum mána minnugir fyrri tíma. Þorpsbúarnir í Hatheg segja að það boði alltaf illt að klífa Hatheg-Kla, og að hverjum sé bráður bani búinn að leggja á tindinn á nóttum þegar mistur hylur toppinn og tunglið, en Barzai hugði ekki að þessu þegar hann kom frá nágrannaþorpinu Ulthar með unga prestinum Atal, sem var lærisveinn hans. Atal var einungis sonur kráareiganda, og varð stundum hræddur, en faðir Barzais hafði verið landgreifi sem bjó í gömlum kastala, svo að engin alþýðuleg hjátrú rann um æðar Barzai, og hann hló bara að skelfdum bændunum.