Aldrei hafði hann augum litið fegurri stúlku. Hárið hennar var ljóst og sítt og fór svo vel við fagurbláu augun hennar, sem geisluðu og minntu hann á bjartan sumarhimin. Grannleitt andlit hennar hreif hug hans og þegar hún brosti gleymdi hann stað og stund og starði sem dáleiddur væri á þessa magnþrungnu fegurð. Hann hugsaði með sér að svona hlytu englar að líta út, ef þeir væru þá til.

Allt í einu heyrði hann nafnið sitt kallað og leit til hliðar. Þar stóð Íris, stelpa sem hann hafði þekkt síðan í barnaskóla. Allir vissu að hún hafði verið skotin í honum í mörg ár, en hann gaf henni lítinn gaum. Enda leit hún ekki út eins og engill. Hún hafði ekki ljósa lokka heldur dökka og augun voru ekki blá, eins og í englum. Þau voru bara brún. Ekki gat hann með nokkru móti ímyndað sér engil með brún augu. Íris glotti til hans og gaf honum merki um að koma. Hann hristi höfuðið, hallaði sér aftur í sófann og gaut augunum aftur til stúlkunnar fögru, sem hann þreyttist ekki á að virða fyrir sér.

Hann þráði ekkert heitar en að kynnast þessari stúlku. Þrátt fyrir að hafa aldrei séð hana áður og þrátt fyrir að þekkja ekki svo mikið sem nafn hennar var hann sannfærður um að engin gæti gert hann hamingjusamari en einmitt hún. Hvað skyldi hún heita? Hún hlaut að heita María. Það þótti honum fallegt nafn. Hann reyndi að telja í sig þann kjark sem þurfti til að ganga til hennar og spyrja hvort hún héti ekki örugglega María. Hann svolgraði í sig því litla sem eftir var í glasinu, stökk á fætur og gekk hröðum skrefum til hennar.

Hann settist við hlið hennar og rétti fram höndina. Hún rétti fram sína og þau horfðust í augu en sögðu ekkert. Loks rauf hann þessa yfirþyrmandi þögn sem honum þótti hafa varað margar klukkustundir og stundi upp nafninu sínu. Stúlkan brosti til hans og sagðist heita Guðný. Hún hét þá ekki María, hugsaði hann. Honum var alveg sama. Reyndar var honum alveg sama um allt. Hann trúði því varla sjálfur að hann sæti hjá þessari yndisfögru stúlku. Hann áttaði sig á því að hann héldi ennþá í höndina á henni, en sleppti ekki. Hann naut þess að snerta hana og þráði að snerta hana víðar. Óafvitandi fikraði hann sig nær henni og hún á móti. Hann fann hvernig hitinn frá henni streymdi til hans og hve hjartslátturinn jókst. Þau færðust nær hvort öðru og lokuðu bæði augunum. Loks fann hann varir hennar mæta sínum eigin og sælustraumur fór um hann frá hvirfli til ilja. Varirnar hennar voru mjúkar og heitar og blautar. Þegar sjóðheit tungan hennar læddist inn fyrir varir hans fannst honum sem hann missti alla meðvitund. Hann sat ekki lengur í leðurklæddum sófa í heimahúsi í Árbænum heldur sveif hann um á hvítu skýi. Sólin skein í vitund hans og glæddi fögru ljósi allt sem var honum nærri. Allar heimsins áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir þessa björtu sólu. Tíminn fraus og ekkert annað en hann og þessi undurfagra dís sem gat uppfyllt alla hans drauma og langanir skipti máli. Álengdar stóð Íris og fylgdist með. Henni sárnaði það sem hún sá.

Skyndilega stóð Guðný upp og skildi hann eftir í andkannalegri stellingu með munninn út í loftið. Honum snöggbrá og leið eins og nálinni hefði verið svipt með heift af vinylplötu sem spilaði uppáhaldslagið hans. Eins og hann hefði verið vakinn með vatnsgusu upp frá ljúfasta draumi allra tíma. Eins og risavaxin hönd hefði birst, gripið hann af sæluskýinu sem hann sveif á og grýtt honum í jörðina.

Augnaráð hennar var djúpt og ögrandi. Hún glotti til hans og sagði honum að fylgja sér. Hann elti hana inn á baðherbergið í húsinu. Hún læsti að þeim og hóf að gramsa í veskinu þangað til hún fann lítinn poka. Upp úr honum tók hún tvær litlar töflur og rétti honum aðra þeirra. Hina gleypti hún sjálf og án þess að hugsa hermdi hann eftir henni. Svo rak hún upp skaðræðishlátur svo hann sá langt ofan í kok á henni. Augu hennar fylltust af tryllingslegum ofsa. Þau voru ekki falleg lengur. Þessi ógurlegi hlátur sem minnti hann á tröllskessuhróp eða bergrisaöskur bergmálaði milli eyrna hans. Skuggi færðist yfir fögru veröldina sem hann hafði svifið um fáum mínútum áður. Heiftarlegur, grimmur og grár skuggi. Hann fálmaði eftir hurðarhúninum og tókst að opna dyrnar. Hann svimaði ógurlega og fannst sem höfuð sitt vegi mörg tonn. Sýn hans varð myrkrari með hverri sekúndunni og öll hljóð sem bárust blönduðust saman í graut af drungaþrungnum ískrum sem nístu merg hans og bein og ærðu hann. Loks missti hann jafnvægið og skall í gólfið.



Með engu móti gat hann gert sér í hugarlund hvar hann var þegar hann rankaði við sér. Hann lá í rúmi með kaldan þvottapoka á enninu. Varfærnislega opnaði hann augun og fann að dynjandi höfuðverkur hrjáði hann. Dyrnar að herberginu opnuðust og inn gekk stúlka sem hann kannaðist við.
- Hæ, sagði hún og brosti. Þú ert bara vaknaður!
- Já, stundi hann. Hvar er ég?
- Heima hjá mér, sagði hún og hló. Þetta var bjartur hlátur, sem lét honum líða vel. Hann byrjaði að hlæja líka og þau hlógu saman um stund. Hún settist á rúmstokkinn hjá honum og þau horfðust í augu. Svo byrjuðu þau aftur að hlæja. Þau ræddu saman um heima og geima. Hún var á leiðinni í tjaldútilegu um næstu helgi og bauð honum að koma með. Hann tók vel í það en sagðist ekki eiga tjald. Hún sagði sitt tjald rúma fleiri en einn og þau brostu hvort til annars.



Sólin læddist undan litlu hvítu skýi og birtan vakti hann. Hann sneri sér á hliðina og horfði lengi á stúlkuna sem lá við hliðina á honum. Hún svaf enn. Þetta var falleg stúlka. Jafnvel þótt hún héti ekki María og hefði hvorki ljósa lokka né blá augu eins og engill. Hann virti hana vel og lengi fyrir sér. Hann hafði aldrei áður tekið eftir þykkum vörunum hennar sem honum þóttu ótrúlega kyssulegar akkúrat núna. Stöku freknur umluktu nefið, sem var beint og fallegt. Honum þóttu þær bara gera þetta andlit ennþá sætara. Augun voru stór og djúp og augnhárin löng. Á meðan hann virti þau gaumgæfilega fyrir sér bærði stúlkan á sér og augun opnuðust. Þau voru brún með dökkgrænu ívafi. Þau horfðust í augu og brostu hvort til annars.
- Hæ, sagði hún lágt. Hann sagði hæ á móti. Þau héldu áfram að brosa. Ég sé mig speglast í augunum þínum, sagði hún svo.
- Þá hljóta þau að vera falleg, svaraði hann. Hún fór hjá sér. Hann fann þægilegan fiðring fara um sig og hélt áfram að horfa á þessa stúlku sem lá við hliðina á honum. Djúpu, brúnu augun hennar urðu ennþá fallegri þegar hún brosti. Hárið hennar liðaðist fallega niður eftir andlitinu og hann fann góðu lyktina af því þangað sem hann lá. Það var dökkbrúnt og glansaði. Hann fann hve hamingja og gleði flæddu um líkama hans meðan hann dáðist að fegurð hennar. Seiðandi varirnar, sætu freknurnar og tælandi augun. Aldrei hafði hann augum litið fegurri stúlku.