Lá eitthvað á bak við? Beið einhver hinum megin til að taka á móti honum? Hann var auðvitað ekkert viss, en mátti alveg geta sér til og spekúlera. Kannski var ekkert, kannski eitthvað. Hann dæsti og leit upp í loft. Dauft ljósið frá ljósaperunni rétt lýsti upp heiminn í kringum sig.
Klukkan var sjálfsagt orðin, ja, hvað var hún orðin? Tímaskyn hans var orðið þvælt og ruglað, og sífellt myrkrið úti gaf engar vísbendingar um gang dagsins. Það var alltaf myrkur úti. Hann hafði ekki séð sól í margar vikur, eða mánuði? Hann man það ekki.
Það brakaði í rúminu þegar hann teygði sig eftir koddanum sínum. Hann faðmaði koddan og kreisti.
“Guð, ekki hafa myrkur hinummegin líka”.
Rödd hann var brostin og lág, samt virtist hún bergmála eins og byssuskot í tómu húsasundi.

Raddir frá ganginum fengu hann til að hrökkva við. Var tíminn kominn? Hann var eiginlega ekkert tilbúinn, bara aðeins lengri tíma, aðeins lengur.
Fótatökin bergmáluðu af köldum veggjunum og daufir skuggar liðu hægt eftir gólfinu.
Hann sleppti takinu á koddanum, lagði hann varlega á sinn stað og horfði einbeittur á gólfið fyrir framan sig. Fótatökin numu staðar, þeir voru fyrir utan. lágir smellir heyrðust eins og lykli væri smeygt inn í skrá. Allt í einu brakaði hátt í hurðinni þegar hún var opnuð upp á gátt. Hann horfði áfram á gólfið.
“Jæja vinur, ég vona að þú sért tilbúinn, því það er komið að því”.
Hann horfði fastar á gólfið.
Önnur rödd tók til máls. “Sonur sæll, Guð er albúinn og tilbúinn að taka við þér. Vertu óhræddur. Þú verður ekki einn. Svo erum við hér til að fylgja þér leiðina.”
Drykklöng stund leið, sem virtist teygjast út í óendaleika þegar hann leit loksins upp.
“Ég er tilbúinn.” Hann var að ljúga, en hvað átti hann að gera? Það skipti engu hvernig hann var stemmdur eða hvernig honum leið gagnvart öllu þessu. Hann átti enga aðra færa leið.
Hann stóð rólega upp. “Ég er tilbúinn” sagði hann aftur.
Hann horfði stutt í augu þess sem kallaði hann son sinn. Hlýjan úr þessum augun var svo full af vorkunn. Hvað ætli þessi maður geri þetta oft?

Maðurinn hafði heimsótt hann fyrr um daginn til að tala um guð og fyrirgefningu, las eitthvað úr biblíunni og spurði um hitt og þetta. Nú var þessi sami kominn aftur með bókina, opnaði hana einhverstaðar fyrir miðju og fór að lesa upphátt í hálfum hljóðum.
Hann steig eitt skref áfram, beið eftir því að hinir færðu sig frá og gekk svo áfram fram á gang. Það var ægilegt myrkur þarna frami, og kaldara. Eða fannst honum það bara? Voðalega var kalt.
Þeir gengu áfram að enda gangsins þar sem vígalegri hurð var hrundið til hliðar. Annar gangur tók við, ennþá lengri. Hann leit á samferðamenn sína eitt augnablik áður enn hann hélt áfram. Engin leið út, það var engin leið út nema þessi, og hann var að ganga hana sjálfur. Honum var farið að líða eins og hann væri í skipi í stórsjó, veðurofsinn í kring lemjandi kinnunginn og veltandi. Gólfið var eins og mjúkt undan fótum hans. Honum var orðið flökurt og sjónin blettuð svörtum flekkjum. Hann beit í tunguna. Ekki láta líða yfir sig þarna, ekki fyrir framan þá. Hann mátti ekki sýna veikleika.
En honum langaði svo að flýja út í nóttina. Hlaupa yfir höf og lönd, gegnum skóga og fjöll, í skjól. Og fela sig að eilífu. Hversvegna var lífið svo vont og hart? Afhverju þurfti hann að klúðra þessu svona? Bara hann gæti farið aftur í tímann akkúrat núna. Orðið tíu ára aftur, verið saklaus, svo lítill og saklaus. Hann var ekki svo saklaus í dag, og nú átti hann að borga fyrir það.

Næsta hurð nálgaðist. Einn maður steig fram og stakk lykli í gat og opnaði hægt og rólega þar til voldugur tréstóll blasti við inn í miðjunni á litlu grámáluðu herbergi. Leðurólar héngu af armhvílunum og á stólfótunum. Fyrir ofan bakið var eitthvað sem leit út eins og járnkoppur á hvolfi. Hann hafði heyrt um þennan stól frá því í þegar hann var ungur. Þá voru menn nýfarnir að nota hann og yfirvöld voru svo stolt af því að nota undratöfra rafmagnsins til að knýja refsingartólið nýja.
Nú stóð þessi tréhlutur fyrir framan hann eins og hann væri að bjóða honum að fá sér sæti.

Hann leit aftur fyrir sig. Þeir stóðu sviplausir við hurðina, annar hávaxinn og virtist hverfa í myrkrinu upp við loft. Sá með biblíuna las nokkrar línur áður en hann hætti og leit á hina.
Varlega en ákveðið var honum snúið við og hann látinn setja niður á stólinn.
Annar maðurinn sagði lágt við hann “Þetta stendur stutt yfir, en hví ætti þér ekki að vera sama? Þú átt þetta nú skilið er það ekki? Vertu glaður að þú færð fara á manneskjulegan hátt.”
Hann fylgdist hálftitrandi með þegar þeir hófu að óla hann við stólinn. Engin leið út, engin leið sagði hann aftur og aftur í huganum. Engin leið.
Hurðinni var lokað um leið og járnkoppurinn var lagður á höfuð hans. Hann kipptist við þegar small í einhverju fyrir aftan hann. Allt í einu var svartri grímu lætt yfir höfuð hans og það ólað við bakið, algert myrkur tók við. Hann tók andköf. Hann vildi ekki fara núna, ekki núna! Djúpt í huga hans tók hræðslan við yfirhöndinni og hann tók að toga í ólarnar.
“Svona sonur, láttu ekki óttan ná yfirhöndinni. Þú veist að guð fyrirgefur og tekur við þér”.
Hann togaði aftur, ólarnar gáfu ekki millimetra eftir, hann var var rígfastur. Og átti ekki mikið eftir. Honum langaði að fá meiri tíma, aðeins meiri tíma. Hvað sem gat verið hinummegin þá vildi hann njóta lífsins hérna megin lengur, bara aðeins lengur. Hann var farinn að skjálfa. Það var allt of kalt þarna inni. Honum leið eins og hann væri nakinn út í snjó, köldum snjó. Kannski var kalt hinum megin líka, kaldara kannski.

Allt í einu þrumaði ókunnug rödd yfir honum.
“Þann áttunda febrúar 1895 í Westwood fangelsinu í Cook sýslu, Nebraska, eru hér staddir Gregory James fangelsisstjóri, Thomas R og Dan S fangaverðir, og Séra John Stapleton, til að taka af lífi Jody D Forbes, sem hefur verið dæmdur til dauða af hæstarétti Nebraska fyrir þrefalt morð af ásettu ráði”

Jody, það var hann. Og hann gerði þetta allt víst, Hann man bara ekkert eftir því. Hann mundi lítið eftir þessum degi, bara deginum eftir þegar hann vaknaði heima hjá sér með lögreglumenn yfir sér, miðandi byssum á hann. Hann var ekkert viss um að hafa drepið neinn, en hann var heldur ekkert viss um að hafa gert það ekki. Lífið var svo flókið. Allar sannanir bentu á hann. Svo hví ekki?

Einhverstaðar fyrir utan herbergið heyrðist vélarhljóð, rafall. Hann hélt í sér andanum til að heyra betur. Þungur andardráttur heyrðist fyrir aftan, skrjáf í blöðum. Einhver hringlaði í lyklakippu. Hann gat svarið að hann heyrði í uglu úti. Fljúgandi um frjáls, ó hvað hann vildi vera frjáls líka. Fljúgandi um loftin blá, eða syndandi í tjörninni heima, finna svalt vatnið endurnæra líkamann. Hann vildi ekki vera svona fastur, lifa lengur, bara aðeins lengur. "Ég vil ekki deyja kjökraði hann lágt svo heyrðist varla og nokkur tár runnu niður kinnarnar áður en þau bleyttu hettuna. Úti heyrðist aftur í uglunni. Hvernig ætli veðri sé úti hugsaði hann með sér.

Allt í einu heyrðist hár smellur og brennandi, bítandi straumur fór um hann allan. Líkaminn spenntist upp svo brakaði í stólnum og hann beit harkalega í tunguna á sér. Örsnöggt virtist veröldin fyllast af blindandi ljósi áður en hugur hans hvarf og myrkrið yfirgnæfði allt.
—–