IV

Hann situr á biðstofu. Veggir eru ljósgulir. Nokkrum stólum og borði hefur verið komið fyrir á snyrtilegan hátt. Á borðinu er þykkur stafli af slúðurblöðum. Hann er einn þar inni ef frá er talin stúlka sem vinnur í afgreiðslu stofunnar.
Honum líður eins og þegar hann var að fara til tannlæknis þegar hann var yngri. Hann hatar að fara til tannlækna. Hann lenti í því þegar hann var 11 ára gamall að það voru dregnir úr honum barnajaxlarnir. Hann hafði aldrei upplifað annan eins sársauka þrátt fyrir deyfingu tannlæknisins. Það eru liðin nokkur ár síðan hann hafði neyðst til að fara.
Hann er óþreyjufullur. Hann vildi bara að þessi fundur með Hannesi væri búinn. Hann hafði hugsað um það að sleppa því að mæta en henni er svo annt um að hann fari. Hann nennir ekki hlusta á hana röfla, þá er betra að hunskast til sálfræðingsins.Hún sagði honum að hann þyrfti að fá að tala. Eins og hann fái ekki nóg að tala. Tala um hvað hafði hann spurt. Pabba þinn til dæmis svaraði hún. Hún er ein af þeim sem heldur alltaf að hún viti hvað er best fyrir hann, eins og mamma hans er. Hann þolir það ekki. Hún er sí og æ að segja honum til verka. Hann er stundum alveg að gefast upp á henni. En hann viðurkennir samt fyrir sjálfum sér að hún hefur líka af og til rétt fyrir sér.
Það er ekki langt síðan pabbi hans féll frá. Hann er ekki enn alveg kominn í sátt við það. Það er eins og hann sé fljótandi á einhvers konar skýi og vitneskjan um dauða pabba hans er smátt og smátt að eyða því.
Mynd af pabba hans kemur upp í hug hans. Þeir tveir að veiða. Einhvers staðar, í einhverri á. Hann rétt orðinn tvítugur en pabbi hans að nálgast fimmtugt. Þeir höfðu alltaf verið samrýmdir. Hlegið mikið saman enda sagði mamma hans að hann væri gjörsamlega snýttur út úr nösum föður síns. Hann man hve gaman þeir höfðu af því að fara saman að veiða. Bara þeir og náttúran. Umkringdir mosavöxnum steinum og krækiberjalyngi. Spegilslétt á, hann og pabbi hans.
Þeir voru samt ekkert líkir í útliti. Pabbi hans var feitlaginn og með stórt höfuð. Á höfðinu var gríðarmikið andlit og á því reis hæst risavaxið kartöflunef. Þau voru ekki mörg hárin á höfði hans nema rétt fyrir ofan eyrun og á hnakkanum. Þeir voru samt um það bil jafnstórir.
,,Gjörðu svo vel, Jóhann”.
Hann hrekkur við. Hann hafði verið svo djúpt hugsi að hann gerði sér enga grein fyrir hve tíminn leið hratt. Það er augljóslega komið að honum. Ljóshærður karlmaður með gleraugu og dökkt yfirvararskegg stendur við dyrnar inn að skrifstofunni. Hannes.
Hann stendur upp og gengur inn.