III

Hann stendur inni á baðherbergi. Fyrir framan hvítan vask. Fyrir ofan vaskinn er spegill. Hann starir á spegilmynd sína. Órakaður og dökkt hárið allt út í loftið. Hvít tannkremsfroða lekur út um annað munnvikið. Rauður tannbursti stingst út hinumegin. Það eru dökkir baugar undir bláum augum hans. Hann er hér um bil ekkert sofinn.
Það er bankað á baðherbergisdyrnar.
,,Ertu að verða búinn?” spyr hún þýðlega.
Hann hrækir froðunni í vaskinn.
,,Augnablik” svarar hann.
Hann skolar munninn. Teygir sig eftir hvítu handklæði. Þurrkar sér í framan. Hann lítur aftur í spegillinn. Velgja og ógleði safnast í magann á honum. Hann lítur undan. Hann opnar dyrnar.
,,Jæja…” segir hún og skýst inn. Það er greinilegt að henni liggur á.
Hann fer inn í eldhús. Tekur fram ketil og lætur renna vatn í hann. Stingur honum í samband. Eldhúsborð stendur við eina gluggann í eldhúsinu. Vatnið sýður á katlinum. Hann nær í bolla. Lætur kaffi í pressukönnu og hellir svo vatninu í hana. Sest við borðið. Hann fær sér kaffi.
Hann finnur enn fyrir ógleði. Honum líður eins og þegar hann var að fara í stúdentspróf. Blanda af spennu og ótta vall um í maganum á honum og það var eins og hann myndi brátt kasta upp. Samt gerði hann það ekki. Hve ánægjulegt það hafði verið að ganga út úr síðasta prófinu. Hann hafði vart ráðið við sig af kæti.
,,…ógeðslegir þessir dópsalar!?” segir hún um leið og hún stormar inn í eldhúsið með dagblað í annarri hendi en reynir að setja á sig eyrnalokk með hinni. Svo skellir hún blaðinu fyrir framan hann og bendir á forsíðugrein þess.
,,Það er með ólíkindum hvað þeir sleppa vel. Þeir dæla eiturlyfjum í krakkana…”hélt hún áfram. Hann hættir að hlusta. Jánkar við og við til að samþykkja það sem hún segir. Hann man vel hvernig það var þegar hann var einn af ,,krökkunum”. Hann og Arnar.
Þeir voru svart og hvítt. Hann dökkleitur, frekar þéttbyggður og vel vaxinn en Arnar ljós yfirlitum, álíka sver og kústskaft. Þeir lentu í sama bekk strax á fyrsta ári og voru óslítanlegir hvor frá öðrum allt til útskriftar. Þau voru ófá kvöldin sem þeir höfðu eytt við að reykja friðarpípu. Það hlakkaði í honum yfir minningunni. Arnar átti þá rauða eldgamla Mözdu. Þar sátu þeir og létu jónur ganga á milli sín. Svo tóku þeir rúnt um bæinn, bólufreðnir svo að þeir sáu varla út úr augunum.
,,…djöfulsins dópistar sem menga þetta samfélag með einhverju dóprugli” endar hún fyrirlesturinn. Hún stendur fyrir framan hann, með kaffibolla í annari hendi. Hún horfir á hann. Eins og hún bíði eftir því að hann leggi eitthvað til málanna eða jafnvel mótmæli henni.
,,Já, djöfulsins viðbjóður”segir hann ,,það er löngu kominn tími til að herða refsingar við fíkniefnabrotum”. Það er langt síðan að hann hafði heyrt í Arnari. Það gæti verið gaman að hitta hann og jafnvel að fá sér eina jónu með honum.
,,Jæja, eigum við að drífa okkur?”spyr hún og gengur fram.
Hann horfir á bollann fyrir framan sig. Hann er enn fullur af kaffi.