,,Sittu hér og vertu stilltur og duglegur strákur á meðan mamma talar við prestinn’’ hún brosir svo sést í tennurnar sem venjulega voru skjannahvítar en núna voru þær útataðar í varalitsklessum. Hún hefur alltaf talað við mig eins og litlu systur mína eins og hún geti ekki sætt sig við að ég er fimm ára en ekki fimm mánaða.
Hún fer niður í forstofu þar sem litla systir mín liggur í litlu vöggunni sinni sem helst aðalega saman á ömurlega bleikum borðum og gerviblómum sem brosa til manns eins og hálvitar. Ég gekk til bleiku stelpunnar sem allir elskuðu þrátt fyri að hún gerði fátt annað en að kúka, drekka og sofa. Hún byrjaði að grenja þegar ég brosti til hennar, reyndar hafði ég viljandi breytt brosinu í grettu en því miður tók mamma eftir því og rak mig upp aftur.
Það er fátt erfiðara en að sitja á leðurstól sem fær rassinn á manni til að svitna og horfa á matarborðið. Inni í þvottahúsinu, sem var læst, var kakan með nafninu hennar á. Bára Björk. Mamma mín og pabbi tóku mig afsíðis í gærkvöldi og sögðu mér nafnið sem litla systir mín átti að vera skírð í dag og sögðu mér að segja engum frá. Þá ákvað ég að segja að minnsta kosti einni manneskju frá.
Ég fer inn í þvottahús og teygi mig í lykilinn. Ég veit vel hvar hann er því mamma og pabbi reyna ekkert að fela hann fyrir mér. Þau segjast treysta mér fyrir því að fara ekki inn. Þá verð ég auðvitað að fara inn.
Ég dreg einn af klappstólunum úr skápnum og opna hann. Klessan sem litla systir mín hafi ælt fyrir mánuði sat enn þarna rotnandi. En þrátt fyrir að stóllinn væri loðinn og sleypur stend ég uppi á honum og opna hurðina svo við mér blasir enn einn bleikur hluturinn sem tengist skírninni. Kakan. Nafnið hafði verið skrifað með súkkulaði á fagurbleikt marsipanið og dagsetningin. Væmin rós var límd með súkkulaði í efra hægra hornið og litlir skór í vinstra neðri hornið. Ég stenst ekki freistinguna að pota í þunnt marsipanlagið en fer beint í gegn. Ógeðslegur rjóminn, sem er líka bleikur, klessist við hendurnar á mér og þrátt fyrir að ég reyni að þurrka mér í litlu skóna á kökunni sem eru gerðir úr einhverju mjúku efni, þá er ég ennþá klístraður. Ég fer framm og sleppi að læsa.
Í örvæntingu minni um að pabbi komist að þessu verður mér litið á glerskál sem sat á litla borðinu inni í stofu. Undir henni var dúkur og á vegginn fyrir aftan borðið hafði verið hengdur kross. Mér fannst þetta ekkert merkileg skál, ég hafði aldrei séð hana áður, en það sem mestu máli skipti var, að í henni var vatn.
Ég hlóp að henni og skolaði rjómann af mér og þurrkaði í dúkinn. Hann varð allur krumpaður svo ég slétti úr honum með fingrunum sem ennþá voru fitugir en það gerði bara illt verra.
,,Æi, mamma tekur ekkert eftir þessu’’ sagði ég og yppti öxlum en ákvað að skipta um vatn í skálinni.
Ég tók hana upp og bar hana inn á bað með vatnsslóð á eftir mér. Ég lagði skálina frá mér á klósettið og geng til baka og þurrka vatnið með sokkunum. Ég spora allt út á leiðinni til baka en ég var viss um að það þornaði fljótt. Þegar ég opnaði hurðina að baðherberginu sá ég hvar horaði kötturinn okkar sat á klósettinu og lapti vatnið úr skálinni. Ég rétt náði að forða ljótri skálinni í burtu frá gráðugum kettinum og set hana í vaskinn. Brúnin rekst í kranan svo risa sprunga myndast en það skipti engu máli enda harla ómerkileg skál.
Eftir að hafa fyllt hana af vatni set ég hana aftur á borðið en þá blasir við mér ömurleg sjón. Hún vaggar örlítið og klofnar í tvennt svo vatnið gusast yfir gólfið. Svo skella kristalpartarnir tveir í gólfinu og splundrast. Mér sýndist eitt fara í augað á kettinum og ég hafði rétt fyrir mér því nokkrum sekúndum seinna byrjaði að blæða úr auganu.
Mér til hryllings hringir dyrabjallan og mér verður litið á sparifötin sem upphaflega voru hvít en voru núna bleikflekkótt, rennblaut og þar að auki voru nokkrir blóðblettir á erminni því ég hafði tekið aumingja kisuna upp.
Þegar fótatök heyrðust neðan frá sest ég í stólinn sem mamma hafði sagt mér að sitja í og brosti eins og stilltur og prúður drengur. Í fylgt með mömmu var tvær leiðinlegar frænkur með organdi krakkana sína sem voru litlu eldri en Bára. Heyrnardaufur presturinn studdi við aðra frænkuna en sleppti henni og tók fyrir hjartað þegar hann sá mig. Óstyrk frænkan dettur aftur fyrir sig og liggur máttlaus í fáránlegri stellingu neðst í stiganum. Ég gríp um munninn þegar pilsið hennar lyftist upp svo við okkur blasir hálfgagnsæar sokkabuxurnar.
Hún hafði aldrei viljað ganga í nærbuxum, fannst það fáránleg viðbót á allar þessar flíkur sem fólk klæddist nú til dags.

Eftir að hafa komið frænkunni á spítalann og kettinum á dýraspítalann og grafið plastskál upp úr skúffunni og fyllt hana af vatni stóðum við fjölskyldan og nokkrir gestir í hring utan um litla borðið og báðum. Bára grenjaði eins og svín þegar presturinn spurði hvað hún ætti að heita.
,,Bára Björk’’ æpti mamma í gegnum grenjið í stelpunni.
Presturinn tekur vatn í höndina og setur á hausinn á Báru.
,,Í nafni föðurs, sonar og heilags anda, skíri ég þig Þóra Björg’’
Ég starði, mamma starði, pabbi starði, allir gestirnir störðu og meira að segja Bára, sem reyndar hét Þóra núna grenjaði lægra.
,,Ertu búin að skíra barnið mitt Þóra?’’ gargaði hún
,,Já, var það ekki það sem þú vildir?’’ spurði presturinn þolinmóður
,,Nei, Bára Björk!’’
Ég gat ekki varist því að hlægja þegar presturinn skírði óheppnu systur mína, Þóru Björg Bára Björk, aftur. Reyndar var hún bara skírð Bára Björk en ég ákvað að kalla hana Þóru þar til hún dræpist.
Það lá við að mamma fengi hjartaáfall þegar hún sá rándýra kökuna sem eina rjómahrúgu á silfurfatinu, en pabbi reyndi að gera gott úr því og fór út í búð og keypti súkkulaðiköku.
Þetta var semsagt ekkert svo slæmt eftir allt saman fyrir utan að ég má ekki spila tölvuleiki í mánuð. Frænkan lifði af, því miður, og kötturinn kom eineygður til baka því það hafði ekki tekist að bjarga auganu. Ég endurskírði hann og kallaði hann Kobba Kló í staðin fyrir Keli. Honum líkar vel við það.