Ægissíðan. Júlí. Hann horfði eftir túninu. Grasið var grænt,
það hafði ekki breyst. Himininn var blár og hafði ekki breyst
heldur. Sólin skein. Þurrt sumarloftið hafði ekki breyst heldur.
Þetta var svona sumardagur þar sem loftið var þurrara en
venjulega. Ryk þyrlaðist upp á götunni. Húsin voru hrein,
garðarnir nýslegnir. Það var ekkert að; fullkominn dagur. Eins
og klippt út úr auglýsingu. Lagið “Thats life…” úr VÍS
auglýsingunni passaði einhvernveginn mjög vel við. Eða “Oh
what a beautiful morning, oh what a beautiful day…”

Eða ekki.

Hann var samt hræddur og hann gekk rólega af stað. Hann
mundi eftir því að einhverntímann hafði hann heyrt að maður
hugsaði best þegar maður gengi. Og nú gekk hann. Hann var
búinn að hugsa þetta í til enda. Það var engin önnur leið.
Hann gæti farið í fangelsi fyrir þetta. Mamma hans vissi þetta.
Pabbi hans örugglega líka. Systkini hans kannski. Samt hélt
hann ekki, vonaði að þau vissu þetta ekki. Myndu aldrei fá að
vita þetta. Stundum hafði hann verið fullur. Alltaf geðveikur.
Ótrúlegt hvernig hann hafði breyst. Einhvernveginn breyttist
hann úr þessu “skynsama strák” í eitthvað algjört ógeð. Þetta
gerðist ekki á einni nóttu.

Grasið fjaðraði undir skónum. Skórnir. Hann hafði ekki fattað
að fara í strigaskóna. Þessir skór voru nýjir og óþarfi að sóa
þeim. Djöfull gat hann verið vitlaus.

Minningarnar hrúguðust upp. Læstur út á svölum, nakinn, 11
ára. Refsing fyrir að hafa verið óþekkur. Mamma hans að
sparka í pabba hans þar sem hann var á fjórum fótum á
gólfinu. Mamma að koma heim eftir fyllerí, ælandi rauðri ælu
með kekkjum í klósettið. Pabbi hans að vekja hann um nótt til
að fara með hann að pissa. Honum þótti vænt um pabba
sinn. Pabbi hans skildi hann, þótt vænt um hann þótt hann
pissaði undir. Öll fjölskyldan saman uppi í rúmi að hlusta á
mömmu lesa. Hann, 11 ára, sofandi í ganginum, of þreyttur til
að fara í skólann. Þegar Óskar flutti úr hverfinu, eftir það átti
hann enga vini. Einelti.
Hann gat talið upp fullt af hlutum sem gætu skýrt af hverju
hann var eins og hann var; svona mikið ógeð, en ekkert eitt
atriði sem hann hafði gert. Engin kynferðisleg misnotkun eða
barsmíðar sem hann mundi eftir sem gátu útskýrt þetta. Hann
var ekki hræddur lengur.

Skolpdælustöðin stækkaði. Það heyrðist ekkert í henni.
Hvernig fóru þeir að því að búa til svona stóra dælu án þess
að það heyrðist neitt í henni?

Fyllerí. Röð mynda í hausnum sem hann gat ekki fest hönd á.
Ekkert eitt atriði. Mjög gaman. Alger þjáning. Endalaust
hringlaga ferli sem byrjaði á sama punkti og það endaði á.
Lífið hvarf. Varð óáþreifanlegt. Hann varð álíka sterkur og
heppinn og þríarma klóin í tækinu á BSÍ sem kostaði 50kall í.
Hann mundi að Winston Churchill hafði einhverntímann sagt
að golf snérist um að koma ómeðfærilegri kúlu ofan í
óaðgengilega holum með verkfærum sem eru illa til þess
fallin. Einhver gæi sem hét John Kirincich hafði víst líka sagt:
“It may be that your only purpose in life is to serve as a
warning to others”. Honum hafði þótt þetta fyndið þá, nú var
það bara lýsandi fyrir hann, hans líf. Vonleysið.

Heimurinn hataði hann.

Ströndin færðist nær. Hann fór úr skónum og hélt á þeim
seinasta spölinn. Þegar hann koma að sjónum fór hann yfir
dagana á undan, lífið. Hann steig útí. Það var kalt. Hann kippti
löppinni uppúr. Hugsaði málið. Steig svo aftur útí. Dofnaði.
Svo með hina. Dofnaði. Óð upp að mitti. Ógeðslega kalt. Skalf.
Óð út. Allt í einu var ekkert undir fótunum. Hann andaði frá sér.
Andaði að sér. Andaði frá sér. Eins mikið og hann gat. Og
synti svo eins langt niður og hann gat.

Ekkert eftir sem minnti á hann nema skórnir við
skolpdælustöðina.