Hún fann ilminn af grasinu umlykja sig. Hún var alveg slök og lét þreytuna og áhyggjurnar líða hægt og rólega úr líkamanum. Hún andvarpaði af sælu. Ilurinn af sólinni hlýjaði henni og henni fannst allar áhyggjur heimsins lítilvægar. Á þessari stundu var allt fullkomið. Hún opnaði annað augað og reyndi að venjast birtunni. Þegar sjónin skýrðist sá hún fætur gnæfa yfir sig, tættar skálmar á gallabuxum og berar tær. Hjartað í henni tók kipp. Hún leit upp eftir líkamanum og bros færðist yfir andlit hennar er hún sá hver það var sem stóð svona yfir henni. Hún heilsaði glaðlega, reisti sig við og teygði sig eftir hendi hans og dró hann niður í grasið til sín. Þegar hann lagðist á bakið í grasið fikraði hún sig í áttina til hans og lét hausinn falla á bringu hans. Þannig lágu þau í alllanga stund þögul og nutu sumarsins. Hún hlustaði á taktfastan hjartslátt hans og var sem dáleidd. Getur heimurinn verið fullkomnari en nú? Engin orð fóru þeirra á milli í langan tíma en loks bærði hann á sér, snéri sér að henni og gaf henni tilfinningaþrunginn koss, reis svo á fætur og sagði henni að fylgja sér. Hún stóð upp, hristi af sér slenið og gekk í humátt á eftir honum. „Hvað er hann að gera“ hugsar hún með sér á meðan hún reynir að halda í við hann.
Er þau koma að umferðargötu stoppar hann snögglega og segir henni að bíða. Hún spyr hann hvað þau séu eiginlega að fara að gera en hann glottir bara. „Forvitnir fá ekki að vita.“ Það fýkur aðeins í hana en hún leyfir honum að hafa yfirhöndina. Loks tekur hann viðbragð. Stór eðalvagn stoppar beint fyrir framan þau og hann opnar dyrnar og býður henni formlega að setjast inn. Hjartað í henni sló sem aldrei fyrr og hún gat ekki hugsað heila hugsun til enda. Þegar hún áttar sig á aðstæðum er hún ekki lengi að stíga inn í bílinn og um leið og hann sest inn á eftir henni opnar hún munninn til að spyrja hvað sé eiginlega í gangi en eina svarið sem hún fékk var innilegur koss frá honum. Hún fylgdist uppnumin með því er þau keyrðu hverja götuna á fætur annarri. Loks beygðu þau inn eina af fallegustu götum borgarinnar og staðnæmdust fyrir framan dýrasta og fallegasta hótel sem stóð við þá götu. Hann tók á sig rögg og steig út á stéttina, teygði sig eftir hendi hennar og hjálpaði henni að stíga úr bílnum. Nú var hún orðin svo forvitin að hún gat ekki haldið aftur af sér lengur. „Hvert ertu að fara með mig?“ spyr hún en býst hálfvegis við því að fá ekkert svar. Hann snéri sér að henni, tók utan um hana og hvíslaði tælandi í eyra hennar: „Forvitnir fá ekki að vita“.
Þau stigu inn í anddyri hótelsins og á móti þeim gekk þjónn og ávarpaði þau með nafni og ekki minnkaði undrun hennar þá. Hún var alveg gáttuð. Þjónninn rétti henni lykil sem virtist vera að herbergi einhvers staðar á hótelinu og bað hana vinsamlegast að fylgja sér í áttina að lyftunni í einu horni anddyrisins. Hún snéri sér frá þjóninum með spurnarsvip og mætti augnarráði hans. Hann sagði henni bara að fylgja þjóninum og fara eftir öllum fyrirmælum.
Þegar þau komu upp á rétta hæð fylgdi hún þjóninum að rétta herberginu og opnaði herbergið með lyklinum. Hjartað í henni barðist ótt og títt og hún hafði ekki hugmynd um hvað myndi bíða sín bakvið dyrnar. Hún ýtti við hurðinni og hélt niðri í sér andanum. Við henni blasti fallega innrétt herbergi með rúmgóðum svölum. Búið var að strá rósarblöðum á gólfið sem vissu í átt að baðherberginu og svefnherberginu. Hún snéri sér undrandi við og horfði hissa á þjóninn. Hann sagði henni að byrja á því að kíkja inn á baðherbergið og svo inn í svefnherbergi. „En hvað á ég eiginlega að gera?“ spurði hún gáttuð, „Hvað er eiginlega í gangi?“ Hann svaraði henni ekki strax heldur brosti út í annað, ræskti sig og sagði svo „Forvitnir fá ekki að vita.“ Svo hélt hann á stað í áttina að lyftunni, steig inn í hana og skildi hana eina eftir. Hún hikaði en steig svo inn í íbúðina og lokaði á eftir sér, gekk svo hægum skrefum að baðherberginu og kíkti inn. Við henni blasti stórt og gott bað sem búið var að láta renna í, freyðibað sem ilmaði guðdómlega og á fallegu litlu borði við hliðina á baðinu var bakki með ferskum jarðaberjum og vínflaska. Nú vissi hún hvað gat verið fullkomnara en sólbað á góðum og björtum sumardegi.
Hún afklæddi sig og lét sig síðan síga hægt og rólega ofan í baðkarið. Hitastigið á vatninu var fullkomið, birtan var róandi og lyktin tælandi. Hún seildist eftir vínflöskunni og hellti í glasið sem var búið að gera klárt, bragðaði á víninu og fékk sér svo eitt jarðaber. Hún naut þess í smá stund að liggja þarna óáreitt og það var sem tíminn stæði í stað. Eftir að henni virtist heil eilífð kviknaði aftur á forvitni hennar og hún gat varla beðið eftir að vita hvað biði sín inni í svefnherberginu. Hún reis á fætur, þurrkaði sér og vafði handklæðinu tryggilega um líkamann áður en hún hélt á stað í átt að svefnherberginu. Þegar þangað var komið fannst henni hún geta búist við hverju sem er en samt missti hjartað í henni úr einu slagi er hún sá hvað beið hennar inni í herberginu. Hún trúði ekki sínum eigin augum er hún tók hvert skrefið á fætur öðru í átt að rúminu. Á rúminu beið hennar einn sá fallegasti kjóll sem hún hafði augum litið og ofan á honum var umslag merkt henni. Hún reif upp umslagið og las það sem stóð. „Ég bíð eftir þér á eftstu hæð, vertu í kjólnum.“ Hún lagði bréfið niður, tók upp kjólinn og virti hann fyrir sér. Henni fannst hún vera stödd í annarri vídd. Eitthvað þessu líkt gæti aldrei hent hana, henni hlaut að vera að dreyma. Eftir smá hik klæddi hún sig varfærnislega í kjólinn, lagaði á sér hárið og hélt á stað upp með lyftunni. Þegar lyftudyrnar opnuðust steig hún út úr lyftunni. Hún sá glitta í rósarblöð á gólfi við annan enda gangsins og hélt þangað. Hún gat ekki hugsað, gat ekki talað, hún var svo uppnumin og undrandi að allar hreyfingar hennar voru nánast ósjálfráðar. Er hún kom á enda gangsins mættu henni dyr, glerdyr sem hún sá í gegnum. Hún opnaði þær og steig út í svalt kvöldloftið. Það var sem allur heimurinn héldi niðri í sér andanum og biði, biði eftir því sem kæmi næst. Það bærðist ekki hár á höfði hennar og ekkert hljóð heyrðist. Hún stóð frosin og virti umhverfið fyrir sér. Kerti mörkuðu þá leið sem hún átti augljóslega að fylgja og á stígnum voru rósarblöðin allsráðandi. Hún gekk á stað og er hún kom að horni á húsinu dró hún andann djúpt niður og gægðist fyrir hornið. Það sem hún sá fékk hana til að tárast af gleði og undrun. Á miðju gólfinu stóð hann og beið hennar umkringdur mildu kertaljósinu og með rósarvönd í hendi. Hún nánast hljóp í áttina að honum og ætlaði að fara að segja það sem brann á vörum hennar en hann sussaði á hana. Í stað þess að taka utan um hana og kyssa hana eins og hann var vanur þegar þau hittust kraup hann á kné, dró öskju úr jakkavasa sínum, opnaði hana og sagði: „Ástin mín, ég vil ekkert meir en að hafa þig mér við hlið það sem eftir er. Viltu giftast mér?“ Hún trúði varla sínum eigin eyrum en var fljót að hugsa. Hún seildist eftir honum, dró hann á fætur og kyssti hann lengi og innilega. Er hún sleit kossinum faðmaði hún hann og hvíslaði í eyra hans „ Forvitnir fá ekki að vita.“