II

Hann situr í bílnum sínum. Hún við hlið hans. Þau eru fyrir framan steingráa fjögurra hæða byggingu. Hún vinnur þar.
,,Þú manst að fara til Hannesar í dag, það er miðvikudagur, þú manst!?” áminnir hún hann. Hún horfir á hann með ,,þú-getur-ekki-neitað“svipnum. Augu hennar stara fast á hann og hann getur ekki með nokkru móti komist undan augnaráði hennar.
,,Já, já auðvitað man ég það” svarar hann.
Hún hallar sér á milli bílsætanna. Hún brosir til hans ástúðlega og smellir kossi á kinnina á honum. Hún réttir sig við.
,,Hvernig lít ég út?”spyr hún.
Hann strýkur yfir ljóst hár hennar.
,,Þú lítur vel út. Farðu nú að drífa þig.”
,,Sjáumst”.
Þar með stígur hún út úr bílnum. Hann horfir á eftir henni. Ljóst hárið sveiflast í takt við göngulag hennar. Svarta dragtin dregur fram hve vel hún er vaxin.
Hann bakkar út úr stæðinu þegar hún er komin inn. Núna, þegar hann er loks orðinn einn í bílnum getur hann kveikt sér í sígarettu. Hún yrði ekki hrifin af því ef hún vissi að hann reykti enn. Hún lét hann lofa að hætta og hafði hótað öllu illu ef hann gerði það ekki. Hún myndi eflaust halda enn einn fyrirlesturinn um skaðsemi reykinga. Hann nennir ekki að hugsa um það núna. Hann dregur djúpt að sér andann og reynir að slappa aðeins af.
Látlaust silast hann áfram eftir þéttsetnum umferðaræðum. Einstaka regndropi fellur á framrúðu bílsins. Honum verður hugsað til þess þegar hann tók bílprófið. Í þá daga fannst honum ekkert vera ómögulegt. Honum stóðu allar gáttir opnar og það eina sem hann þurfti að gera var að velja í hvaða átt hann vildi halda. Einhvern veginn var allt svo æðislegt. Allt svo einfalt, allur heimurinn var í svart/hvítu. Hvert sem hann fór þá tóku undur lífsins á móti honum. Þá var um að gera að gefa hefðbundinni hugsun vel útilátið kjaftshögg. Draumur hans var að geta vaknað einn dag og spurt sjálfan sig: ,,Hver er skilningur minn?”. Þegar hann hafði svarað þeirri spurningu myndi hann segja:,,Sjá mig”. Einnig voru undur lífsins í þá daga að rísa upp í faðmi þeirrar vitneskju að það sólarlagið sem þú sérð í dag muntu aldrei sjá aftur.
Hann drepur í sígarettunni. Hvað hafði komið fyrir? Hvers vegna hafði hann misst athyglina? Voru undur lífsins ekki merkilegri en að vera fastur í umferðarkransæðastíflu á miðvikudagsmorgni? Hvenær hafði hann orðið svona upptekinn af því að verða ekki dæmdur úr leik í lífsgæðakapphlaupinu? Einhvern tíma fyrir löngu hafði hann lagt hugsjónir sínar í frysti.