I

,,Þegar sólin sest og borgin hægir á sér, finnst mér vera besti tími dagsins. Ég næ aftur sambandi við jörðina, í gegnum malbikið og steypuna, eftir allt það stress sem fylgir deginum og vinnunni. Það er sem einhver slökkvi bara á borginni því allir flýja oní holurnar sínar og láta ekki heyra í sér fyrr en næsta dag. En það er eins og ég taki ekki þátt í þessu lífi lengur, ég get ekki hugsað mér að taka þátt í því áfram. Ég hef bara ekki orku til þess. –Skrýtið hvernig allt getur breyst svona á svipstundu, hvernig allur kraftur manns og vilji hverfur og maður á ekkert eftir nema líkamann.”
Hann snýr sér frá glugganum og rennir fingrunum í gegnum þykkt, dökkt hárið. Hann lítur yfir rúmgott herbergið. Það er allt mjög ljóst þar inni. Nema stólarnir, þeir eru brúnir. Við einn vegg stendur bókahilla. Hannes situr og horfir á hann. Hann stendur við gluggann svartklæddur. Þó með rautt hálsbindi.
,,Segðu mér meira frá æsku þinni. Er ekki eitthvað sem þú manst eftir sem þér fannst skemmtilegt?” Hannes talar í rólegum tón. Það virkar alltaf vel á hann. Hann sest í brúnan hægindastól á móti Hannesi og horfir á mynd á einum veggnum. Það er mynd af litlu seglskipi.
,,Æsku minni…….-eitthvað skemmtilegt. –Það sem mér fannst skemmtilegast þegar ég var lítill, svona fimm, kannski sex ára, var að fara í sumarbústað með foreldrum mínum. Þar var ég nokkuð frjáls ferða minna því þau höfðu meiri áhyggjur af systrum mínum. Skógur laðaði ungan dreng að sér og ég hafði á þeim tíma endalausan áhuga á dýrum. Náttúrulega rannsakaði ég svæðið alveg eins og ég hafði séð náttúrufræðinga gera í sjónvarpinu.” Hann hallar sér aftur í stólnum og horfir upp í panelklætt loftið.
,,Stundum komu gestir til foreldra minna. Sérstaklega fannst mér gaman þegar Jónas frændi og Helga konan hans komu. Ég átti margar skemmtilegar stundir með Jónasi en þegar mér verður hugsað til þess þá hef ég verið alveg rosalega uppáþrengjandi barn. Þau höfðu ekki enn eignast barn á þeim tíma þannig að þau voru ekki alveg orðin vön þeim hávaða sem börnum fylgir. Til dæmis þá vaknaði ég yfirleitt snemma, -þegar ég segi snemma á ég við um sexleytið, og ef móðir mín var enn sofandi var ég fljótur að stela klossunum hennar. Þeir voru að sjálfsögðu alltof stórir og drógust þess vegna meira á eftir mér heldur en að ég væri í þeim.” Hann hlær frekar dauft og lítur á Hannes.
,,Ég hafði mjög gaman af því að skoða hluti og spá í þeim. Ég var sífellt að gera rannsóknir á hinu og þessu. Einu sinni gerði ég rannsókn á því hvað allir væri gamlir í sumarbústaðnum. Fyrst spurði ég eldri systur mína en mér var sagt að hunskast því hún var á gelgjuskeiðinu. Svo spurði ég yngri systur mína en hún var ekki farin að tala enn. Þá fór ég til Jónasar og spurði hann. Hann sagðist vera 28 ára gamall. Ég var lengi að velta þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að það væri bannað að vera bæði.”
,,Bannað að vera bæði…..?”
,,Þá kunni ég bara að telja uppá tuttugu og hann hafði sagt tvær tölur, það er að segja 20 og 8, það fannst mér vera svindl því það mátti bara segja eina tölu.” Hann stendur aftur upp, tekur af sér hálsbindið og gengur að glugganum.
,,Það rignir aldrei í minningum……eða jú, ég man eftir einum degi. Þá voru Jónas og faðir minn að mála verönd og höfðu breitt plast yfir hana, til að getað haldið áfram að mála þrátt fyrir úrhelli. Ég ákvað að hjálpa þeim óbeðinn en það vildi ekki betur til en svo að ég hellti niður málningunni og reif plastið. Mér var fleygt inn í sumarbústaðinn af Jónasi. Hann hafði gjörsamlega misst þolinmæðina gagnvart þessum afar hjálpsama frænda sínum. Þessi sumur uppi í bústað eru líklega það úr æsku minni sem ég minnist með hvað mestri ánægju.”