Ég sat inní eldhúsi og var að drekka kaffi þegar ég heyrði í rigningunni. Ég stóð upp, horfði út um gluggann, brosti, lagði frá mér kaffibollann og hljóp út. Ég hljóp út á tún. Það var ískalt úti og hellirigndi, ég var illa klædd og var farin að skjálfa út af kuldanum en það gerði ekkert til því að ég var svo hamingjusöm. Ég horfði upp til himins og sneri mér í hringi, skælbrosandi. Ef einhver hefði séð mig hefði viðkomandi haldið að ég væri skrýtin en ég var það ekki, ég elska bara að vera úti í rigningu, annað ekki. Mér fannst ég vera partur af náttúrunni, ég fann hvernig fötin voru orðin blaut í gegn en það gerði ekkert til, ég var svo ánægð.
,,Hvað ertu að gera þarna úti?“ heyrði ég karlmannsrödd segja.
Ég leit við og þarna kom hann, hlaupandi í áttina til mín.
,,Þú ert rennandi blaut” sagði hann þegar hann var alveg kominn til mín.
,,Ég veit“ sagði ég og brosti.
,,Komdu inn núna áður en þú kvefast” hélt hann áfram en ég hristi bara hausinn og horfði svo djúpt inn í augu hans.
,,Þú ert skrýtin“ sagði hann.
,,Ég veit” sagði ég og kyssti hann löngum og innilegum kossi. Þegar ég var búin að kyssa hann horfði ég aðeins í augu hans og sagði svo: ,,núna skulum við koma inn“, tók í aðra hönd hans og leiddi hann í átt að húsinu.
,,Veistu? ég bara skil þig stundum ekki, bara alls ekki.”