Nornin, 6. kafli - Helga Fyrsti hluti

„Hjálpaðu mér,“ sagði Helga og tók um lappirnar á Sindra. Dagný lyfti á móti. „Upp á borðið.“ Þær létu hann varlega á skrifborð Helgu. „Hvað gerðist?“
-„Ég…“ Dagný hugsaði til þess sem Sindri hafði sagt, Samtökin eru ekki þekkt fyrir að gefa sénsa. „Hann… bara…,“ byrjaði hún.
-„Mér sýnist hann hafa klárað galdramáttinn sinn.“ Helga tók fram lykil og opnaði eina af læstum skúffum skrifborðsins. Þaðan tók hún upp litla flösku, hálffulla af ljósbláum vökva. „Færðu þig,“ sagði hún næstum hvasst en bætti svo við með blíðari röddu; „það er hættulegt að vera of nálægt.“
Hún hellti smá af ljósbláa vökvanum í klút sem hún renndi yfir ennið á Sindra. Svo lagði hún hendina á ennið á honum og muldraði eitthvað sem Dagný heyrði ekki. Um leið kipptist hann allur til, líkt og hann hefði orðið fyrir raflosti. Helga lagði eyrað að munni hans.
„Hann andar eðlilega,“ sagði hún, „það verður í lagi með hann.“
Dagný hallaði sér upp að vegg og lét sig síga niður á gólfið. Óttinn og spennan yfirgáfu hana svo hratt að áður en hún vissi var hún farin að gráta aftur.

„Þú ert norn,“ sagði Dagný þegar hún var búin að jafna sig og það var farið að myndast óþægileg þögn. Hún sat ennþá á gólfinu en Helga hafði sest í skrifborðsstólnum.
-„Já,“ svaraði Helga og brosti, „og þú líka.“
Dagný brosti á móti, óviss um hvað hún gæti spurt, þannig að hún væri ekki ókurteis.
-„Og þú… vissirðu að ég væri norn.“
-„Ég veit meira en þú heldur.“ Hún brosti áfram. „Hann var á bókasafninu í gærkvöldi,“ hún horfði á Sindra, sem enn lá meðvitundarlaus á skrifborðinu, „hann notaði felulitagaldur þannig að þú sást hann ekki… Hann hefur verið alveg ósýnilegur fyrir þér.“
-„Á bókasafninu? Í gær?“ Dagný átti erfitt með að trúa því að fyrir ekki svo mörgum klukkutímum síðan var hún bara venjuleg stelpa með áhyggjur af lokaprófunum í menntaskóla. Helga kinkaði kolli.
-„Ég veit líka að þú hefur mikla hæfileika þegar kemur að göldrum.“ Og næst segir hún mér að hún viti að ég hafi framið svartagaldur, hugsaði Dagný.
-„Eigum við ekki að fara á einhvern öruggari stað?“ spurði hún, að hluta bara til að skipta um umræðuefni, og að hluta af því að hún var hrædd.
-„Það koma ekki fleiri mykranornir strax,“ svaraði Helga rólega, „ég held að það hafi ekki verið fleiri en þessar á höfuðborgarsvæðinu. Og svo ég snúi mér aftur að því sem ég var að segja; þú ert öflug norn. Ég sá hvernig þú sást um nornirnar sem voru á eftir þér áðan. Og hvernig þú varðir þig. Óvenjulegt fyrir minna en sólarhringsgamla norn. Sérlega óvenjulegt “
Dagný svaraði ekki. Sá hún mig? Hún hafði örugglega notað eldkúlugaldurinn tuttugu sinnum. …og mun hver sá sem hann stundar sæta hæstu refsingu, þ.e. líftiðarfangelsun eða dauða, hafði staðið í upplýsingarbókinni.
Eins og hún gæti lesið hugsanir Dagnýjar hélt Helga áfram: „Já, ég veit að þú notaðir svartagaldur. Ég held samt að aðstæðurnar hafi krafist þess.“
-„Þannig að… “
-„Þér verðu ekki refsað.“ Helga brosti aftur. „Annars hafa Samtök Sameinaðra Ljósanorna við stærri vandamál að etja. Ég veit ekki hvað hann Sindri hefur sagt þér en hann fékk bréf um málið fyrir stuttu.“
Dagný velti því fyrir sér hvort hún ætti að segja Helgu frá áformum Sindra um að flýja yfir í annan heim en ákvað að sleppa því.
„Já, í gær var stór dagur fyrir okkur ljósanorninar.“ Helga hætti að tala, eins og hún væri að bíða eftir viðbrögðum.
-„Hvernig þá?“ spurði Dagný.
-„Tja, fyrst hann hefur ekkert sagt þér skal ég byrja á byrjuninni.“

Annar hluti

„Þetta byrjaði allt á 8. öld með ljósanorn sem hét Selena. Hún var gríðarlega máttug en kraftar hennar fólust í spádómum. Hún varð þekkt um allan heim fyrir spár sínar sem voru ekki bara nákvæmar, heldur líka réttar. Einn daginn spáði hún því að heimurinn myndi farast 28. apríl á þessu ári.“ Helga gerði hlé á máli sínu og beið eftir viðbrögðum.
-„Farast?“ spurði Dagný ringluð
-„Já,“ svaraði Helga, sallarróleg, „hún spáði því að myrkranornirnar myndu vinna saman að galdri sem myndi eyða heiminum.“
-„Og…“ byrjaði Dagný, agndofa yfir því hvað Helga var róleg.
-„Eins og þú hefur séð vinna myrkranorninar saman. Allt stemmir og samkvæmt spádómnum munu þær eyða heiminum á mánudaginn.“ Rödd hennar hélt sama rósemistóninum eins og hún væri að lýsa einhverju jafn hversdagslegu og veðrinu. „Selena vissi að aðeins hún gæti stöðvað myrkranornirnar þannig að hún notaði galdur. Galdur sem ekki hefur verið notaður fyrr eða síðar. Hann virkaði þannig að þremur dögum fyrir heimsendinn myndi fæðast norn. Aðeins ein í öllum heiminum á þeim degi. Norn þessi myndi erfa krafta Selenu og náttúrlega galdrahæfni hennar og því verða sú eina sem gæti stöðvað myrkranornirnar.“
-„Bíddu, þremur dögum áður,“ það rann upp fyrir Dagnýju hvað Helga var að segja, „það var í gær.“
Helga kinkaði kolli.
-„Ljósanornir um allan heim, innan SSL, fylgdust með og leituðu að þeirri norn sem myndi erfa krafta Selenu. Það datt engum í hug að fæðingin sem um var að ræða þyrfti ekki að vera fæðing nýs einstaklings, heldur aðeins fæðing nýrrar nornar.“
-„Sem þýðir þá að…“
-„Þú, Dagný, ert erfingi Selenu. Og sú eina sem getur bjargað heiminum.“

Þriðji hluti

Upplýsingarnar voru enn að síast inn hjá Dagnýju þegar Helga hélt áfram.
„Myrkranorninar vita af þér, en þær voru ekki nógu forsjálar. Allt of fáar voru á Íslandi.“
-„Hvernig geri ég það?“ spurði Dagný, „hvernig…“
-„Bjargarðu heiminum?“ kláraði Helga, „Það ætti að vera lítið mál. Við vitum að myrkranorninar ætla nota galdur sem veldur stórri sprengingu. Þú þarft ekki að gera annað en að nota varnargaldurinn. Contego.“
-„Hvar?“ Dagný átti erfitt með að mynda skýra hugsun, hvað þá setningu.
-„Frakklandi. Það er fylgdarlið frá SSL á leiðinni. Ætli þú fljúgir ekki þangað.“
-„Á bláeikargrein?“
Helga kinkaði kolli. Dagný hugsaði um það sem Sindri hafði sagt. Þú ert kannski óvenju öflug miðað við nýja norn, ótrúlega öflug, en þú ert samt bara ein norn. Hún hafði haft rétt fyrir sér. Þau gátu ekki yfirgefið þennan heim.
-„Jæja. Viltu eitthvað að drekka?“ spurði Helga og stóð á fætur, „kaffi? Te? Vatn?“
-„Vatn,“ svaraði Dagný, hásri röddu. Hún ræskti sig. „Vatn, takk.“
Helga yfirgaf bókasafnið og skildi Dagnýju eftir þar sem hún sat á gólfinu.

Fjórði hluti

„Dagný,“ hvíslaði Sindri. Hann opnaði augun settist upp. „Dagný,“ sagði hann aftur, hærra.
Dagný hljóp að honum.
-„Sindri,“ skrækti hún glaðlega og tók um hann. „Hvernig líður þér?“
-„Vel,“ sagði hann og hló aðeins en svo varð röddin hans allt í einu alvarleg, „Dagný…“
-„Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að taka svona mikinn kraft frá þér, ég bara…“
-„Dagný,“ sagði hann ákveðinn, „við verðum að fara.“
-„Þetta er allt í lagi. Helga, sem er bókasafnsvörðurðinn hérna, sagði mér…“
Sindri greip fram í fyrir henni, „ég heyrði það. Eða seinna hlutann allavega.“
Bros Dagnýjar dofnaði þegar rödd hans var áfram alvarleg.
„Þú getur ekki treyst henni.“
-„En, hún bjargaði okkur. Áðan. Og læknaði þig.“
-„Treystirðu mér?“ Hann horfði í augun á henni.
-„Já,“ svaraði hún eftir smástund.
-„OK, gott. Við verðum að koma okkur héðan…“
Dyrnar að bókasafninu opnuðust og Sindri lagðist aftur í flýti og lokaði augunum. Helga kom inn með vatnsglas í annarri hendinni en bolla í hinni.
-„Gjörðu svo vel,“ sagði hún og rétti Dagnýju, sem stóð ennþá yfir Sindra, glasið. „Hann fer að vakna bráðum.“
Hún fékk sér sopa af kaffinu. „Hefurðu þekkt hann lengi?“
-„Nei,“ svaraði Dagný og leit á Sindra, „ég kynntist honum í gær.“ Hún hafði ekki þekkt hann nema í nokkra tíma og samt þótti henni svo vænt um hann. Kannski af því að hann hefur bjargað lífi mínu oftar en einu sinni síðasta sólarhringinn.

Fimmti hluti

„Hvað er klukkan?“ spurði Sindri. Helga hafði farið fram á ganginn í símann. Dagný leit á klukkuna á veggnum.
-„Korter í 6,“ svaraði hún, næstum því hvíslandi, „af hverju?“
-„Á milli sjö og átta.“
-„Ha? Um hvað ertu að tala?“
-„Galdurinn… til að fara yfir í aðra vídd. Annan heim. Við getum notað hann milli 7 og 8.“
-„En…“
-„Dagný. Treystu mér.“
-„Var Helga að ljúga að mér?“ spurði Dagný, hálfmóðguð.
-„Ég get ekki útskýrt það núna, við bara…“
-„Nei, útskýrðu.“ Hún var orðin reið og var hætt að passa sig að tala lágt. „Ég veit að ég sagðist treysta þér en ég gete ekki bara fylgt þér án ástæðu.“
Þau horfðust í augu í smástund þar til Sindri gafst loks upp.
-„OK, ef þú verður hérna áfram, þá muntu deyja.“
-„En Helga sagði…“
-„Helga sagði þér bara hálfan sannleikann. Þú munt deyja. Nema ef þú kemur með mér.“
Dagný átti erfitt með að trúa honum ekki. Kannski af því að hann hefur bjargað lífi mínu oftar en einu sinni síðasta sólarhringinn.
-„OK, hvað gerum við.“
-„Komdu,“ hann stökk niður af skrifborðinu og hljóp að einum glugganum, „núna!“.
Dagný elti hann. Glugginn var rétt nógu stór til að þau kæmust út en Sindri fór fyrstur. Þegar Dagný var á leiðinni út opnaðist hurðin að bókasafninu.
-„Dagný!“ kallaði Helga. Það var undrun og hræðsla í rödd hennar. Dagný heyrði hana kalla aftur á eftir þeim er þau hlupu yfir grasið.