Þetta er smásaga sem ég samdi fyrir íslensku einhverntíman. Fékk 9,5 ;D
Vona að ykkur líki hún og endilega segja ykkar álit! ;D



Elsku Erna, þú veist ekki hvað ég gæfi mikið til þess eins að eiga annan dag með þér. Þessi tími sem við áttum saman var allt of stuttur, ég vildi vera með þér til æviloka. Ég veit að þér á eftir að líða vel þarna uppi, en ég mun alltaf sakna þín. Þú hvarfst allt of fljótt og skildir eftir stórt sár í hjarta mínu.
Þú veist að ég verð þinn að eilífu.


Þegar ég les þetta bréf rúmum sextíu árum síðar vökna ég um augun. Pappírinn er orðinn gulur og snjáður, alveg eins og ég er. Ég er farinn að hrörna enda orðinn rúmlega áttræður að aldri og hrukkurnar eru djúpar á andliti mínu. Ég skrifaði þetta bréf þegar konan mín, hún Erna blessunin, hvarf úr þessum heimi. Ég hef það á tilfinningunni að hún fylgist með mér og hún heimsækir mig á hverri nóttu í draumum mínum.

Á sínum tíma þá skrifaði ég tvö bréf, annað fyrir hana til að taka með sér og hitt geymi ég alltaf í náttborðsskúffunni minni. Þegar hún lést þá lét ég annað bréfið í kistuna, svo hún myndi muna eftir mér þegar ég kæmi til hennar. Ég trúi því statt og stöðugt að hún sé að bíða eftir mér, örugglega komin með grátt hár eins og ég. Hún var svo falleg. Ég er farinn að bíða eftir rétta tímanum, næstum því farinn að hlakka til þess. Þessi tími hefur verið mér erfiður, sérstaklega fyrstu árin eftir andlátið.

Hún lést tæplega tveimur vikum áður en brúðkaupið okkar átti að verða. Ég var búinn að biðja hennar og hún játaðist mér án umhugsunar. Við vorum yfir okkur ástfangin og allt lék í lyndi. Þetta var svo óraunverulegt allt saman, ég man eftir því þegar ég var að tala við hana í síma. Raunar finnst mér oft að slysið hafi verið mér að kenna. Ég man eftir háum hvelli, og síðan þessu skerandi öskri. Þetta öskur leitaði til mín í draumi lengi á eftir, eiginlega of lengi. Ég var oft að hugsa um að fara til hennar, en ég fullvissaði mig um að hún hefði frekar viljað að ég lifði góðu lífi. En lífið mitt varð samt aldrei eins gott og það var með Ernu.


Núorðið líður varla dagur án þess að ég hugsi um hana. Ég á gamla mynd af okkur saman, hún með þessa ljósu lokka og ég er orðinn sólbrúnn af allri útiverunni. Ég held mikið uppá þessa mynd og geymi hana í gylltum ramma á náttborðinu. Þegar ég lít í spegil þá sé ég ekki sama sólbrúna manninn og ég sé á myndinni, ég sé mann með djúpar hrukkur, gráhærðan og fölan. Aldurinn hefur sett sitt mark á mig.

Mér finnst að ég ætti að vera farinn til hennar, stundum fæ ég alveg nístandi samviskubit. Hún á ekki skilið að þurfa að bíða svona lengi eftir mér. Ég velti því oft fyrir mér hvort hún hafi nokkuð breyst og hvort ég þekki hana aftur þegar við hittumst. Ég hef líka breyst, en vonandi munu örlögin leiða okkur saman.

Ég leggst uppí rúmið í svefnberginu okkar. Eftir að hún lést hef ég ekki breytt neinu, meira að segja fötin hennar hanga ennþá inní skápnum. Á afmælisdagana hennar hef ég alltaf bakað köku, alveg eins og ég gerði þegar hún var á lífi. Ég loka augunum og hugsa um hana, minningin er ljóslifandi eins og hún hafi verið hérna hjá mér rétt áðan. Kannski var hún með mér eftir allt saman. Augnlokin verða þyngri og þyngri og loks fell ég í djúpan svefn. Kannski vakna ég aftur á morgun og lífið gengur sinn vanagang.
Kannski ekki.