Nornin, 3. kafli - Svartagaldur og töfrabrögð Fyrsti hluti


Myrkranornir: nornir sem stunda svartagaldur. Þær leitast við að auka galdramátt sinn m.a. með því að drepa aðrar nornir og stela kröftum þeirra.
ATH! Svartagaldur er með öllu bannaður innan SLL og mun hver sá sem hann stundar sæta hæstu refsingu, þ.e. líftiðarfangelsun eða dauða.


„Hvað er svartagaldur?“ spurði Dagný og stafirnir í upplýsingabókinni endurröðuðu sér.

Svartagaldur: töfrar sem hafa neikvæð áhrif á þann sem notar þá. Við notkun þeirra spillist sál viðkomandi nornar. Siðferðiskennd brenglast, frumþarfir breytast og jafnframt eykst galdramáttur.
ATH! Svartagaldur er með öllu bannaður innan SLL og…


„Hvað er sál?“ spurði Dagný og á ný mynduðu stafirnir í bókinni nýjan texta.

Sál: er ódauðlegur hluti lífveru sem…

„Dagný,“ kallaði Sindri utan úr stofunni. Dagný tróð bókinni í bakpokann sinn sem var þegar fullur af farangri. Hún slengdi honum á bakið og fór fram.
„Við þurfum að fara,“ sagði Sindri. Hann var tilbúinn, með töskuna sína á bakinu en í hendinni hélt hann á svartri bók. „Ég er búinn að þýða erfiðasta hlutann af þessu og ef við erum kyrr of lengi þá finna myrkranornirnar okkur.“
-„Hvernig þá?“
-Leitargaldur. Ég veit ekki hvernig þær fundu mig til að byrja með en núna hafa þær hár, húðflögur og meira en nóg til að finna mig hvar sem er í heiminum ef ég er of lengi á sama stað.“
-„OK, förum þá,“ svaraði Dagný undrandi yfir því hvað hún var róleg. Þetta er örugglega enn að síast inn.
-„En fyrst,“ Sindri rétti henni svörtu bókina, „þetta er galdrabók. Fyrrverandi eigandi hennar var mjög skipulagður þannig að efst í hægri horninu hjá hverjum galdri stendur erfiðleikastig hans. Ekki reyna neitt yfir 3. stigi, það er of erfitt en reyndu samt að leggja á minnið það sem þú heldur að verði gagnlegt.“
Dagný opnaði bókina einhver staðar í miðjunni og las.
Ljósgaldur 1-? Stig
Þula: elucido – erfiðleikastig fer eftir ljósmagni.
Frumefni: eldur.
Tilfinning: best að vera rólegur, ánægður og forðast algjörlega neikvæðar hugsanir…

„Hvað þýðir þetta allt saman. Ég skil að þetta er galdraþulan en hvað er þetta um tilfinningar og frumefni og eitthvað.“
-„Hver galdur stjórnast af ákveðinni tilfinningu. Þú verður að læra að stjórna tilfinningum þínum til að geta stjórnað göldrunum.“
-„Og frumefni?“ Dagný var vonsvikin yfir því hvað þetta hljómaði allt flókið.
-„Þá er verið að meina grísku frumefnin. Þessi gömlu, jörð, loft, eldur og vatn. Galdrarnir virka betur ef þú ert nær einhverju sérstöku frumefni. Það stendur hjá hverjum galdri hvað það er. Það er samt ekki nauðsynlegt, bara gerir hlutina auðveldari.“

Annar hluti

Sindri fattaði allt í einu að hann var að stara á hana en hann gat varla litið undan. Hún hálflá í tveimur sætum, niðursokkin í galdrabókina. Hann hristi hausinn og sneri sér aftur að þýðingunni á nornarúnunum.
Þau voru í strætó. Það var hennar hugmynd. Hún er svo snjöll. Á stöðugri ferð en samt gátu þau setið í næði, allavega þegar fáir voru í vagninum.
„Hey, Sindri,“ sagði Dagný allt í einu. Hún horfði fram í vagninn til að vera viss um að enginn gæti heyrt til þeirra. Þau voru alveg ein fyrir utan bílstjórann. „Hvert erum við að fara?“
-„Hvað meinarðu, við erum bara í strætó til að myrkranornirnar finni okkur ekki.“ Hann vissi hvað hún var að fara að segja.
-„Nei, ég meina… hvað er planið? Hvað gerum við?“
-„Ég veit að þetta hljómar allt… ótrúlega og kannski svolítið óhugnalegt en…“
-„Hvað?“
-„Ég held að eina leiðin fyrir okkur til að lifa af er ef við förum yfir í annan heim.“
-„Annan heim?“
-„Aðra vídd.“
-„Er það galdurinn sem þú ert búinn að vera að þýða?“ Sindri heyrði í röddina hennar hræðslu en líka reiði.
-„Það er staðsetningin. Það er bara hægt að opna gáttir til annarra heima á sérstökum stöðum á sérstökum tímum.“
-„Og hvað svo? Verðum við þar bara að eilífu? Ég byrja í prófum eftir viku… og hvað með fjölskylduna mína? Og vinina sem ég skildi eftir á Siglufirði?“ Sindri sá tár myndast í augum hennar. Hann opnaði munninn en vissi ekkert hvað hann átti að segja.
-„Þetta er öðruvísi,“ byrjaði hann óstyrkur. Þú vissir að það kæmi að þessu, að þú þurftir að segja henni þetta. „Myrkranornirnar sem eru á eftir okkur eru ekki bara að reyna að drepa okkur. Það er miklu meira í gangi, meira en…“
Hann náði ekki lengra því strætisvagninn varð fyrir höggi, eins og hann hefði klesst á vegg. Hann snarstoppaði og Sindri og Dagný hentust úr sætunum. Sindri lenti harkalega með öxlina á sætið fyrir framan og öskraði af sársauka.

Þriðji hluti

Dagný lyfti sér upp af gólfinu á strætisvagninum. Henni leið eins og hún væri að vakna en vissi að það gat ekki verið. Hún heyrði óp og leit í kringum sig. Sindri lá líka á gólfinu, hálfundir sætinu sínu. Allt í einu heyrðist skerandi öskur, næstum því ískur. Dagný lagði hendurnar á eyrun en það hafði takmarkaða virkni. Glerið í gluggunum sprakk og glerbrotinn dreifðust um allan strætisvagninn.
„Sindri!“ öskraði hún og fann nokkur glerbrot lenda á bakinu hennar. Svo tók hún eftir því að það hafði hljóðnað. Algjörlega. Öskrin höfðu hætt. Hún heyrði nokkur fjarlæg bílahljóð en annars ekkert. Hún settist á hnén og var við það að fara að skríða til Sindra þegar hún heyrði fótatak. Einhver gekk hægt niður ganginn á strætisvagninum. Dagný var falin bak við sætið sitt en fæturnir hans Sindra lágu sýnilegar frammi á ganginum. Hún sat frosin á hnjánum og hlustaði á manneskjuna nálgast þau hægt. Galdrabókin! Hún leitaði í sætinu en bókin var horfin. Í örvæntingu leit hún í kringum sig og fann hana loksins. Hún lá á gólfinu framarlega í vagninum. Það er engin leið fyrir mig að ná henni… nema kannski. Hún rifjaði upp galdur sem hún hafði lesið um. Hann var á fyrstu blaðsíðunni í bókinni.

Telekinesis – sð færa hluti úr stað með hugarorkunni 2-? Stig

Án orða – erfiðleikastig fer eftir þyngd og fjölda hluta sem færðir eru
Frumefni: loft.
Engin sérstök tilfinning hentar en sterkar tilfinningar geta valdið því að maður missi stjórn…

Hún hafði lesið þetta oft enda sérlega hentugur galdur. Hún hélt höfðinu að gólfinu og starði einbeitt á bókina. Hún fann fyrir stjórnlausum ótta við hvert fótatak ókunnugu manneskjunnar en vissi að hún þyrfti að bæla það niður. Er nóg loft hérna í kringum mig? Hvernig hefur maður loft nálægt sér? Hún var við það að gefast upp þegar bókin hreyfðist. Það var ekki mikið, hún rétt ýttist til hliðar en Dagný vissi að hún hafði valdið því. Hún bar hönd fyrir munninn af undrun og gleði og fann allt í einu fyrir óstjórnlegri löngun til að brosa. Það var eins og allt varð raunverulegt fyri henni. Hún var norn.

Allt í einu var gripið í hárið á henni. Hún veinaði af sársauka á meðan hún var rifin á fætur. Manneskjan sem hélt í hárið á henni var kona, með fínar hrukkur í andlitinu, í kringum fertug. Hún var mjó og frekar hávaxin, í síðum svörtum kjól. Hún starði með undrunarsvip á Dagný eins og hún hefði búist við einhverju allt öðru. Myrkranorn!
„Hva…? Það ert þú.“ Undrunarsvipurinn hvarf og bros færðist yfir andlit hennar. Myrkranornin greip um hálsinn á Dagný og byrjaði að fara með einhverja galdraþulu sem hún skildi ekki. Húðin á henni fór að brenna undan taki hennar en hún var lömuð. Hún gat ekki einu sinni öskrað þegar sársaukinn varð svo mikill að það var eina sem hún vildi gera. Hún fann brunatilfinninguna dreifast um allan líkaman þegar allt í einu sársaukinn hvarf og myrkranornin missti takið á henni. Nornin féll á gólfið og fyrir aftan hana stóð Sindri, með krepptan hnefa.
-„Komdu,“ sagði hann og tók í hendina á Dagnýju. Þau hlupu niður ganginn og voru komin að hurðinni á strætisvagninum þegar Dagný stoppaði.
-„Galdrabókin,“ sagði hún æst, hærra en hún hafði ætlað. Hún hentist aftur inn ganginn en hrasaði. Hún lenti samt hjá bókinni en áður en hún komst lengra stóð myrkranornin upp, opnaði munninn, og út kom þetta hræðilega ískur sem hafði áður brotið gluggana. Dagný réð ekki við sig hún sleppti bókinni og hélt um eyrun á sér. Það var samt eins og hún skynjaði ekki öskrið sem hljóð, heldur sem sársaukabylgju sem fór um hana alla. Hún mundi þá eftir öðrum galdri sem hún hafði lesið um.
„Silentium!“ kallaði hún af ákafa og um leið lýstust hendurnar hennar upp. Hvítt ljós þeyttist frá henni eins og í sprengingu og allt hljóðnaði. Dagný greip bókina og hljóp til Sindra. Hann reyndi að segja eitthvað en ekkert hljóð heyrðist. Hún gat ekki annað en brosað þegar hún sá undrunarsvipinn á honum.

Fjórði hluti

Sindri tók í höndina á Dagnýju og þau drifu sig út úr strætisvagninum. Hann reyndi að hlaupa sem hraðast þannig að hún sæi sem minnst af ástandinu fyrir utan vagninn en hann vissi að það var tilgangslaust. Allt í kring voru klesstir bílar, rúðurnar sprungnar. Sumir höfðu hentst út úr bílum sínum og lágu líkin þá blóði drifin á hörðu malbikinu en aðrir sátu enn í sætunum, ekkert sem benti til þess að þeir voru dánir, annað en sviplaus andlitin.
Sindri hljóp og dró Dagnýju á eftir sér, sem leit í kringum sig, eins og hún gæti ekki litið undan. Hann skildi það svosem vel en hann leit ekki um öxl. Hún var enn á eftir þeim, myrkranornin, og þau gátu hvergi falið sig.