Nornin, 2. kafli - Bókin Fyrsti hluti

Dagný vaknaði daginn eftir við það að maginn hennar öskraði af hungri. Þegar hún fór á fætur, tók hún eftir því að hún var enn í fötunum frá kvöldinu áður og allt rifjaðist upp fyrir henni. Hvað í andskotanum gerðist?… ég var bara þreytt. Í raun neitaði hún bara að trúa því sem gerðist og hún vissi það líka. En það var auðveldara svoleiðis.
Á leiðinni fram í eldhúsið rak hún augun í bókina sem lá á borðstofuborðinu. Hún settist í sófann og tók bókina í fangið. Hún byrjaði að flétta blaðsíðunum en sá strax að þær voru allar auðar. Hún var um það bil að gefast upp þegar miði datt úr bókinni niður á gólfið. Hún tók hann upp og las;

Lestu upphátt… Hvaða bók er þetta?
s: 8436422


Dagný leit á afturhluta miðans sem var auður og henti miðann á borðið.
„Djöfulsins rugl,“ sagði hún við sjálfa sig en í raun var hún orðin forvitin. „Hvaða bók er þetta?“
Um leið birtust svartir stafir á opnu bókarinnar.

Annar hluti

Á fimmtu hæð í íbúðablokk í breiðholtinu vaknaði Sindri við að síminn hringdi.
„Halló,“ hann ræskti sig þegar hann heyrði hvað röddin hans var rám.
-„Sindri?“ Hann þekkti röddina og vaknaði um leið. Hann settist upp.
-„Dagný.“
-„Já, þú veist væntanlega af hverju ég er að hringja. Ég er með nokkrar spurningar.“
-„Má ég koma til þín í kvöld?“
-„Öhm, OK, en…“
-„Annars geturðu spurt bókina.“
-„Bókina?“
Áður en Sindri náði að svara heyrði hann brothljóð frammi úr stofunni i íbúðinni hans. Hann skellti á og læddist að svefnherbergishurðinni. Hann svaf aldrei með alveg lokaða hurð þannig að hann gat litið út um rifu, inn í stofuna. Í myrkrinu frammi sá hann skuggana af tveimur mönnum. Annar á leiðinni inn um brotinn stofugluggann en hinn var að hjálpa honum. Þær hafa fundið mig.
Sindri greip hljóðlega ferðatösku og byrjaði að tína í hana föt og bækur. Hann var örstund að pakka. Gott að ég var tilbúinn. Hann var meira að segja með skó og jakka geymda í herberginu. Hann smeygði sér í skóna og togaði í jakkann sem efst á hrúgu af dóti á náttborðinu hans en við það hrinti hann niður dótinu. Bækur, vekjaraklukkan hans og glas hrundu á gólfið með látum. Sindri fraus af skelfingu. Hann heyrði fótatak nálgast herbergið. Hann rétt náði áttum í tíma. Slakaðu á, þú ert víðbúinn þessu. Hann stakk hendinni í vasann og dró upp lítið, lokað glas fyllt glærum vökva. Um leið og herbergishurðin opnaðist henti hann glasinu í gólfið, sem brotnaði og upp frá því steig reykur. Sindri rétt sá furðulostinn andlit mannanna áður en herbergið fylltist af reyknum. Hann opnaði í flýti svefnherbergisgluggann og stökk út.

Þriðji hluti

Dagný lagði símann á borðið og las aftur það sem stóð í bókinni.

Bók þessi, Upplýsingabók SSL, er skrifuð af Helen Thatcher fyrir Samtök Sameinaðra Ljósanorna með það að markmiði að fræða nýjar nornir um heim galdra. Bókin hefur verið þýdd á yfir 100 tungumál.

Notendaleiðbeiningar:
Opnið bókina á hvaða síðu sem er og spyrjið einfaldra spurninga. Ef ekkert svar gefst skal prófa að umorða/einfalda spurninguna. Ef enn ekkert svar birtist er líklegast ekkert svar að fá. Athugið að aðeins nornir geta notað bókina en notkun hennar er stranglega bönnuð í návist manneskja.


Dagný renndi fingrunum yfir letrið. Það var upphleypt.
„Hvað er manneskja?“ sagði hún upphátt og fylgdist með stöfunum endurraðast eins og blek væri að færast til undir yfirborði pappírsins.

Manneskjur nefnast mannlegar verur sem engan galdramátt hafa.

Þetta var allt eitthvað svo óraunverulegt fyrir henni, eins og hún væri að dreyma. Hún starði á bókina. Um hvað get ég spurt? Hún náði ekki að láta sér detta neitt í hug því hún var trufluð við það að einhver bankaði hjá henni. Hún fór til dyra en það var enginn fyrir utan. Aftur var bankað og þá áttaði hún sig á því að það kom frá eldhúsinu. Fyrir utan eldhúsgluggann hékk Sindri í einhverju sem virtist svífa í loftinu. Hún opnaði gluggann og hann smeygði sér inn en hrasaði og féll á gólfið. Hann var með bakpoka á bakinu sem virtist troðfullur. Úr hendi hans flaug lítil trjágrein. Dagný tók hana upp og virti hana fyrir sér.
„Þetta er bláeikargrein,“ sagði Sindri sem var staðinn á fætur, „nornir geta notað þær til að fljúga.“
-„OK, hvað er bláeik.“
-„Bara trjátegund sem manneskjur sjá ekki,“ svaraði hann og brosti til hennar.
-„Er annars einhver ástæða fyrir því að þú komir fljúgandi, mörgum tímum áður en þú ákvaðst?“ Hún brosti á móti en bros Sindra dofnaði.
-„Ég hélt að ég hefði meiri tíma.“
Eins og það útskýri eitthvað, hugsaði Dagný en sagði ekkert. Sindri strunsaði framhjá henni og inn í stofuna. Þar settist hann í sófann og tók upp bók úr bakpokanum sínum. Hún var, líkt og upplýsingabókin, stór og brún en með einhverju merki framan á sem Dagný þekkti ekki. Það leit út eins og grískur stafur skrifaður með skrautskrift.
-„Hvað merki er þetta?“ spurði Dagný.
-„Nornarún,“ svaraði Sindri áhugalaus og fór að fletta í bókinni, eins og í leit að einhverju.
-„Líka það sem er framan á upplýsingabókinni?“
-„Nei, það er merki SSL… hérna er það.“ Hann hætti að fletta í bókinni og lagði hana opna á borðið. „Áttu blað og blýant handa mér.“
Dagný svaraði með mumli og náði í skrifblokk og penna og rétti honum. Hún settist svo hjá honum . Blaðsíðurnar í bókinni voru þaktar letri sem Dagný taldi að væru fleiri nornarúnir.
„Þú ættir að pakka,“ sagði Sindri skyndilega og lagði frá sér pennann, „bara nauðsynjar, hlý föt, upplýsingabókina, skriffæri… þær finna okkur bráðum.“
-„Þær hverjar?“ spurði Dagný skelkuð, „hvað er eiginlega í gangi?“
-„Þær fundu mig heima hjá mér og þær munu finna mig aftur.“
-„Um hvað ertu að tala?“
-„Fyrirgefðu að ég dró þig inn í þetta en ég bara get þetta ekki einn.“
Hún sá hræðsluna í augum hans og tók í höndina á honum.
-„Sindri… hverjir eru á eftir þér?“
-„Myrkranornirnar.“