Snjórinn liggur yfir öllu eins og sæng yfir sofandi gróðrinum, krákurnar krúnka, snjórinn marrar undan skónum,birtan sker í augun og mjúk golan kælir á mér andlitið og smýgur inn á hálsmálið. Allt í einu heyri ég kallað „hey“ og í sömu andrá lendir snjóbolti á bringunni á mér. Boltinn var frá pabba sem stendur þarna brosandi með húfu með dúsk. Ég brosi til baka til hans.
„Þú varst eitthvað svo utan við þig, um hvað varstu að hugsa?“ Segir pabbi.
„Ha? Ég? Ekkert“ svara ég
„Finnst þér ekki fallegt hér á fjallinu?“ segir pabbi.
„Jú, en samt svolítið kalt.“ svara ég. Hann brosir ennþá.
„Viltu ekki setja húfuna þá á þig?“ segir hann um leið og hann tekur húfuna af sér og réttir mér hana.
„Jú takk, en verður þér ekki kalt?“
„Neinei, maður er nú ekki hreinræktaður íslendingur fyrir ekki neitt!“ sagði hann og hélt áfram að ganga. Ég skellti húfunni á mig, þó að ég vissi að honum yrði kalt, en nennti ekki að rökræða við hann og elti hann. Í rauninni var ég áðan að hugsa um fortíðina og hvað ég hafði margt til að þakka fyrir, og hvað lífið er fullkomið þrátt fyrir allt. Pabbi og mamma hafa hjálpað mér með einhverfuna og eineltið sem hefur elt mig í gegnum tíðina. Ég veit að pabbi hefur átt erfitt, alveg sérstaklega eftir að mamma dó. Ég man eftir deginum þegar hún dó, ég kom heim um kvöldmatarleitið eftir að hafa verið niðri á bryggju að dunda mér og spurði hvað væri í matinn en fékk ekkert svar. Síðan sá ég pabba sitja við eldhúsborðið með grátbólgin augu og sagði mér að setjast, og síðan sagði hann mér það. Ég man ekki mikið meira, man bara að ég fann saltbragð, svo blóðbragð. Ég hafði bitið í tunguna til blóðs. Ég sakna hennar enn í dag, þó að það séu liðin sex ár síðan að hún dó úr MS-sjúkdómnum. Hún hafði lengi verið rúmliggjandi vegna veikindana og pabbi var verkamaður og þurfti að vinna mikið og kom yfirleitt heim í kringum átta og eldaði þá matinn. Ég spjallaði oft við hana á daginn og var hún eini félagsskapurinn sem ég hafði á daginn þar sem að ég átti enga vini og gat ekki gengið í skóla vegna eineltis og fötlunar né neina stofnun fyrir fatlaða því að ég var lagður í einelti þar líka. Pabbi og mamma börðust fyrir því að ég fengi að fara í skóla eða á stofnun og fóru fram á að láta reka þá sem voru verstir, en ekkert var gert í því, og því gátu mamma og pabbi ekkert gert. Mamma var sú sem huggaði mig alltaf þegar fólk var leiðinlegt við mig og var heimilið eina skjólið sem ég átti gegn þessum harða heimi.
-Heima er best.
Mér leið alltaf svo vel þegar mamma eða pabbi vöfðu örmunum um mig og létu mig finna fyrir því að ég skipti máli og að þau elskuðu mig, þrátt fyrir mína galla. Þegar fólk hafði verið leiðinlegt við mig og ég komið grátandi heim var það skelfilegt að hafa engan til að hugga sig og mér leiddist líka agalega mikið, nema þegar pabbi var kominn heim, þá gat hann huggað mig og við gerðum eitthvað skemmtilegt.
-Heima er best.
„Er langt í að við komum heim?“ spyr ég pabba
„Nei, bíllinn er bara hérna handan við hornið.“ svarar hann og bætir síðan við „hvað, er þér orðið svona kalt?“
„Nei, en ég er svoldið blautur á fætinum.“ lýg ég, því mér er í raun ískalt.
„Við skulum þá haska okkur svolítið, ekki viljum við að þú veikist.“ segir hann með einlægu glotti. Þarna er bílinn, loksins. Mig er farið að langa að komast heim, fara í þurr föt og í heitt fótabað. Ég sest í framsætið á bílnum, en fer aftur úr því því að pabbi bað mig um að dusta af mér snjóinn, síðan stíg ég aftur inn í hann og spenni á mig beltið. Vegurinn á leiðinni heim er hvítur og auðvelt að sjá að hann er háll, vegastikurnar þjóta hjá og það er byrjað að dimma. Náttúran er falleg og hitinn í bílnum erokkur feðrunum kærkomin.
„Var ekki bara góð tilbreyting að fara út í góðan göngutúr?“ spyr hann eftir fimm mínútna þögn í bílnum.
„Jú, þetta var mjög gaman“ segi ég.
„Það er nefnilega ótrúlega hressandi að fara í svona göngutúr um náttúruna, sérstaklega á veturna þegar allt er svo fallegt og friðsælt.“ segir hann og lítur á mig brosandi.
„Já.“ er það eina sem mér dettur í hug að segja. Það sem eftir er af ferðinni ríkir þögnin.
Loksins rennum við í hlaðið heima. Pabbi klappar mér á lærið, fer út úr bílnum, lokar dyrunum og ég elti hann inn í hús. Þegar við erum komnir í þurrt og ég kem af klósettinu er keimur af súkkulaði í loftinu og þegar ég kem inn í eldhús situr pabbi við eldhúsborðið og þar bíður mín kanna af heitu kakói, bali með heitu vatni á gólfinu og handklæði. Ég er furðu lostinn yfir því að pabbi virðist hafa lesið í hugan minn. Hann glottir. Ég sest án þess að segja neitt annað en bara „takk“
„Verði þér að góðu, þú átt þetta skilið.“ Segir hann með einlægum svip. Mér finnst eins og lífið sé fullkomið og það hafi alltaf verið það. Þó að manni líði ekki alltaf vel þá eru þetta stundirnar sem maður lifir fyrir og það er þess virði að lifa fyrir þær.
-Heima er best.
Ég er Sterinn.