Andskotinn. Ég hef týnt nýju skóflunni minni. Fallega rauða skóflan mín sem ég fékk í sumargjöf frá ömmu. Hún hafði þjónað sínum tilgangi í allt sumar. Nú er hún á bak og burt. Ég veit, eins og flestir á mínum aldri, að flestar sandkassaskóflur eru á sama gæðaskala en gæðin hafa ekkert með þessa að gera. Ég unni þessari skóflu mjög. Þessi skófla sem ég er með núna fékk ég bara að láni, hún er brotin í báða enda og bognar eins og lakkrísrör. Svo er sandkassinn svo gaddfreðinn hvort eð er að það er ekkert hægt að moka hérna. Fóstran mín sagði bara að innitíminn væri búinn í bili og veðurfar hafði ekki með nokkru móti áhrif á það. Ég reyndi að mótmæla og segja henni að þetta væri tómt rugl. Það er nefninlega fátt sem leikskólanemandi getur athafnast við úti þegar allt er frosið í hel og Kári bítur í andlitið. Og það ekki einu sinni snjór!

Það var farið að síga á seinni hluta útivistartímans. Þeim síðasta í dag. Ég gerði mér grein fyrir að það hefði ekkert uppá sig að sitja hér á rassinum og þykjast moka frosnum sandi. Þetta er líka sá tími dags sem ég er orðinn langþreyttur á leir og vatslitum, mauksoðnum kartöflum og ristuðu brauði frá því í fyrra, fyrra dag og vil bara fara heim. Ég ætti svo sem að vera löngu orðinn vanur þessu. Búinn að fá mig full saddan af þessari ungbarnastofnun. Strákurinn sem sat á móti mér var með sand fastann í horinu sem lak niður á vörina hans og fraus þar fast. Hann heitir Angantýr. Ég hef óbeit á honum. Ég ákvað því að svipast aðeins um. Kannski í veikri von um að finna skófluna. En ég stóð upp og leit í hálfhring yfir leikvöllinn. Vetur var auðsjáanlega í nánd, grámyglaður himininn ekki sérlega vinalegur og kuldinn löngu búinn að finna sér leið inn um bláa pollagallan og þykku peysuna frá frænku. Í þessum aðstæðum er athyglin takmörkuð og því var ég dálítinn tíma að átta mig. Svo sá ég hana.

Hún sat bak við vegasöltin. Hún var klædd í ljósrauðan kuldagalla en enga húfu svo að stutt, gullið hárið fékk að njóta sín. Allt volæðið sem ég hafði upplifað þennan daginn var horfið. Kuldinn útilokaðist. Ég meira að segja gleymdi rauðu skóflunni um stund. Stelpan birtist og hvarf til skiptis á meðan stelpan á vegasaltinu hentist upp og niður. Ég gekk hröðum skrefum í átt til hennar og hrasaði næstum um stein á leiðinni. En hún sá mig ekki. Þegar ég nálgaðist fann ég hvernig blóðið hitnaði og æðarnar þenjast. Hjartað réð varla við allan hamaganginn. Ég veit ekki nákvæmlega hvað kom yfir mig en tilhugsunin við að klúðra þessu nagaði mig inn að skinni. Ég fylltist efasemda og var við það að hætta við. En samt var eitthvað sem dreif mig áfram.

Ég staðnæmdist við hlið hennar. Það tók mig tíma að finna leið til að bera mig að. Ég hafði ekki hugsað út í það. Þar sem hún leit ekki á mig ákvað ég að setjast niður á móti henni. Um leið leit hún upp frá mokstrinum og horfði á mig. Það var eins og rafmagni hefði verið hleypt á mig þegar augu okkar mættust. Allt annað á leikvellinum fannst mér standa í stað. Þá birti yfir henni og hún sýndi undurfagurt bros sitt. Við sátum í þögulli ástríðu í frostinu og nutum þess að bara horfa. Allt í einu spurði hún mig hvort ég vildi vera með. Aftur var eins og rafmagn fór um mig. Ég var ekki lengi að játa og rétti fram brotnu skófluna. Ég sat dáleiddur af fegurð hennar og hafði varla undan öllu því sem fór fram á milli okkar.

Við töluðum um allt milli himins og jarðar. Ég sagði henni frá rauðu skóflunni og afsakaði ódýru Hagkaupsskófluna sem ég var með. Hún sagði mér frá ferðalagi sem hún fór fyrr um sumarið með fjölskyldunni. Við náðum fullkomlega saman. Mér var orðið svo kalt á rassinum að ég laumaðist til að setja vettlingana undir mig. Síðan hélt ég áfram frásögnum mínum. Ég hugsaði mikið og hratt á meðan við áttum þessa stund. Ég hafði miklar áhyggjur af því að útitíminn myndi renna út fljótlega og það yrði út um samband okkar. Ég vildi aldrei að þetta tæki enda. Við sátum nú hlið við hlið til að ná upp hita í frostbitinu. Allar tilfinningar runnu saman í eitt og liðu um okkur bæði eins og lindarspræna undan gömlum mosa.

Þá heyrði ég fóstruna kalla úr fjarska. Stundin var runnin upp. Það var eins og ég hafði verið dreginn óviljugur út úr besta draumi lífs míns. Á þeirri leið sem ég var dreginn út þá leit ég í örvæntingu á stelpuna og því næst á fóstruna. Eftir langan umhugsunartíma ákvað ég að kýla á það og ætlaði að taka í höndina á henni og leiða hana inn. En ég greip í tómt. Hún var staðin upp og komin óvenju langt frá mér. Hún hafði yfirgefið mig án þess einu sinni að kveðja. Ég reisti mig við og sat á hnjánum og horfði á eftir henni. Hún hljóp í átt að inngangnum og brátt var hún horfin inn í þvögu af öðrum krökkum að troðast inn í hlýjuna. Ég sá enga ástæðu til að taka þátt í því. Ég hafði verið yfirgefinn.

Nú sat ég einn í frosna sandinum og horfði í gaupnir mér. Hún var farin. Jafn fljótt og hún hafði birts mér var hún horfin. En þarna, með hugann fullan af mæddum hugsunum sá ég eitthvað. Eitthvað var grafið í sandinn.

Hún hafði þá setið á henni allan tímann.
Guð blessi trúleysið