„Verður ekki örugglega í lagi með þig?“ spyr mamma.
-„Jú,“ svara ég og brosi. Alvöru brosi. „Ég er búin að jafna mig. Það er bara búið að vera svo mikið í gangi…“
-„Ég veit,“ segir hún. Röddin hennar er huggandi og mér finnst ég örugg á ný. „Ég man hvernig það er að vera unglingur.“
Við horfumst í augu í smástund og hún faðmar mig svo. „Jæja, við erum þá farin.“
Ég fer fram og kveð pabba líka.

„Á ég ekki að koma?“ spyr Linda í símanum. Það er áhyggjutónn í röddinni hennar.
-„Nei, í alvöru, þetta verður í lagi,“ svara ég, „ég verð að læra að vera ein líka.“ Að gráta í faðmi mömmu hefur gefið mér nýtt öryggi og nýjan styrk. Nú langar mig bara að komast yfir hræðsluna.
-„Allt í lagi,“ segir Linda, „en þú hringir ef það er eitthvað.“
-„Ég geri það, bæbæ.“
-„Sjáumst.“

Klukkan 8 um kvöldið á föstudeginum bankar einhver á hurðina. Hjartað á mér byrjar að slá hraðar en ég reyni á róa mig niður. Ég horfi út um gluggann í eldhúsinu til að sjá hver er fyrir utan. Það er orðið dimmt úti þannig að ég sé ekki andlitið greinilega. Svo sé ég pizzukassann og fer og opna.
-„Ein 12 tommu pizza með pepperoni og sveppum, það eru 1299 kr.“
-„Gjörðu svo vel,“ ég rétti pizzusendlinum 1500 kr. „eigðu afganginn,“ segi ég hratt og loka hurðinni í flýti. Ég legg frá mér pizzuna, leggst upp við hurðina og læt mig renna niður á gólf. Ég sit þannig þangað til ég heyri bíl pizzusendilsins keyra í burtu.

Ég legg pizzuna á eldhúsborðið og er að taka fram eitthvað að drekka þegar aftur er bankað á hurðina. Ég labba hægt að glugganum. Það er bankað aftur fastar og þá byrja ég að bakka aftur. Ég finn að ég byrja að svitna í lófunum, hjartað slær aftur hraðar og ég á erfitt með að anda. Ég heyri gler brotna og öskra. Ég hleyp svo inn í stofu og stekk bak við sófa.

Ég sit á hnjánum með andlitið alveg við gólfið. Ég heyri þegar einhver gengur inn í húsið hægt og rödd Reynis kalla; „Lára… ertu hérna.”
Hann gengur inn ganginn og stoppar. Örugglega til að kíkja inn í herbergið mitt hugsa ég. Svo heldur hann áfram inn í stofuna.
„Lára,“ sönglar hann, „ég kom bara til að þakka þér fyrir síðast.“
Ég leggst varlega á hliðina til að sjá undir sófann. Ég sé rétt svo brúnu skóna hans í myrkrinu. Hann nálgast mig með rólegum skrefum. Svo stoppar hann og snýr við.
„Ég veit það þú ert heima. Ég sá þig áðan þegar þú tókst á móti pizzunni. Og ég veit að þú ert ein heima.“
Ég sé að hann tekur peysuna mína upp af gólfinu. Hún hlýtur að hafa dottið af stólnum. Ég heyri svo að hann þefar að henni. Innilega.
„Þannig að við höfum næði,“ hann hlær stuttlega, „til að gera það sem við viljum.“
Ég sé að hann gengur inn í eldhúsið, ég heyri skúffu opnast og svo hljóðið sem kemur þegar málm strýkst við málm. Hann er að ná sér í hníf.
„Var það Linda sem sagði þér að kæra mig? Ég meina þú hlaust að vita að það gengi ekki.
Ég tek með skjálfandi hendi símann úr buxnavasanum mínum og byrja að skrifa Lindu SMS. Ég heyri Reyni ganga áfram um en hann nálgast mig ekki þannig að ég anda rólegar. Allt í einu pípar síminn fjórum sinnum, til að láta mig vita að ég var að fá SMS. Reynir stoppar.

Ég finn blóðið þjóta um æðarnar á mér, ég klemmi augunum saman og lamast. Algjörlega. Ég hætti að anda, hætti að hugsa. Ég heyri Reyni nálgast. Hann gengur ennþá hægt og hann segir ekkert. Heilinn á mér fer aftur í gang. Hann segir mér að standa upp, að hlaupa í burtu, að ráðast á Reyni, að gera bara eitthvað annað en að liggja með augun lokuð og bíða. En ég get ekki hreyft mig. Reynir er rétt fyrir framan sófann þegar allt í einu heyrist öskur og skellur í kjölfarið. Ég þekki öskrið. Það er Linda.

Ég opna augun og stend upp. Linda stendur yfir Reyni með einn af ílöngu málm-kertastjökunum hennar mömmu í hendinni. Reynir ýtir sér upp með höndunum, ennþá með hnífinn í hendinni, og Linda sveiflar kertastjakanum. En Reynir er of snöggur. Hann ver sig með handleggnum og rífur kertastjakann af henni. Hann stendur svo upp hrindir henni á bakið. Ég stekk á bakið á honum, vef löppunum um mittið á honum og tek um hálsinn með höndunum. Hann dettur næstum því aftur fyrir sig en þegar hann nær jafnvægi lyftir hann hendinni með hnífnum og beinir honum í áttina að mér. Ég bít í hálsinn á honum eins fast og ég get. Hann öskrar af sársauka og gleymir hnífnum í smástund. Linda stendur aftur upp og áður en Reynir nær að gera neitt tekur hún í höndina hans, þá sem heldur á hnífnum, og byrjar að losa grip hans. Hann er samt það mikið sterkari en hún þannig að hún bítur í fingurna á honum sem gefa loks eftir. Hnífurinn fellur á gólfið. Reynir kýlir Lindu í kinnina þannig að hún snýst og fellur á gólfið, á maganum. Hann rífur svo í handlegginn á mér togar mig af sér. Hann hendir mér í sófann og tekur um hálsinn á mér. Ég lem hann í brjóstið og klóra hann í framan. Ég ríf upp nokkur sár sem enn voru að gróa. En hann hættir ekki. Ég verð máttlaus í líkamanum og andlitið á Reyni verður daufara og daufara.

Ég finn að ég er alveg að fara að gefast upp þegar allt í einu takið um hálsinn á mér losnar og ég finn blóðið streyma aftur upp í heilann. Sjónin skýrist, Linda hjálpar mér upp og faðmar mig. Mig svimar og ég dett næstum. En Linda heldur mér uppi.
„Þú ert alltaf að bjarga mér,“ segi ég. Röddin mín er veikluleg.
-„Vonandi í síðasta skiptið,“ svarar hún.
Ég lít yfir öxlina á Lindu niður á gólfið. Reynir liggur þar á maganum, fötin hans útötuð í blóði og hnífurinn stingur upp úr bakinu.

Við vefjum Reyni í svarta ruslapoka og keyrum hann í hjólbörum að vinnusvæði, ekki langt frá húsinu mínu, en nógu langt. Þar gröfum við hann á moldarsvæði sem ég veit að verður þakið með grasi bráðlega. Svona grasmottum. Bílinn hans keyrum við niður í bæ og leggjum hann ólöglega fyrir utan skemmtistað. Við tökum svo strætó heim og þrífum heima hjá mér. Ég veit að við hefðum getað hringt bara á lögguna þar sem þetta var sjálfsvörn en við höfðum hvorugar mikla trú á lagakerfi Íslands. Ég veit ekki hvort Reynir finnist nokkurn tímann en ég er ekki hrædd við það. Ég veit nefnilega að ég get ráðið við það, ef það gerist. Ég og Linda. Saman.