Ég heiti hvað sem þér dettur í hug, ég veit það ekki sjálf.


„Ég heiti Karen.“

„Halló, Karen.“ Söng kórinn sem situr í hring í utan um mig.

Halló, þú sem átt allt og hefur ekkert að gera hérna.


Ég hósta og lít í kringum mig. Augun í þeim virðast dauð og baugarnir í kringum þau spegla vonleysið.

Ég anda inn. En ég finn ekki súrefnið. Ég finn aðeins fyrir áhyggjum, vandamálum og örvæntingu troða sér niður niður í kokið á mér og mér finnst ég kafna. Ég hósta aftur.

Ég heiti úrræðaleysi og kvíðni.


„Hvað er það sem angrar þig?“ Ég tek ekki eftir því hver talaði. Þau líta öll eins út.

Ég hrekk við þegar einhver geispar. Mig langar helst að kalla á hendina mína svo ég geti nagað á mér neglurnar. Ég lít niður á þær og sé þær, það sem eftir er af þeim annars.

Ég man ekki þegar ég þurfti ekki að finna fyrir þeim skera mig í tunguna. Þegar ég þurfti ekkert til að róa taugarnar.

„Hvað er það sem angrar þig?“ endurtekur röddin og andlitið sem áður var í móðu var nú skýrt og andlitsdrættirnir horfðu blákalt í augun á mér.

Ég þekkti þessa manneskju.

Hún var skynsöm. Hún vissi hvað var fyrir bestu. Hún vissi að ég var að gera rangt. Hún vissi það sem ég var of þrjósk til að viðurkenna. Ég ætlaði ekki að viðurkenna að eitthvað væri að. Að það sé óeðlilegt að láta svona.

Ég heiti láttu mig vera og gleymdu þessu.

Það er ekki eins og þú getir hjálpað mér. Gleymdu þessu.

Ég lít frá manneskjunni og andlitsdrættirnir þokast í móðu aftur.

Taugarnar toga í fótinn á mér og taugaveikluð leyfi ég honum að skoppa í takt við úrið sem er strekkt á handlegginn á mér. En ég lít ekki á klukkuna.

Því að ég veit að hún hreyfist ekki þó að hún tifi. Ennið á mér er vott.

Ég er föst hérna og ég mum ekki komast fyrr héðan út þó að ég myndi í óþolinmæði stara á vísana í stoppi.

„Spíttu því út úr þér,“ augu mín skutust upp á manneskjuna sem talaði. Ég var kunn við hana líka. Ég þekkti illkvittnu ákveðnina í augum hennar. „Eða bara þegiðu. Þú mundir vera að gera öllum greiða ef þú velur seinni kostinn.“

Andlit mitt var hissa, taugarnar og vöðvarnir í andlitinu þandir og augun vel opin.

Samt var eins og ég væri að kinka kolli.

Manneskjan hafði rétt fyrir sér! Það var ekkert að mér. Ekkert.

Aðeins kall á athygli? Já.

Þegar ég ætlaði að leyfa sjálfri mér að heiðra mína innri skoðun þá hvarf andlit manneskjunnar sem sagði sannleikann og blasti við mér máðar línur þess sem var.

„Hún hefur rangt fyrir sér! Ekki hlusta á hana. Þú veist hvað er fyrir bestu!“

Já, ég veit. Ég veit! Ég… ha?

Ég heyrði eitthvað dauft hljóð. Einhver var að hvísla.

„Farðu…“


Ég greindi ekki orðaskil. Ég leit frá manneskjunni sem hafði ávarpað mig áður, og út í horn. Það eru ekki horn á hring.

Manneskjan horfði niður og lét frá sér berast örstutt, hikandi orð.

„Farðu tilbaka.. þú átt ekki að vera hérna. Raunveruleikinn bíður þín.“

Ég sperrti eyrun til að grípa innihald hvíslsins.

En röddin virtist svo fjarlæg. Eins og hún væri stödd í öðrum heimi í staðinn fyrir í krók huga míns.

Ég pírði augun, andlitsdrættir manneskjunnar voru að fjara út og ennþá heyrði ég ekki orð. Ég sá varir hennar hreyfast þangað til hún varð að móðu líkt og allir aðrir í hringnum.

„Hvert eruð þið að fara?!“

Manneskjurnar sem áður sátu í fullkomnum hring voru að standa upp og ganga út í svarta tómið. Þær vissu þó hvert þær voru að fara.

Ég stóð þarna og leit í kringum mig. Valmöguleikarnir voru of margir. Ég sá of mörg mistök sem hægt var að forðast.

„Halló! Hvað á ég að gera? Þið áttuð að hjálpa mér!“ hrópa ég er umhverfi mitt byrjar að leysast upp.

Þau áttu að hjálpa mér! Hvað á ég núna að gera?

Hvað..

Hver..

Hvert..?


Ég opnaði augun og hvíta birtan skar mig í augun. Ég klemmdi þau saman aftur og reyndi að koma hugsunum mínum á réttan kjöl.

„…vakandi… lyfin…“


Ég gretti mig í framan og hélt augunum lokuðum. Ég skildi ekki hvað var að gerast. Ég var allt í einu liggjandi. Mér fannst eins og eitthvað sæti á höfðinu á mér. Var verið að stinga einhverju í fæturnar mínar?

„Hérna eru lyfin þín…“

Kvenleg, sykursæt og ógeðfelld rödd barst inn í eyrun á mér.

„N-nei,“ mótmælti ég. Þó að ég vissi ekki hverju.

„Alveg róleg, þetta tekur enga stund.“

Ég reyndi máttvana að lyfta hendinni minni upp til að slá röddina í burtu. Eitthvað braust innum varirnar mínar og ég fann biturt bragðið af tveimur litlum hringlóttum hylkjum. Mín fyrstu viðbrögð voru að hrekja boðflennurnar út, en bragðlausum vökva var sturtað inn í munninn á mér og ég var tilneydd til að kyngja.

Ég heiti þetta hefur gengið of langt.

Áður en ég aftengdist heiminum og féll niður í annað lyfjadáið, sá ég manneskjuna aftur í huga mér. Hana sem sat í horninu á hringnum.

Hún hreyfði varirnar og þetta skipti heyrði ég skýrt og vel í henni:

„Nú er það of seint.“
"Reading is one form of escape. Running for your life is another."