Ég hrindi upp hurðinni þannig að hún skellur í veginn. Ég geng síðan hörðum skrefum inn í herbergið mitt og hendi veskinu frá mér út í horn.
„Lára…“ byrjar Linda en segir svo ekkert meira. Ég finn reiðina dofna þannig að ég öskra til að reyna að halda í hana. Ég vil ekki að hún hverfi. En hún gerir það hægt og rólega og hræðsla tekur yfir. Ég fer upp í rúm og skríð undir sængina. Linda leggst hjá mér og faðmar mig. Ég byrja að gráta. Fyrst rólega með nokkrum tárum en ég ræð ekki við mig og fer svo að hágráta.
„Þetta verður allt í lagi,“ segir Linda, „þetta verður allt í lagi.“

Ég vakna við verkjaraklukkuna í símanum mínum en ég opna ekki augun. Linda slekkur á henni og ég heyri að hún fer á fætur.
„Lára,“ hún ýtir aðeins við mér, „Lára vaknaðu.“
Ég sný mér á hina hliðina og dreg sængina yfir mig. Linda hrífur hana af mér og hendir henni niður á dýnuna sem hún svaf á. Allt í einu er mér rosalega kalt og ég fer þá á fætur og byrja að klæða mig.
-„Mig langar ekki í skólann,“ segi ég.
-„Ekki ég heldur,“ svarar Linda, „en við höfum eiginlega ekki efni á því að skrópa meira.“
Þegar ég er búin að klæða mig leggst ég aftur í rúmið og loka augunum. Ég finn svefninn hellast aftur yfir mig þangað til Linda klípur mig í tærnar. Hún heldur áfram þangað til ég stend aftur upp og við förum fram að borða.

Við segjum lítið á leiðinni í skólann. Við göngum hratt og þó að Linda þykist vera örugg með sig veit ég að hún er hrædd. Reynir fór af spítalanum fyrir meira en viku og við höfum síðan ekkert heyrt. Ég veit að við vonum báðar að hann hafi bara farið heim, út á land, aftur en við tölum ekki um það. Við reynum bara báðar að gleyma honum. Það er samt miklu erfiðara en mér hafði nokkurn tímann dottið í hug.

Ég kem heim úr skólanum á fimmtudegi. Það er orðið hlýrra og Linda er farin aftur heim til sín. Mamma tekur á móti mér í dyrunum.
„Hæ, elskan. Heyrðu, við pabbi þinn ætlum að fara til London um helgina.“ segir hún og brosir til mín.
-„Ha?“ mér líður eins og þau séu að svíkja mig en ég veit að það er ósanngjarnt. Ég sagði þeim aldrei frá Reyni eða það sem gerðist.
-„Já, pabbi þinn keypti miðanna fyrir löngu en sagði mér það fyrst núna. Við eigum brúðkaupsafmæli um helgina.“ Mamma tók greinilega ekki eftir því hvað mér brá mikið. En ég er búin að jafna mig.
-„Frábært,“ segi ég og brosi í fyrsta skiptið í langan tíma. Ekki samt alvöru brosi. Ég finn hvernig vöðvarnir í andlitinu mínu eru stirðir.
-„Já, en þú verður þá ein um helgina,“ hún sneri sér við og gekk inn í stofuna, „verður það ekki í lagi.“
Mig langar að segja já og láta sem ekkert sé en ég kem ekki orðinu upp úr mér. Mamma snýr aftur að mér þegar ég svara ekki.
„Lára?“
Ég opna munninn en ekkert hljóð myndast. Ég fer að anda hraðar og hraðar og allt í einu brestur eitthvað innra með mér. Ég fer að hágráta og fell á gólfið. Mamma kemur og grípur, svona næstum því, og sest svo hjá mér. Ég öskra og tárin streyma niður kinnarnar. Hún tekur um mig og faðmar mig þétt að sér.