Stundum þegar ég ligg á sveitta lakinu mínu í myrkrinu. Stundum, í mjög myrkvaðri kompunni, sem mamma kallaði einu sinni herbergið mitt, hugsa ég of mikið. Ég hugsa langt fram úr mér. Já þegar ég ligg þarna og get varla séð hvort ég sé klæddur eða ekki, þá hef ég stundum áhyggjur af því að blokkin mín gæti hrunið. Skiluru, bara allt í einu. Ég bý á fyrstu hæð í blokk. Af hverju gætu hæðirnar fyrir ofan ekki komið á blússandi siglingu niður með aðdráttarafli jarðar og skyndilega umbreyst úr því að vera stórt hús, í það að verða hrúga. Hrúga eins og þegar maður setur neftóbak á handarbakið og bíður eftir því að hverfa inn í sveittann horhellinn. Blokkin horfin.


Æ samt ekki…




1.

Ég er mjög kynhvatvís krakki. Eða kannski er krakki ekki besta orðið, ég þarf að finna fínna orð. En það svo sem breytir engu. Kynhvatvís er ég. Sérstaklega þegar ég fæ sopa af “Faxanum” hans pabba. Hann er oft að fá sér Faxa og þá býður hann mér. Fæ að fljóta með. Samfó. Svo verð ég svona kynhvatvís. Ég bara er ekki alveg það vinsælasta hjá stelpum. Ég fíla alveg stelpur, það er ekki málið. Ég verð bara svo kynhvatvís.
Stelpur eru eins og Tetris. Það er alveg sama hvað maður vandar sig að stinga kubbunum á rétta staði. Það endar alltaf í rusli. Game over - Level 1. Einn Tetrisleikur er ein stelpa. En ég hef þetta svo sem bara á tilfinningunni. Ég hef reyndar alveg góðar sögur af stelpum. Fyndnar sögur. Ég er bara ekki fyndin manneskja. Það segja þeir að minnsta kosti á meðan þeir berja mig á göngunum. Hvað sem öðru líður fíla ég alveg hitt kynið.
Pabbinn er atvinnulaus. Hann segir að það sé alveg nóg að vera gáfaður og ríkur. Ég áfellst hann ekki. Ég skil hann bara ekki, því hann er hvorugt. Stundum, þá fer ég til hans og reyni að fá út úr honum af hverju hann er ekki að vinna. Þá bara setur hann þessa grettu á sig og lítur út eins og það sem fornleifafræðingar dusta rykið af í sinni vinnu. Hún er alveg einstaklega ófríð og fær mig til að enda samræðurnar. Pabbinn er líka feitur. En honum finnst það ekki. Hann hefur farið þrisvar sinnum í blóðþrýstingslækkun hjá heimilislækninum en segir bara að það sé eðlilegt stig öldrunar og eigi engin tengsl við óheilbrigði. Skil hann bara ekki.
Mamman er svona öðruvísi. Ég held að hún viti varla af því að hún sé gift pabba. Hún húkir bara niðrí geymslu og reykir langar, alltof sterkar sígarettur með munnstykki. Ég held að hún ætti ekki að setja neitt út á pabba og hans blóðþrýsting. Hún gæti sjálf fengið eitthvað. Krabbamein. Eða bara eitthvað verra. Ég held meira að segja að bara með því að anda framan í mig myndi ég smitast af krabbameini. Þess á milli sem hún sýgur í sig tjöru, þá málar hún myndir og fer með löng, óhugnarleg ljóð á meðan. Ég get ekki byrjað að telja alla olíulyktandi strigana sem er raðað af handahófi þarna niðri. Ég get ekki einu sinni farið niður til að byrja með því þá þyrfti ég að hafa stóra sveðju meðferðis til að komast í gegnum þykka reykmökkinn. Mamman er líka atvinnulaus. Mig grunar samt, þótt hún eigi ekki pening, að hún sé gáfuð. Hvort þetta eigi að haldast í hendur eða ekki, veit ég engan veginn. Hún á allavega milljón bækur. Veit ekki hvort það gildir sem gáfumerki því ég á líka milljón bækur en þær eru bara ekkert gáfaðar.
Lúlli – Bakar pönnukökur. Tæplega gáfað.
Mamman og pabbinn hreinlega kaupa aldrei bækur handa mér. Ég hangi líka alltaf á bókasafninu. Það er rosa hallærislegt. En einhversstaðar verður maður að lesa.
Svo er best að sleppa því að velta fyrir sér hvernig við getum haldið þessu húsi. Sem gæti hvort eð er hrunið á hverri mínútu. Ég stend harður á því að mamma og pabbi eigi krónurnar í milljónatali einhversstaðar. Vilji bara ekkert segja mér. Vilja að ég standi á eigin fótum. Lifi af sjálfur.
Ef ég á að segja eins og er. Í fullri hreinskilni. Ég er annað en það sem flesta grunar. Ég er ekkert eins og mamman og ekkert eins og pabbinn. Auðvitað er strákur í 4.bekk ekkert búinn að uppgvötva innra sjálfið. En þó búinn að draga ýmislegt úr skugganum. Veit ekki alveg hvort ég vilji í alvöru vera á “Þroskadeild” í skólanum. Ég er í grunnskóla og strax farinn að hlakka til að fara í háskóla. Hvað er í gangi?
Kennararnir sáu strax á leikskóla hverskonar fyrirbæri ég væri. Já, að ég væri sérstakur. Þegar ég fór í 1.bekk gat ég farið hiklaust með alla margföldunartöfluna og nefnt 20 fyrstu aukastafi í pí. Ég held að stærðfræðikennarar sem kenna 1.bekk viti ekki einu sinni hvað pí er. Þá sendu þeir mig annað. Undirbjuggu mig strax fyrir eitthvað stærra og meira. Að ég yrði undrabarn.
Þvílík framför.
Fjögur ár liðin á þroskadeild og þeir vilja senda mig í viðskiptafræði. Mig. Ég pissa enn undir.



2.

Hvernig ætli það sé. Búin að fæða, læknirinn kemur með innpakkað handklæði. –Þú hefur eignast ofvita. Er það það sama og að fæða barn?
Kannski er ég ekki það sem ég held að ég sé. Fólk kallar mig Mozart, Einstein, ofurheila eða bara það sem þeim dettur í hug, sem gæti hugsanlega átt við lítinn ofvita. En það sem ég held. Ég held að ég sé geimvera. Kannski ekki stöðluð ímynd geimveru, en nálægt.
Ég er með líka með ljótan nafla. Hann er skakkur. Reyndar, ef ég halla hausnum til vinstri er hann eins og önd. En þá alltaf frekar stökkbreytt önd. Geimverur eru nefninlega svoleiðis. Ég held líka að ef það er til guð eða guðína þá held ég að hann/hún hafi ekki verið með hnitin á hreinu þegar ég var búinn til. Ég veit alveg að “Enginn er fullkominn”, en ég er ekki Enginn. Ég er Einhver. Einhver merkilegur.
Mamman skírði mig aldrei. Þegar loksins kom í ljós kom að ég var nafnlaus sendi hagstofan bréf. Ég las það á undan mömmu. Þá loksins sló hún til og gaf mér nafn. Ég vildi heita Rambó. Mér finnst ég ennþá heita Rambó. Ekki Albert. Albert Eysteinsson. Ég gerði mitt besta til að tala hana til. Segja henni að þetta væri út í hött. Í alvörunni talað, það ætti að selja veiðileyfi á fólk sem væri svona blint á það augljósa. Ég meina, það sjá allir hvaða nafn þetta er. Kannski á ég þetta skilið. Viðeigandi.
Ég vildi heita Rambó.



3.

Hvers á ég að gjalda.
Jæja nú er ég búinn að liggja í rúminu í þó nokkuð langann tíma. Húsið hefur enn ekki hrunið. Ég velti því líka oft fyrir mér hvernig ég ætti að fara að þessu. Vera 9 ára í háskóla. Þetta er svo afstætt að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Þeir sendu mig ekki í viðskiptafræði. Ég fékk örlítið val. Mig langaði alltaf að læra um Guð/Guðínu og allt sem tengist biblíunni og því öllu. Dr. Jón Ma Ásgeirsson þrusaði allri sinni kunnáttu yfir hálffullan sal af verðandi guðfræðingum. Í þessum sal háskólans, þar sem óáhugaverðar Hollywood-endurgerðar hryllingsmyndir eru einnig sýndar, varð ég fyrir einhversskonar uppljómun. Eða vitrun. Skiptir svo sem ekki öllu máli, því að kannski er bara ekkert orð til sem getur komið nokkrum manni í skilning um það sem gerðist.
Ég sá Guð/Guðínu. Ég veit um fullt af snarrugluðu fólki sem býr í grennd við Kuala Lumpur sem að hefur margoft séð og spjallað við Guð/Guðínu. Flestir af þeim einstaklingum hafa sótt einhverskonar sálfræðigreiningu. Og fallið.
Ég er bara ekki að grínast með þetta. Ég sá með berum augum. Hann/Hún stóð í púltinu, þar sem Jón er venjulega, og var í Game boy. Á meðan var Jón fjarri púltinu að sannfæra nemendur sína með sinni einstaklega frumlegu nálgun á Apókrýfskum ritum Nýja testamentisins. Ég var ekki að hlusta. Ég starði bara í púltið. Guð/Guðína var með einbeitingssvip og spilaði af innlifun. Ég opnaði eyrun betur og sogaði hljóðbylgjurnar af meiri vandvirkni, eins og öflug ryksuga. Hann/Hún var í Tetris.
Ég fékk á tilfinninguna að þetta Guð væri algjörlega óumdeilt pervert. Samkvæmt minni samlíkingu á Tetris og stelpumálum. Þá fékk ég þessa vitrun/uppljómun/nirvana. Ég stóð strax upp. Í leiðslu gekk ég rakleiðis út úr salnum og hljóp út á götu.
Ég var hinn eingetni sonur. Guð/Guðína er pabbi minn.
Í öll þau ár sem ég hef staðið í þeirri trú að ég væri sonur mömmunar og pabbans þá hafði verið logið að mér. Helvítis lygi. Loksins skyldi ég hvað ég væri að gera hérna og þar sem ég stóð úti á götu, einn ásamt pabba, þá bað ég. Ég bað til pabba um gott líf fyrir fólkið sem að bjó í húsinu mínu.
Húsið mitt…já!
Í þessum hugsuðu orðum tóku fætur mínir á rás. Ég hljóp hraðar en mig hafði nokkurn tíma grunað að ég væri fær um. En þegar ég kom að blokkinni. Ólýsanlegt.
Blokkin orðin neftóbak. Horfin.

Ég stóð þarna með Pabba. Hann var reyndar of niðursokkin í Tetris en var samt með mér. Allar tilfinninginar, ef ég kann yfir höfuð á mínar eigin, voru gersamlega horfnar. Kaputt. Algleymi. En ég var ánægður. Ég hafði fundið pabba.
Guð blessi trúleysið