Varstu að skjóta gæs?
Það líður dálítill tími áður en Jökull svarar.

Já.
Ég var að skjóta gæs.
Skrapp á Vík smá í síðustu viku að skjóta.

Ok.
Sá það á MSN síðast.
Hvernig gekk? Skaustu í sunnudagsmatinn?

Haha
Gekk því miður ekki of vel.
Engar gæsir, en fáeinar endur enduðu í pott:)

Ok.
Hefurðu gert þetta lengi?
Áttu byssuna sjálfur sem þú ert að skjóta með?

Já.
Ég á hana sjálfur.

Ok.
Má ég prófa?

Jökull og ég höfðum þekkst prýðilega í fyrsta bekk í menntó, en síðan ekki sést. Fyrir utan fáein samtöl á MSN þá var ekki beinlínis mikil samskipti milli okkar tveggja lengur. En hann er eini maðurinn sem mér datt í hug semgæti átt byssu. Og mér langaði til að prófa. Svo ég spurði. Svo við mæltum okkur mót í gamla Björgunarsveitarhúsinu miðvikudaginn á eftir og keyrðum svo saman upp í Kaldársel. Jökull framm í. Byssan aftur í.

Þetta var eitthvað alveg nýtt.Þessi þörf fyrir að prófa að skjóta. Lungan af ævi minni, frá fæðingu og þar til um miðja nótt í síðustu viku var ég frekar skoðanalaus í byssumálum. Var hvorki með þeim eða á móti þeim, ef eitthvað er þá átti ég það sammerkta með flestum íslendingum sem eiga engra hagsmuna að gæta í þessum málum að hallast frekar að því að finnast þær tilgangslausar og asnalegar sem slíkar. Svona eins og hugmyndin um guð.
Svo allt í einu sá ég ljósið.

Við Jökull ræddum þetta aðeins. Byssur er ein mesta snilld sem maðurinn hefur fundið upp. “Ultimate survival tool”. Ég minntist á það að frá mínum bæjardyrum séð þá er maður ekki maður ef maður getur ekki reddað sér. Ef maður lendir í þeirri aðstöðu að vera svelta og þurfa mat eða þurfa vernda sig gegn óargadýri þá þarf maður að kunna á byssu. (Það sem ég sagði ekki, en ég held að allir byssumenn hljóti að leiða hugann að er það gæti jafnvel komið upp sú staða að maður þurfi að vernda sig gegn mannlegum ófétum, ekki síst þá er gott að kunna á byssu).

Þegar ég tók fyrst í gikkinn og kúlan þaut út í eilífðina þá svimaði mig. Mér leið eins og efri hluti búkarins væri miklu þyngri en sá neðri, og að allt hringsnérist í kringum mig. Það hætti fljótlega. Eftir tíu tilraunir skaut ég máf sem sat á steini.

Ég er ekki gaurinn sem fer út í móa með bjór og skýtur máfa. Ég skrifa ritgerðir í háskólanum um efnahagsmál, les heimspeki og fer á tónleika. Klassíska.

Jökull bauð mér bjór. Ískaldan í dós. Mér finnst hann yfirleitt betri í flösku.Það var ekki fyrr en á öðrum bjór sem ég fattaði að við vorum á bíl. Mér var alveg sama. Við vorum með byssu! Hver ætlaði að segja þeim að gera hlutina svona eða hinseginn? Einhvern veginn meikaði það sens á því augnabliki.

Á leiðinni heim sat ég í farþegasætinu og handlék byssuna. Miðaði út um gluggann án þess að skjóta. Skyndilega var ég reiður. Nei, nei, nei. Þetta meikar nefnilega ekki sens. Maður á ekki að drekka og keyra svo. Einhver byssa skiptir engu helvítis máli. Ég var ekki reiður út í sjálfan mig, ég var reiður út í Jökul. Hvað var gaurinn að spá? Ógeðslegi ógeðslegi maður. Algjör hyski sem ég var með í skóla á sínum tíma. Hvað er ég að hanga í kringum gaur eins og hann? Langt fyrir neðan mína virðingu.

Ég bankaði í byssuhlaupið með vísifingrinum, Jökull hló.

Alki.
Þú stendur fyrir allt sem er vitlaust í þessu samfélagi.Þetta… ehh…galgopalega virðingarleysi fyrir … gildum og mikilvægi þess að fara eftir reglunum þegar maður lifir í samfélagi… í samskiptum við annað fólk er til rétt og röng breytni og þú veist, maður getur ekki hagað sér bara hvernig sem er. Hugsaði ég.

Við Lækjargötur í Hafnarfirði keyrðum við fram hjá löggubíl og ég stari á lögguna. Vonaði heitt og innilega að sjá ljósin blikka í baksýnisspeglinum og lögregluna taka u-beygju. En auðvitað gerði hún það ekki. Hún gerir það aldrei. Enn einu sinni sannar það sig að þessir “samfélagsþjónar” eru verra en gagnslausir. Ég dæsti. Jökull leit á mig.

Enn einu sinni verð ég að taka málin í mínar eigin hendur.

Við erum komnir, segir Jökull og stoppar fyrir utan húsið mitt. Hann er að horfa út á sjóndeildarhringinn.
Má bjóða þér inn í kaffi eða eitthvað? spyr ég hann.
Hann lítur á mig og beint upp í hlaupið á byssunni.

Með byssuna í bakinu neyddi ég hann inn og ofan í kjallara.

Allir hinir fangarnir horfðu á mig þegar ég hlekkjaði þann nýja við vegginn.

Hættið að glápa! öskraði ég.
Ég horfi í augun á Snorra, fanga númer þrjú: Ef þú lætur þig einhvern tímann aftur detta það í hug að það að flýja sé sniðugra en að sitja þinn tíma inni þá myndi ég virkilega hugsa mig um.
Næst læt ég ekki skóflu duga.
Núna á ég byssu!

Ég fór upp og læsti dyrunum.
Það var nóg að læra fyrir skólann daginn eftir.