Vinkonur, 2. kafli Það er kominn miðvikudagur. Linda hefur ekki talað við mig í tvo daga og ég er strax að missa vitið yfir því. Ég hef þekkt hana síðan í þriðja bekk og við höfum verið bestu vinkonur síðan. Ég ætla ekki að láta einhvern strák eyðileggja það.
Síðan á mánudaginn hefur rignt og svo er komið frost aftur þannig að gangstéttin er eitt stórt svell. Ég finn ennþá til í mjöðminni þegar ég labba en það er ekkert alvarlegt, bara smá bólga.
Ég hef ekkert séð Lindu í skólanum en það er ekkert skrýtið ef hún er að reyna að forðast mig, af því að hún veit í hvaða stofum ég fer í tíma. Eftir skólann ákveð ég að fara að heimsækja hana. Og ég ætla að láta hana hlusta á mig. Láta hana fyrirgefa mér.

Ég geng hægt til að renna ekki og svo finn ég líka til með hverju skrefinu í mjöðminni. Ég er 20 mínútur að labba til Lindu en síðan bíð ég fyrir utan í 5 mínútur í viðbót. Ég er nefnilega kvíðin; gamli, rauði bíllinn hans Reynis er lagður fyrir utan húsið. Ef það er einhvern sem mig langar ekki að hitta er það Reynir en ég er komin þannig að ég safna kjarki og banka. Ég bíð en enginn kemur til dyra þannig að ég banka aftur, fastar.

Það er Reynir sem opnar.
-„Hæ,” segir hann og glottir.
-„Hæ, er Linda hérna?”
-„Já, hún er uppi í herbergi hjá sér.” Hann færir sig og ég geng framhjá honum án þess að líta aftur á hann. Ég haltra upp tröppurnar en geng svo eðlilega inn ganginn að herberginu hennar Lindu. Dyrnar eru opnar en þegar ég kem inn er herbergið tómt. Ég sný mér við en Reynir stendur fyrir mér og brosir. Ég öskra en hann ýtir mér inn í herbergið, svo fast að ég missi andann og öskrið fjarar út.

Hann hendir mér í rúmið og heldur með annarri hendinni fyrir munninn á mér en hina notar hann til að halda mér niðri. Innra með mér grípur skelfing um sig og ég reyni að losa mig, ég reyni að sparka í hann en ég get það ekki. Reynir kýlir mig í mjöðmina þar sem ég er bólgin og sársaukinn lamar mig.
Ég reyni að bíta í höndina á honum þegar hann byrjar að rífa mig úr jakkanum. Hann færir hana þá og ég öskra. Hann kýlir mig nokkrum sinnum í andlitið en ég hætti ekki að öskra fyrr en hann vefur ermina af jakkanum mínum, sem hann hefur rifið af, um hálsinn á mér. Ég klóra hann í framan eins fast og ég get en hann sleppir ekki takinu og ég finn hvernig krafturinn hverfur úr mér í hvert sinn sem ég reyni að draga andann. Hann er orðinn blóðugur í andlitinu þegar ég gefst upp og hendurnar mínar falla líflausar til hliðanna. Hann losar þá aðeins um takið á hálsinum á mér og ég öskra aftur. Í þetta skipti virðist honum sama en hann byrjar að losa tölurnar á gallabuxunum mínum. Hann stendur upp og togar í ermina þannig að öskrin í mér þagna aftur. Síðan tekur hann í buxurnar og byrjar að toga þær niður. Ég reyni að toga á móti þangað til það heyrist skellur og hann sleppir takinu. Það heyrist annar skellur og hann dettur niður á gólfið.

Linda stendur fyrir aftan hann með hamar í hendinni. Hún missir hann á gólfið og hann lendir með skelli. Síðan hjálpar hún mér upp. Hún sest við hliðina á mér og tekur um mig. Ég legg höfuðið á öxlina á henni og græt. Á gólfinu liggur Reynir hreyfingarlaus, með stórt gat aftan á hausnum og við hliðina á honum er blóðugur hamar.