Kötturinn Hann opnar og lokar augunum til skiptis. Mér finnst eins og hann horfi beint á mig en sjái mig ekki því hann sér í gegnum mig. Hann sér lengra. Ég tala við hann og eyrun kippast til. Hann horfir beint í augun á mér. Hún er sterk sé ég. Sterkari en mín. Augun eru gluggar að sálinni. Ég hef séð sál kattarins…

Ég renn niður úr rúminu á gólfið, með sængina með mér. Þar ligg ég í nokkrar mínútur með augun lokuð en ég get ekki sofnað. Á endanum rúlla ég mér á magann og ýtir mér upp. Þyngdaraflið er óvenju sterkt þennan morgunninn. Eða er komið hádegi?
Svört málning þekur glugganna en smá sólargeisli kemst inn. Hann lendir á veggnum undir naglanum sem þýðir að klukkan sé 11. Kannski aðeins yfir. Ég gríp í vaskinn og dreg mig á fætur. Síðan geng ég að glugganum, gríð um rimlana og horfi út um rifuna þar sem sólin skín inn. Jörðin er hvít.
Í hinum enda herbergisins, við hurðina, á borðinu liggur morgunmaturinn. Brauð með osti og mjólkurglas. Osturinn er orðinn harður og grænleitur en ég háma matinn í mig og þamba mjólkina. Með beittri brún disksins geri ég merki í borðið, strik. Eitt strik fyrir hvern dag. Strikin eru orðin fleiri en ég get talið, þau eru farin að renna saman. Samt geri ég alltaf nýtt. Það tekur tvær sekúndur. Síðan hef ég bara hinar 86398 sekúndurnar í sólarhringnum til að eyða. Ég verð að komast héðan.

Hurðin opnast með ískri. Maðurinn er kominn af því að klósettið er stíflað og lyktin er farin að berast út á gang. Núna er tækifærið hugsa ég. En það þýðir ekki. Maðurinn er aldrei einn þannig að þó mér tækist að yfirbuga hann yrði ég stöðvaður. Og svo veit ég ekki hvað yrði um mig. Ég ligg í rúminu með sængina dregna yfir hausinn en geri gat svo ég sjái. Maðurinn segir ekkert heldur fer beint að klósettinu. Annar stendur við hurðina, ég sé lappirnar. Svo sé ég eitthvað sem ég hef ekki séð í langan tíma, svart, loðið skott. Ég færi mig til að sjá betur en þá sé ég hann, köttinn. Kolsvartur og lítill, næstum eins og kettlingur. Hann fer milli lappanna á manninum sem stendur við dyrnar og nuddar sér upp við hann malandi. „Hvaða köttur er þetta?” spyr hann með tilfinningalausum tón. Maðurinn sem er að gera við klósettið segist ekki vita það en skipar varðmanninum að koma honum burt. Og eins og kötturinn skilji hvað sagt er hleypur hann af stað niður ganginn og maðurinn eltir. Viðgerðarmaðurinn heldur áfram með vinnuna og hugsunin læðist aftur að mér, skýrari en nokkru sinni fyrr, núna er tækifærið! Ég stekk upp úr rúminu og læt sængina falla yfir viðgerðarmanninn. Þegar ég lendi finn ég hversu aumir fæturnir eru orðnir en ég læt það ekki stoppa mig. Ég hendist fram á ganginn og skelli hurðinni á eftir mér. Hún er læst.

Ég þýt niður ganginn með manninn á eftir mér. Hann lét köttinn fara þegar hann heyrði mig skella hurðinni á eftir mér. Gangurinn virðist endalaus, hurðir báðum megin, endalausar beygjur og sömu gráu steinveggirnir alla leið. Hann nær mér, ég veit það. Ég hef ekkert úthald og enga orku og ég veit ekki hvert ég á að fara. Það eru óteljandi mörg strik síðan ég var hérna síðast. Ég sé hurð sem eru öðruvísi en hinar, stærri, og hrindi henni upp. Það er dimmt þar inni en ég get ekki annað en hlaupið, þar til ég kem að tröppum. Ég sé þær ekki og fell niður, með aðra löppina fram, í miðju stökku. Ég lendi á næst-neðsta þrepinu þannig að fóturinn beyglast til hliðar og ég skell á gólfið. Um leið opnast dyrnar fyrir aftan mig með skelli og ljós kviknar. Mér sýnist ekki fóturinn vera brotinn en ég heyri þung fótspor þegar maðurinn nálgast mig, hratt. Ég gríp um handriðið í skelfingu, toga mig upp og lít fyrir aftan mig. Efst í tröppunum liggur kötturinn. Maðurinn sér hann ekki en hoppar niður tröppurnar, tvær í einu. Í augnablik gefst ég upp, hendurnar gefa eftir og ég dett á gólfið en svo finn ég styrk á ný. Kötturinn skýst nefnilega fram fyrir manninn, sem dettur svo. Fallið er verra en mitt, hausinn fer á undan. Með háværu braki lendir hann á steingólfinu og liggur hreyfingarlaus.

Ég brýst út um tvöföldu dyrnar með menn á eftir mér. Kötturinn hleypur við hliðina á mér, lipur og nettur, svo lítill að mér verkjar í brjóstinu af því að sjá hann svona horaðan. Jörðin er hvít og köld og ég er ekki í skóm. Ég man ekki hvenær ég var síðast í skóm. Hjartað dælir blóðinu með ógnarhraða. Í hvert sinn sem þeir nálgast mig horfi ég í augu kattarins og sé sálina, sterkari en nokkru sinni fyrr. Það gefur mér styrk og ég held áfram…

Ég ligg í snjónum, með köttinn þétt upp við brjóstið á mér. Ný snjókorn leggjast yfir okkur en mér er ekki kalt. Kötturinn opnar og lokar augun til skiptist. Hann malar og grípur í mig með klónum. Ég tala við hann og eyrun kippast til. Hann horfir í augun á mér…