Það var framið morð í síðustu viku. Fórnamlömbin voru tæplega þrítug. Lög-
reglan tjáir sig ekki um málið, en þetta var úti á landi á óskilgreindu
sumarbústaðasvæði. Konunni var nauðgað.

Þau eru skrítin þessi sumarbústaðasvæði. Þau eru eins og þorp. Þó þekkir
engin neinn annan og enginn stoppar lengi. Enginn BÝR þarna. Nema ef vera
skyldi kötturinn sem sniglast þarna um, gistir í auðu húsunum og étur úr
ruslatunnunum.

Morðinginn skyldi ekki eftir sig nein ummerki sem komu að gagni. Morðvopnið er
ófundið. Glæpasálfræðingurinn var með í för. Yfirvarðstjórinn trúir reyndar
ekki á svoleiðis kjaftæði, en það má nú viðurkenna að hún hefur haft rétt
fyrir sér undarlega oft… og hún er á þeirri skoðun að fórnarlömbin hafi
verið valin af handahófi. Engar vísbendingar. Engir líklegir ættingjar,
kunningjar eða vinir. Bara einhver einmana vitleysingur sem hefur gaman að
þessu og er nokkuð fær þar að auki. Engin vitni voru að glæpnum. Eða að minnsta
kosti virtist enginn í nágrannabústöðunum hafa heyrt neitt og enginn þekkti
fólkið. Fólk á sumarústaðastöðum úti á landi er heldur ekkert að spá í
nágrönnum sínum.

Eða svo virtist í fyrstu sýn. Eini íbúi staðarins sá allt og heyrði. Það datt
bara engum í hug að spyrja hann.

Gamli svarti kötturinn hafði átt eigendur einhvern tímann. Þess vegna var hann
með ól. Nafnið hafði fyrir löngu máðst af, en hann hafði heitið Högni. Ekki
sérlega frumlegt nafn á ketti, en hann hafði fengið ótal nöfn í gegnum
tíðina frá fólki sem kom og gisti bústaðina á sumrin. Nöfnin voru allt frá
að vera einfaldlega “Kisa”, svo nefndur af sex ára stelpu sem tók ástfóstri
við hann í viku, “Snati” frá nokkrum kaldhæðnum unglingum í helgarfyllirísferð,
“Kúnígúnd” frá gömlu hjónunum sem gerðu ekkert nema spila skrafl allan
liðlangan daginn, til “Hreggviður Hjörleifs” frá sérvitringnum með ritvélina
sem drakk viskíblandað kaffi og spilaði undarlega músík.

Kötturinn elti yfirleitt ókunnugt fólk sem kom til að gista staðina. Hann
trítlaði varfærnislega á eftir þeim og hljóp fram úr þeim til skiptis. Svo
velti hann sér á bakið svo fólkið sæi. Svo kom hann smám saman nær þeim. Hann
var að taka áhættu: Fólkið gæti ákveðið að vera vont við hann. Þá skaust hann
snöggt í burtu, hingað til ómeiddur. En í hinum tilfellunum fengi hann klapp
á kollinn, hugsanlega smá klór bak við eyrun og í einstaka tilfellum fengi
hann matarbita.

Eitt atriði kom ekki vel heim og saman: Það vantaði fingur á annað fórnarlambið.
Svoleiðis hlutir eru yfirleitt merki um að morðinginn vilji skilja eftir einhver
skilaboð. Svo virtist þó einhvernveginn ekki vera. Það voru töluvert mörg atriði
varðandi umgang og annað sem bentu til hins gagnstæða. Morðið var, fyrir það
fyrsta, ekki nógu snyrtilegt. Fjöldamorðingjar sem að vilja skilja eftir sig
skilaboð eru yfirleitt mjög skipulagðir og mjög klárir. Eftir allt þarf þó-
nokkrar gáfur til að snúa á lögregluna. Þessum virtist vera alveg sama um
almennt útlit líkanna.

Sálfræðingunn áttaði sig ekki á þessu. Það virtist ekki vera nein ástæða fyrir
því að puttinn hafði verið skorinn af. Hún hugsaði um þetta töluvert lengi og
vakti jafnvel nokkrar nætur yfir því. Fyrir rannsóknarsálfræðing af hennar tæi
er afskorinn fingur ótrúlega spennandi fyrirbæri. Hann er von um óleysta gátu.
Ef satt skal segja hafði hún almennt ekkert sérlega mikið að verkefnum sem
buðu upp á óleystar gátur. Þegar í skóla hafði hún haft uppi stórar hugmyndir
um hinn dularfulla huga glæpamanna, sérstaklega morðingja. Þrátt fyrir að hafa
útskrifast með prýði olli skortur á verkefnum tengdum þekkingu hennar því að
hún ákvað að taka að sér hjónabandshjálp sem aukastarf. Hún hataði það. Í þetta
skiptið virtist það þó sem eitthvað áhugavert væri í gangi… hvað fær fólk til
að skera af putta? Var hann að safna þeim? Kæmu fleiri morð? Ætlaði hann að
safna setti? Búa til eitthvað úr þeim? Hún komst aldrei að raunverulegu
ástæðunni, sem er kannski ágætt.

Sannleikurinn er sá að það hefði ekki verið nokkur séns að hún hefði áttað
sig á því. Rétt eftir verknaðinn, þegar morðinginn gekk út úr húsinu í þeim
tilgangi að fela morðvopnið kom gamli svarti kötturinn trítlandi til hans.
Hann lagði því skófluna frá sér, beygði sig niður og klappaði kettinum á
kollinn. Það er kannski hálfgerð klisja að menn sem eru vondir við fólk séu oft
góðir við dýr, en svona er það þó samt. Þeir eru oftar en ekki einhverjir sem
að samfélagið hefur hafnað á einhvern hátt - eða þeir ímynda sér að hafi
hafnað þeim. Þeir ímynda sér kannski að dýr séu vinir þeirra einfaldlega vegna
þess að þau eru ekki hluti af mannlegu samfélagi sem þeir ímynda sér sem
“óvininn”. Það er þá kannski kaldhæðnislegt að vita til þess að dýr bera engan
skilning á þess háttar hlutum. Köttum líkar vel við fólk sem gefur þeim mat og
klappar þeim og dýpra nær það ekki.

Morðinginn var í svo góðu skapi að hann ákvað að gera eitthvað fyrir köttinn.
Svo hann fór inn aftur, hjó einn vísifingur af og gaf kettinum, sem nagaði á
honum í tæpa tvo tíma, með bestu lyst.

Kettir hafa ekki áhuga á að kvelja og meiða. Þeir hafa áhuga á því að elta
litla hluti sem hreyfast. Þegar kettir leika sér að músum (eða litlum fuglum)
er það ekki vegna þess að þeir hafi gaman að því að pynta bráðina. Ástæðan er
fullkomlega tæknilegs eðlis. Kettir þekkja ekkert til þess hvernig mýs eða
litlir fuglar fúnkera. Þeir hafa ekkert sérleg djúpan skilning á því hvort
að fyrirbærið er “dautt” eða ekki. En þeir hafa töluvert gaman að því að elta
mýs og annað og reyna að ná þeim. Þeir þekkja líka lyktina af hugsanlegum
hádegismat. Þegar þeir leika sér að bráðinni eru þeir einfaldlega ekki búnir
að átta sig á því að hún er ekki dauð. Þeir halda það fyrst, en þegar hún fer
að hreyfa sig þarf að stökkva á hana aftur, eða slá til hennar.

Ef að kettir væru raunverulega að “pynta” bráðina þegar þeir “leika” sér
að henni er tiltölulega ólíklegt að þeir gerðu það sama við garnhnykla. En
það gera þeir nú samt.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki fræðilegur möguleiki á að kötturinn
hefði skilið það sem átti sér stað inni í sumarbústaðnum þessa örlagaríku
nótt. Kettir skilja ekki þá grimmd sem felst í morði. Hann skynjaði þó að áflog
voru í gangi og hafði vit á því að vera ekkert að láta á sér kræla. Þetta var á
milli manneskjanna innan fyrir og kom honum ekki við. Það voru hins vegar
nokkrar líkur á að þetta væri einhver konar barátta um yfirráðasvæði - þrátt
fyrir allt hafa kettir nokkrar hugmyndir um það sem gerist í kringum þá og þeir
reyna jafnframt að yfirfæra það yfir í sinn skilning á veröldinni - og hann
ákvað þess vegna að halda sig nálægt. Sigurvegarinn í þessari viðureign yrði
væntanlega sigri hrósandi og ákvæði jafnvel að gefa honum eitthvað. Sem reyndist
að sjálfögðu rétt.

Yfirvarðstjórinn í málinu hafði dálæti á neftóbaki. Þetta var einn af þessum
mönnum sem haf séð of mikið af viðbjóð þessara veraldarar og hafa tileinkað
sér kaldhæðnilegt og nokkuð hrottalegt yfirbragð vegna þess.
“Og eru þið a segja mér að það séu engin vitni heldur?”
“Í alvöru.. við hverju býstu, næsti bær er hálfskílómeters fjarlægð og fólk
heldur sig heima.”

Andvarp.

“Það er víst rétt hjá þér. Í alvöru talað, ég veit ekki hvað við eigum að
gera… nei sjáðu köttinn? Hann er forvitinn - ætli hann vilji neftóbak?”
“Æi, nei ekki gera þetta, þú veist ekkert hvernig þetta fer með ketti.”
“Kommon, hversu slæmt getur það verið? Þetta ætti alla vega að vera fyndið!”

Svo hann lagði nokkur korn í lófann… lagði svo aðeins meira, beygði sig
niður og rétti í átt til kattarins, sem rölti varfærnislega í áttina til
útréttu handarinnar. Og eins og kettir gera, þá þefaði hann af tóbkinu í
lófanum til þess að gá hvort eitthvað þar væri ætt. Við það fór meiri hlutinn
af tóbakinu upp í nefið á honum. Eins og þið gætuð hafa giskað á er tóbak
ekki gott fyrir ketti - það er þannig séð í raun ekki gott fyrir neinn, en það
gildið enn fremur um kettir. Hann byrjaði að hnerra. Honum sveið í augun. Hann
horfði undrandi í kringum sig en sá ekki neitt, svo hann hljóp í burtu eins
hratt og hann gat og vonaði bara að hann rækist ekki á neitt á leiðinni.

Yfirvarðstjóranum fannst þetta að sjálfsögðu ferlega fyndið. Það hefði honum
þó ekki fundist ef hann vissi hvers konar mistök hann var að gera, því við
þetta hræddi hann eina hugsanlega vitnið í burtu. Hefði hann gefið sér smá tíma
í að skoða köttinn hefði hann nefnilega tekið eftir því að það var stórt,
skýrt, blóðugt fingrafar hálsólinni.

Morðinginn hafði, kannski af gömlum vana frekar en annað gripið utan um ólina
á kettinum til að gá hvað hann hét. Þetta fingrafar var í skrá lögreglunnar
því morðinginn hafði verið tekinn áður og jafnvel setið inni fyrir nokkur
smáafbrot.

Hann NÁÐIST að sjálfsögðu á endanum. Hitt er verra að það þurfti annað
fórnarlamb til. En svona er þetta.

Boðskapur… Ekki vera vondur við dýr? Kannski. Ég er bara hræddur um a það
dugi skammt í veröld sem er jafntilviljanakennd og okkar.

—–

Endilega lesið hina söguna mína. Það er smá “Conceptual continuity” í gangi.
Sá fyrsti sem finnur tenginguna fær thumbs up frá mér!