1. kafli:
Bara draumur
(c'est moi)

Það var dimmt þarna. Sprungin pera. En það var allt í lagi. Hún var ekki myrkfælin. Röddin var þarna einhversstaðar, en hún truflaði hana ekki. Svo lengi sem röddin héldi sig í burtu.
Stúlkan í röndóttu peysunni andvarpaði og ýtti gleraugunum lengra upp á nefið. Þetta yrði ekkert mál. að hafa þurft að ýta pappakössunum til hliðar til að komast að hurðinni. Það gæti hún gert hvenær sem væri. Og hún ætlaði ekki að gefast upp. Hún hafði lofað.
Stúlkan dró andann djúpt og fjarlægði blaðið sem huldi brotið glerið. Blaðið var bara tímabundin lausn. Hún tyllti sér á tá og kíkti inn. Ekkert nema myrkur.
Lagið Meds hljómaði í huga hennar. Það var langt síðan hún hafði heyrt það.
„Baby, did you forget to take your meds?” Hún tók alltaf lyfin sín. En kannski var það af því hún sleppti því sem hún var þarna. Hún hafði séð þennan stað áður. Hún hafði teiknað hann. Kannski voru þetta aukaverkanir. Henni hafði ekkert verið sagt neitt um aukaverkanir þegar þau létu hana fá lyfin sín á morgnana og kvöldin. Og þegar hún fór að hugsa um það, hún hafði ekkert fengið að vita um sjúkdómsgreiningarnar heldur. Og þau höfðu ekki minnt hana á að passa sig varðandi BPD, henni hafði ekkert verið sagt um BPD. Hún þekkti það bara af spurn. Við tilhugsunina um BPD kipptist hún til. Hún fálmaði ósjálfrátt eftir vinstri hendinni. Var ekki allt á sínum stað? Hún vonaði að það væri enginn þarna til að spyrja hana óþægilegra spurninga. Röddin var komin aftur. „Þau taka eftir. Jú jú , en þau gera ekkert,” Nei! Það var ekki satt. Þá gerðu eitthvað. Þau höfðu tekið allt í burtu. Þau leyfðu henni ekki að vera einni.
Það væri kannski góð hugmynd að taka með sér vasaljós, ef hún færi inn í myrkrið. Hún þyrfti þá að gramsa í kössunum. En hún komst að þeirri niðurstöðu að vasaljós væri óþarft, ef hún gæti fundið sér vasaljós í öllu draslinu var allt eins líklegt að það vantaði rafhlöður í það.
Hún fjarlægði keðjurnar fyrir hurðinni og steig inn. Keðjurnar voru til þess að hvað sem var fyrir innan kæmist ekki út, það hafði þá þegar brotið glerið og hver vissi hvað það gæti gert. „Halló?” hljómaði örlítið rám röddin. Þetta yrði ekkert mál, bara vera róleg og anda inn og út. Þetta yrði ekkert mál. Ekki miðað við eineltið sem hún hafði lent í fyrir utan. Minningarnar um hávær hlátrasköll krakka sem hún þekkti ekkert komu yfir hana eins og flóðbylgja. Hafsjór slæmra minninga. Og með þeim fylgdi nístandi sársaukatilfinning og þrýstingur á gagnaugun, en það var ekkert nýtt. Kom fyrir öðru hverju. Þetta var næstum hætt að vera sárt. Næstum, og bráðum yrði þetta betra.
Hún mundi eftir fundinum, þessum með sálfræðingnum og geðlækninum. Það hafði verið eins og hálfgerð grúbba, það voru svo margir. Hún mundi hvað hún hafði titrað, hún hafði setið um það bil úti í horni, mamma og pabbi höfðu verið þarna líka, en samt. Þau höfðu talað um samræmdu prófin, vorprófin, skólann og martraðirnar. Mataræðið, svefninn og vinnu eftir skóla. Hún vissi vel að þeim þótti hún alls ekki borða nógu vel. Hún hafði komist að því að mamma og pabbi höfðu miklar áhyggjur af henni. Hvað ætli þau segðu ef þau vissu hvar hún var niðurkomin, hvar hún var núna. Ef þau vissu af þessum stað. Ef þau vissu að hún væri hér, alein í myrkrinu. Nei, ekki ein. Hún hafði röddina. Og ef það var eitthvað hérna fyrir innan hurðina, hún var ekki ein. Hvernig sem á það var litið.
Hún gekk nokkur skref áfram. Það var varla hægt að sjá fram fyrir sig með góðu móti, en eins og pabbi hefði sagt; hættu að væla og láttu reyna á augun, svo í blindni sinni hélt stúlkan áfram. Þar til hún labbaði beint á eitthvað sem virtist vera hillusamstæða úr IKEA. „Alveg frábært!” sagði stúlkan. Meira geymslupláss. Hún settist niður og nuddaði aumt hnéð, það sakaði ekki að bíða þar til hún hafði vanist myrkrinu. Og þess þurfti hún ekki að bíða lengi, hún vandist fljótt. Svo hún lagði af stað.