Ég gekk inní skólann. Ég var of seinn. Aðeins dempuð hljóðin úr kennslustundum síuðust fram á drungalegan ganginn. Ég leit á klukkuna. 8:35… kortér eftir af tímanum. Tók því ekki að fara inn, svo ég fór niður og settist á bekkinn, hlammaði töskunni á borðið og starði framundan mér. Ég starði á bekkin fyrir framan mig. Smám saman rann þetta allt saman. Hljóðin og hugsanir mínar mynduðu súrrealíska sinfóníu sem ómaði í höfði mér, öskrandi á mig, þar til að allt í einu slokknaði tónlistin í höfðinu á mér. Ég greip töskuna, stóð upp og gekk í átt að fatahengjunum. Klæddi mig í og fór út. Þegar ég kom að húsinu mínu, henti ég töskunni inn í garðinn og leit á klukkuna. Hún var nákvæmlega 9:00.

Ég gekk í átt að Eiðistorginu hálf ræfilslega, enda frekar kalt í veðri og ég hafði verið með flensu þrjá daga á undan. Kom að torginu og ætlaði að leggja inn tuttuguþúsundkallinn sem ég hafði í veskinu. En bankinn var náttúrulega lokaður, enda var klukkan aðeins fimm mínútur yfir níu. Ég hafði bara seðla og var ekki til í að spandera fimmhundruðkalli í strætófar. Ráfaði dáldið um, fór leiðina framhjá KR og inn í einhverja götuna þar. Ég var hættur að taka eftir kuldanum og snjókomunni, og ráfaði bara um í eigin heimi, með rétt næga meðvitund til að vita hvert ég væri að fara og til að klessa ekki á eitthvað.

Ég sá elspýtnastokk liggjandi á jörðinni, gegnvotur af bráðnum snjónum en samt með fimm heilar eldspýtur eftir og eina brennda. Ég leit á klukkuna. 9:25. Kveikti á eldspýtu, sá hana blossa upp og fleygði síðan. Ég gerði þetta síðan við hinar fjórar, glápandi á frjálsan eldinn rétt áður en hann dó út aftur í morgungolunni og vetrarfrostinu. Henti svo frá mér stokknum og ráfaði áfram.

Ég kom stuttu þar eftir að gatnamótum Hringbrautar (að mig minnir) og Hofsvallargötu. Sá letilegan brunabíl beygja upp götuna, og rétt náði að stökkva yfir götuna áður en hinir bílarnir fylgdu. Ég leit á klukkuna. Hún var orðin 9:28.

Ráfaði upp Hofsvallargötuna. Sá um tvítugan mann dragandi lítið barn á snjóþotu. Barnið skríkti af hlátri og ánægju meðan maðurinn kepptist við að skokka upp brekkuna í hálkunni dragandi þotuna. Lítið bros breiddist um varir mínar við þessa sjón.

Ég beygði svo til vinstri við Landakotsspítala og lét brekkuna bera mig niður, framhjá kirkjunni og húsunum. Ég gekk svo í átt að Lækjartorgi, en staldraði ekki við þar heldur hélt rakleiðis upp Laugarveginn. Ég gekk um í bænum í svona hálftíma eða klukkutíma. Ég hef ekki hugmynd, því að ég hætti að horfa á klukkuna. Bara ráfaði um, fór stundum inn í búðir með morgunfuglum sem datt í hug að opna fyrir klukkan tíu, og kom síðan að Hlemmi. Devito's Pizza var ekki opin, þannig að ég hélt til baka. AFtur ráfaði ég bara um, og naut þess að finna blíða en kalda goluna seytla framhjá, eða fannhvíta mjöllina svífa úr skýjunum. Ég pældi dáldið í hvernig snjókorni þætti þetta fyrirkomulag, að vera aðeins frjálst meðan það er að falla úr skýjunum, en svo lenda á jörðinni með öllum hinum og láta trampa á sér af stóru, heimsku mannverunum og dýrkvikindunum.

Búðir voru farnar að opna, og myrkrið var á undanhaldi. Fleira fólk var á götunum, mestallt menntaskólafólk. Ég kom aftur niður að Lækjatorgi og tók þar eftir að Freddi var opinn…

Það má segja að þessi fullkomni dagur minn hafi endað þarna, þegar spilakassafíkn mín tók yfir og neyddi mig til að draga upp fimmhundruðkall svo ég gæti spilað ofbeldisfulla spilakassaleikina. En ég virkilega naut tímans sem virtist vera ein fullkomin eilífð. Varla hræða á ferli og mér leyft að lifa í ánægjufullri einsemd, þótt hún hafi aðeins staðið í rúmlega tvo tíma. Þetta gæti hljómað leiðinlegt, og eflaust var þetta ekki mjög spennandi lesning, en ég hvet alla til að framkvæma svona litla uppreisn. Uppreisn frá samfélaginu, en aðalega uppreisn gegn fjötrum sjálfs síns. Ég eyddi morgninum í frekar súrrealísku ástandi, alveg þangað til að ég dró fram veskið fyrir utan Fredda.

Ég hef aldrei skrópað áður. Mér hefði aldrei dottið það í hug. Ég efast um að ég fari að leggja þetta í vana minn, en ég get sagt að ég er mun hamingjusamari eftir þetta litla brölt mitt í morgun.