Svefnrofalömun heitir það. Maður vaknar og getur ekki hreyft sig. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ég lendi í því. Fyrir slysni misles heilinn aðstæður og sendir boð til vöðvanna að slaka algerlega. Stóru vöðvarnir eru mótækilegri en þeir littlu. Því dugar að rugga aðeins tánum og maður smá saman fær stjórn á öllu á ný.

Þetta las ég. Ég vil ekki missa stjórn á neinu. Ég meina; auðvitað ekki. Hver vill það?

Tærnar færast ekki. Kaldur sviti sprettur fram á ennið á mér. Ég reyni að hnykkla augnbrýrnar en get það ekki. Saltur vatnsdropi rennur á varirnar mínar. Salt. Ég reyni að kyngja munnvatni.

Þegar ég get það ekki, grípur mig þvílík köfnunartilfinning. Ég iða innan í skrokknum, lem innan í útlimina, slengi til höfðinu eins og bjöllu. En ég er bara óendalega smá kona í dauðu hylki, þyngri en skriðdreki. Ekkert færist.
Óróleg reyni ég að hemja mig. Hlusta á andardráttinn. En heyrir bara lágt suð. Sem hækkar bara og hækkar þar til að það virkar eins og dynjandi sónn í hlustunum á mér.

Ég hlýt að vera steindauð.

Ég meina það hlaut að koma að því. Krabbameinið hefur hægt og bítandi tekið yfir alla lífhimnuna síðustu mánuði. Ég hef reynt að hugsa sem minnst um yfirvofandi lok og reynt að einbeita mér að því að taka völdin yfir frumunum mínum aftur. En það hefur gengið hálfbrösulega, ég er algerlega ómenntuð í þeim efnum, enda hafa frumurnar hingað til alltaf hlýtt mér bara, ekkert flóknara. Dæmalaust.

Svona ætlar það síðan að skella síðan á. Bara fyrirvaralaust. Þjáningarlaust. Ekkert dauðastríð. Engin fyrirvari.

Alein.

Þetta er allt svo hversdagslegt alltsaman að ég byrja öskra af öllum sálarkröftum svo glymur í hausnum á mér. Ekki minnsta tíst ratar út um varirnar. Það er niðadimmt í svefnherberginu mínu, samt greini ég útlínur alls. Ég sé allt. Æ nei, nei, nei. Ég sé allt. Um alla eilífð. Hamslaust skelfing grípur mig. Ég ímynda mér síðasta ljósgeislan hverfa þegar kistulokið gleypir mig. Og mannsaldur eftir mannsaldur ofan í moldinni.

Ég veit að ekkert ríkir að eilífu, en lengra nær ímyndarafl mitt ekki. Þetta helvítis suð. Þessi ærandi tónn. Skyldi ég heyra eitthvað. Skyldi ég heyra í minningarathöfninni. Jarðarförinni. Prestinum. Öllum langar til að fá að verða vitni að jarðarförinni sinni, fá umsagnirnar, útdráttinn, hvernig stóð ég mig svo í símatinu?

Skyldi ég heyra moldina skella á kistunni? Hræðslan heltekur mig.

Skyldi ég yfirhöfuð heyra eitthvað?

Þá heyri ég hlátrinn. Ég kannast við þennan illkvitnislega hlátur.

Ehehehahaha… Þú ert svo hrædd! Þú ert svo hrædd! Ég sé það á augunum á þér. Þau er útþanin. Þú ert öll kófsveitt.
Ég þekki þig. Þú heldur að þú sért dauð. Ég þekki þig gamla belja. Skíthrædd við dauðann. Bjóst einhver við öðru?

Ræðumaður fussar hæðnislega.

Yfirvegaðri röddu heldur hún áfram:
Hafðu engar áhyggjur. Þú ert ekki dauð. Þú verður það bráðum. Mjög mjög dauð. En ekki ennþá.
Þú hefur ábyggilega dælt nógu mikið af bótoxi í smettið á þér síðustu ár til þess að vita hvað Neuromuscular-blokkerar eru. Verandi alfræðiorðabókaflettarinn sem þú ert.

Pillan sem ég smokraði ofan í þig áðan ætti að duga til að halda þér lamaðri í þrjá tíma í viðbót… eða fram á miðmorgun. Þ.e.a.s. ef þú færð að lifa annan morgun.


Klikk. Lampaskíman varpar lit á útsýnið mitt. Enn hef ég ekki geta séð glitta í andlit en ég þarf þess heldur ekki. Sumum röddum gleymir maður aldrei þótt líði ár og áratugir. Stórum búrhníf er sveiflað yfir augunum á mér svo ég fæ gæsahúð.

Hahaha, deyja eða ekki deyja. Það er aumkunarvert að sjá krabbameinssjúkling jafn langleiddann og þig vera svona svakalega lífhræddann. Nei. Ég er ekki komin hingað til þess að drepa þig. Ég er komin til þess að ræða málin.

Það er reyndar ómögulegt að ræða málin við þig. Ómögulegt. Í þínum heimi fær engin að tala nema þú. Þú kannt ekki að hlusta. Í nótt ætla ég að rífa upp samangróin eyrun á þér og leyfa þér aðeins að heyra mína hlið. Vonandi muntu meta það.

Auðvitað ekki. Þú munt aldrei kunna að meta neitt sem ég geri. En gildir einu, ég þarf að segja eitt eða tvö orð og svo máttu deyja hvenær sem er, mín vegna. En ekki fyrr.


Ég sé glitta í hnífinn aftur eitt augnablik.

Maður ætti aldrei að kvarta yfir slæmri bernsku. Það eiga allir vondar minningar úr bernsku. Það þýðir ekkert að vola yfir því fram á elliár. Ég meina, andskotinn hafi það, þú áttir sjálf ekki sjö daga sæla í þinni sveit sem barn. Hélstu að ég vissi það ekki? Ha?
Þegar ég kom til sögunnar í þínu lífi varstu samt ekkert barn lengur. Og þú hefðir átt að vita betur.
Þú tókst mig frá pabba þegar ég var 5 ára. Af hverju? Af heift?
Alla leið til Ameríku.

Svo dröslaðist þú með mig strandanna á milli svo árum skiptir á meðan þú svafst hjá öllum þessum körlum. Karlar sem voru ekki alltaf góðir við mig.


Hún andvarpar. Minningarnar streyma yfir mig… sveipaðar áfengismóðu og ilmvatnslykt.

Þegar ég var send til afa og ömmu 9 ára hafði ég aldrei farið í skóla. Mér var strítt. Lögð í einelti. Ég kunni ekki að lesa. Ég kunni varla að tala almennilega.

En ég er ekki heimsk! Ég spjara mig ef ég fæ séns. Ég náði hinum krökkunum. Ég lærði eins og ég gat. Ég eignaðist meira að segja vin. Í fyrsta skipti ævinnar leið mér pínu vel. Pældu í því. 10 ára og aldrei liðið vel. Og þá þurftir þú að sækja mig aftur.

Ég átti skilið betri mömmu en þig.

Hélstu að ég gæti orðið eitthvað öðruvísi en ég varð. Hélstu að ég sem unglingur yrði til fyrirmyndar… með þig til fyrirmyndar. Hélstu að ég yrði edrú? Að ég myndi ekki dópa? Að ég gæti ekki lent í því rugli sem ég lenti í?

Ég meina átti ég einhvern séns? Einhvern tíman?

Gast þú getið af þér eitthvað annað en vandræðabarn?

Samt dirfðist þú að skilja mig eftir 15 ára. Eina. Í Norður Karólínu. Geturðu ímyndað þér hverslags helvíti það er fyrir barn. Ég hef sofið á bar. Ég hef sofið á götunni. Ég hef sofið á fyllibyttum. Ég hef sofið í ælupolli. En ég hef aldrei aldrei sofið á ástkæru heimili þar sem mamma kyssir mig þegar ég fer að sofa.

Ég vil samt að þú vitir að ég elska Irmu. Þessi ógeðslegi pabbi hennar sem þú giftist má rotna í helvíti mín vegna en hún er systir mín og getur ekki gert að því að vera dóttir foreldra sinna. Ekki frekar en ég. Mér er alveg sama þótt hún fái allt. Ég veit að hún fær allt, býlið, landið, allar eignirnar, sem ég veit að eru orðnar margar. Mér er alveg sama.

Þegar ég frétti að þú værir orðin mjög veik þá hikaði ég ekki þegar ég keypti mér flugmiða aftur vestur, hingað á fornar vondar slóðir. Það var ekki vegna þess að ég hefði minnsta áhuga á að komast í skítuga erfðaskránna þína. Frá þér vil ég bara eitt.

Ég vil að þú vitir að ég hata þig.


Ljósið slokknar aftur. Ég heyri hurð skellt. Í tvo tíma get ég mig hvergi hrært. Ég get ekki ekki gert en legið máttlaus og hugsað. Á meðan kæmist hún upp á flugvöll og væri vísast kominn í næstu vél til Íslands þegar ég næði að hreyfa mig aftur.

Hún sagði að ég hafði aldrei elskað hana. Hvenær hafði hún einhvern tímann gert eitthvað til að eiga skilið að vera elskuð? Hún sagði vilja að ég vissi að hún hataði mig. Hvenær hafði hún ekki hatað mig? Hún hafði verið erfitt barn.

Ég hafði ekki séð hana í 15 ár. Og ekki sýndi hún á sér andlitið í þetta skiptið heldur. Ég reyni að ímynda mér hvernig hún liti út núna en get það ekki. Eina sem var kunnuglegt var röddin. Íslenskan. Eins og andblær frá gömlu landi sem hafði aldrei gert mér neitt nema illt þar til ég flutti þaðan. Síðan taugin þangað. Síðasta hefndin.

Hún sagðist vita að ég myndi ekki arfleiða hana neinu. Þar hafði hún rétt fyrir sér. Það var ekkert hér sem á erindi til hennar. Ekkert.

Nema…

Þegar ég dey verður enginn á heimilinu sem skilur íslensku. Ætli ég arfleiði ekki hana bara bókunum. Hún má hirða þær.