Hugsað

Það læðist þoka yfir garðinn. Hljóðlaust smokrar hún sér á milli trjáa og legsteina, vefur fingrum sínum um hvern stein og gleypir hann. Hljóðin frá borginni verða öll fjarlæg og fá á sig dularfullan blæ, -svo hol og innantóm.
Ég geng eftir malarstígnum. Mölin brakar óvenju hátt undan fótum mér, líkt og að ég gangi á þúsund beinagrindum. Ósjálfrátt lít ég aftur fyrir mig, svona rétt til að athuga hvort einhver sé á eftir mér.
Loks kem ég að leiðinu. Signi mig, legg kertið sem ég kom með í stjakann og kveiki á því. Svo sest ég niður við legsteininn. Leyfi friðnum að fljóta yfir hug minn.

Eins og regndropi
sem rennur niður rúðu
líður mynd hjá

Afi minn var skipstjóri. Hann fór á sjó þegar hann var 16 ára gamall og var á sjó allt þar til að hann varð of veikur. Hann elskaði hafið og bar virðingu fyrir því, -rétt eins og flest allir sjómenn gera. Afi naut þess að vera úti og unni hag sínum best um borð. Fyrst á stóru togurunum en þegar hann tók að eldast keypti hann trillu og hélt út á henni. Trillan hét Þorsteinn.
Stundum, þegar veðrið var gott á sumrin fékk ég að fara út með honum. Þá klæddi hann mig í appelsínugult björgunarvesti yfir rauðan pollagalla. Hann notaði sjálfur aldrei björgunarvesti. Honum nægði gráa loparpeysan sín, sjóbuxur og sixpensari. Hann sagði að ef það lægi fyrir honum að drukkna, þá kæmi eitt lítið vesti ekki í veg fyrir það.
Svo stímdum við út á flóann. Esjan á stjórnborða en borgin á bakborða og heiður himinn. Einstaka már flaug um og fyrir utan vélarhljóðið var gargið í þeim einu hljóðin sem heyrðust. Í fjarskanum mátti greina Snæfellsjökul, sveipaðan dulúðugri draumahulu, og Ljósufjöll. Afi sönglaði einhvern óþekkjanlegan lagstúf og starði dreyminn út yfir víðáttuna. Ég sat fyrir aftan hann á bekk og sveiflaði fótunum, óþreyjufullur og spenntur eftir að geta farið að veiða. Við spjölluðum saman um alla heima og geima á meðan. Afi sagði mér sögur af sjónum, við hlógum og skemmtum okkur vel.
Afi sagði mér eitt sinn að hafið væri stærsti kirkjugarður í heimi. Kirkjugarður sem geymdi bæði menn, dýr og skip. Mér fannst þetta skrýtið. Ég hafði einu sinni farið í kirkjugarðinn með mömmu. Ég átti erfitt með að sjá fyrir mér fullt af leiðum og krossum á botninum og fullt af fiskum syndandi í kring. Afi hló og sagði að allar grafirnar væru ómerktar.

Draumlitaðar öldur
eins og grannir fingur
sem leita út á við
nema staðar
strjúka blíðlega
strendur þíns lífs

Einu sinni reyndi mamma að skýra út fyrir mér tilvist Himnaríkis. Hún sagði að allir sem dæu færu til himna og væru hjá Guði. Hún vissi svo sem ekki hvernig það liti út en hún sagði að það væri gott að vera þar. Ég spurði hana hvort að hún hefði einhvern tímann komið þangað. Það hafði hún ekki gert. En hvernig veistu þá svona mikið um þetta spurði ég aftur. Hún horfði á mig, strauk mér um vanga og sagði að ég myndi skilja það þegar ég yrði eldri.
Ég velti þessu mikið fyrir mér. Mér fannst Himnaríki nefnilega stórkostleg hugmynd. Bara að senda alla á sama stað þegar þeir deyja. Á stað þar sem öllum líður vel og allir eru hjá Guði. Ég var mjög sáttur við þetta eilífðarríki og ákvað að kynnast því betur. Ég fór á bókasafnið og las allar þær bækur um dauðann og Himnaríki sem ég fann. Ég spurði stelpurnar sem sáu um sunnudagaskólann um þetta og ég fór og talaði við prestinn. Allir sögðu mér frá þessum frábæra stað sem Himnaríki er.
En ég skildi ekki þá hvers vegna afi var í kirkjugarðinum.

Og augun þín bláu
þar leit ég hafið,
eins og sól farin til himna
þokulituð fjöll,
þolinmóð
frá þeim,
um eyðilega velli
rennur lækur
í hafið


En afi talaði aldrei við Guð. Hann fór aldrei með neinar bænir að mér vitandi. Ég veit ekki hvort hann hafi nokkuð trúað á Guð. Ég spurði hann einu sinni, en afi svarað bara að þegar hann dæi myndi hann fást við Guð og Jesú. En á meðan hann væri á lífi og enn á sjó þyrfti hann að takast á við Ægi.
Einu sinni spurði ég afa hvort hann hefði vitað, þegar hann var lítill, hvað hann myndi að verða þegar hann yrði stór. Hann fór að hlæja og sagði mér að hann hafi alltaf ætlað sér að verða söngvari. En margt fer öðruvísi en ætlað var. Hann sagði mér að það eina sem ég gæti gengið út frá sem vísu með framtíð mína, væri að ég myndi einhvern tímann deyja. Mér brá svolítið en hann fór bara að hlæja aftur.
Afi sagði að þrátt fyrir alla okkar drauma og vonir, getum við aldrei náð að uppfylla þær allar,-best að sætta sig við það strax. Aftur á móti getum við reynt að gera það besta úr því sem við höfum. Reynt að gera daginn í dag betri en daginn í gær, í stað þess að vera velta okkur alltaf upp úr því hvað gæti gerst á morgun eða hinn.
Svo hló hann dátt og gaf mér selbita á kinnina.

Myndir streyma fram
eins og elfur undan vetri
og falla á herðar mínar
brothætt laufblöð haustsins

Afi liggur í Fossvogskirkjugarði. Legsteinninn hans er sjóbarinn kringlóttur steinn, sem hefur verið skorinn í tvennt og pússaður. Í hann er búið að höggva nafn afa, Guðbjörn Þorsteinsson, fæðingar- og dánardægur. Á hverjum jólum fer ég með kerti þangað. Líka á afmælisdaginn hans.
Við hliðina á leiðinu hans afa er frátekið pláss.

Langafi hét Þorsteinn. Ég er skírður í höfuðið á honum. Hann drukknaði þegar afi var 13 ára.

Þegar ég dey þá vona ég að ég geti litið yfir farinn veg stoltur. Þegar afi dó þá sagði hann við ömmu að hann væri stoltur. Stoltur af því lífi sem hann lifði og framlagi sínu. Stoltur af því að hafa verið Íslendingur, stoltur af börnum og barnabörnum sínum, -stoltur af mér.

Afa fannst gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og spjalla við sjómennina. Svo þegar ég var búinn að bíða í bílnum í eilífðartíma, að mér fannst, fórum við og keyptum ís. Ég fékk mjólkurhristing en hann fékk sér ís með dýfu.

Eitt af öðru
fjúka laufblöðin burt
sem lagði ég leiði þitt á
fjúka og halda út á haf
-heim til þín

Þegar ég dey, þá vil ég eignast leiði eins og hans afa. Leiði sem er látlaust og laust við allan íburð en gefur frá sér mikinn frið. Kannski að það standi ösp við leiðið mitt, sem fellir gulnuð laufblöð þegar það haustar í kirkjugarðinum. Kannski eina stjörnubjarta nótt kæmi ég aftur til að skoða leiðið og tæki þá eftir ungum manni sem situr við legsteininn og hugsar. Kannski það væri barnabarnið mitt.