Óli litli og Herra Snigill Ég var á leiðinni heim á fallegum fimmtudegi í byrjun maí þegar Skúli kom hlaupandi til mín.
„Komdu, Óli,“ kallaði hann til mín, „við vorum að finna svolítið magnað.“
„Æ, ég er eiginlega að drífa mig heim,“ svaraði ég. Mamma var að fara að versla föt á mig og ég þurfti að koma með til að máta.
„Þú verður samt að sjá þetta, komdu!“ Hann togaði í ermina á mér þar til ég elti hann en þá hljóp hann af stað. Hann hljóp yfir götuna og inn milli grænu húsanna, þar sem við lékum okkur alltaf í feluleik. Ég náði honum strax enda hljóp ég miklu hraðar. Ég elti hann niður í dalinn með öllum göngustígunum og niður að læknum. Bakvið lítinn runna sá ég hina strákanna, Rúnar og Magnús. Þeir störðu niður á eitthvað sem lá á lækjarbakkanum. Þegar ég kom nær sá ég hvað það var. Það var lítill snigill.
„Æ, Skúli,“ sagði ég vonsvikinn, „ekki náðirðu í þannig að ég gæti séð snigil. Ég hef séð svoleiðis áður.“
Skúli svaraði mér ekki en mér til mikillar furðu gerði snigillinn það.
„Ég held nú samt að þú hafir aldrei séð snigil eins og mig áður.“ Svo hló hann. Röddin var djúp en veik.
„Voða fyndið, strákar,“ sagði ég, „hvernig fóruð þið að þessu?“
Það svaraði mér enginn.
„Hvað heitir þú, ungi maður?” spurði snigillinn.
„Óli,“ svaraði ég, tók hann upp og hélt honum í opnum lófanum. „Mig langar að taka hann með mér heim. Má ég það Herra Snigill?“
„Já, ætli það ekki. Ef þú lofar að gefa mér það sem ég þarf og ef þú lofar að vera alltaf góður vinur minn.“
„Já, ég lofa.“
Ég tók hann með mér heim og bjó til gott heimili handa honum. Ég fyllti gamla fiskabúrið mitt með mold og grasi og laufum og greinum og svo gaf ég honum vatn og meira gras og laufblöð á hverjum degi. Svo lékum við okkur líka á hverjum degi og Herra Snigill varð besti vinur minn.
Ég var í skólanum einn föstudaginn þegar Rúnar spurði mig hvort ég vildi ekki koma til hans eftir skóla og gista í tjaldi úti í garði hjá honum með hinum strákunum.
„Ó, já,“ svaraði ég, „ég elska útilegu.“
Eftir skóla hljóp ég heim og pakkaði niður fyrir útileguna. En ég var að flýta mér svo mikið að ég gleymdi alveg að gefa Herra Snigli mat og vatn. Ég gleymdi meira að segja að heilsa honum þegar ég kom og kveðja hann þegar ég fór.
Útilegan var rosalega skemmtileg. Ég, Rúnar, Skúli og Magnús vöktum lengi og sögðum brandara og draugasögur en svo koma mamma Rúnars og sagði okkur að fara að sofa. Ég fór heim eftir morgunmat hjá Rúnari daginn eftir en þá mundi ég að ég hafði alveg gleymt Herra Snigli. Ég hljóp inn að fiskabúrinu en það var tómt. Herra Snigill hafði farið. Ég saknaði hans svo rosalega að ég fór að gráta en þá heyrði ég litlu röddina hans; „Ég vona að þú sért búinn að læra þína lexíu,“ Herra Snigill kom skríðandi frá felustaðnum sínum bak við bækurnar á borðinu. „Ég get ekki bara verið vinur þinn þegar þér hentar, þú verður að hugsa um mig.“
„Æ, fyrirgefðu Herra Snigill,“ svaraði ég, ennþá grátandi, „ég lofa að þetta gerist ekki aftur.“
„Þetta er allt í lagi vinurinn. En gætirðu gefið mér smá vatn. Ég er rosalega þyrstur.“