Komdu inn, segir hún.
Ég hreyfi mig ekki heldur stari upp í stjörnulausann himinninn.
Ég ræski mig. Hvað er langt síðan? spyr ég hás.
Ætli það séu ekki liðnir þrír mánuðir… segir Aníta.
Með Benna? spyr ég aftur vantrúaður.
Já.

Hún hefur ekkert verið að bíða neitt. Það hafa ekki verið liðnir þrír mánuðir og hún er trúlofuð og flutt inn til Benna. Tæfan eltir bara peninganna. Djöfull er það samt sárt að frétta þetta.

Við vorum saman í bissness ég og hann. Þegar allt fór í háaloft út af Norðangarra hf. varð ég að selja mig úr samningnum sem við höfðum verið að vinna að. Hann kom verulega vel út úr því. Hundruð milljóna? Kannski. Og núna er hann með Stínu. Þetta er eins og úr lélegri sápuóperu. Hann er illi snillingurinn sem þoldi ekki velgengi mína, plottaði gegn mér svo árum skipti og steypti mér svo í glötun. Verst að svo er ekki. Ég þekki hann nógu vel til að vita að hann er meinlaus greyið. Hálfvitlaus. En gríðarlega heppin. Heppni? Stundum snýst þetta allt bara um einhverja helvítis heppni.

Einhvern tímann hefði ég geta blekkt sjálfan mig og sagt að Benni hafi verið besti vinur minn. En ég veit betur. Ég hef ekki átt vini síðan í leikskóla. Ég þekki engan sem myndi hleypa mér inn til sín í dag í ópressuðum buxum. Ég þarf heldur enga vini. Vinir eru fyrir þurfandi.

Ég stend í dyragættinni og hugsa. Ég er ekki á leiðinni neitt, svo þetta er eins góður staður og hver annar til þess. Aníta horfir á mig annars hugar. Ég geri mig ekkert líklegan til að fara en veiti henni heldur enga athygli. Svo við stöndum bara þarna. Engan veginn eðlilegt. En þessi nótt er heldur ekkert eðlileg. Er ég eðlilegur hvortsemer lengur? Eða hef ég nokkurntímann verið eðlilegur? Ég er a.m.k. ófær um að líða vandræðilega á þessari stundu.

Ef ég þekkti Anítu betur vissi ég að hún hafði aldrei skilið orðið vandræðalegur.

Ef þú vilt þá máttu gista í herberginu mínu.

Var hún að bjóða mér að gista í herberginu sínu?

Já takk, segi ég bara.

Skyndilega flögrar um huga minn dónaleg hugsun. Hún skyldi þó ekki að vera reyna við mig? Ég er hrífandi maður, og hef alltaf ræktað vel líkama minn. Kannski er þetta smástelpu útlit hennar villandi. Kannski er hún í raun bara greddupadda, sem pikkar upp góða stráka eins og mig upp úr götunni og notar þá til að svala kinkí þörfum sínum. Ég er að digga tilhugsunina…

Hún kastar í mig teppi og skipar mér niður í sófann. Hún er ekki fyrr búinn að slökkva ljósin og fleygja sér í rúmið en ég heyri í henni hroturnar.

…Varla.



Herbergið hennar er furðuleg blanda af dæmigerðu unglingastelpuherbergi og einhverju allt öðru. Veggirnir eru bleikir. Rúmið er vel umbúið, það er blómamunstur á áklæðinu. Fyrir ofan gluggann er hilla full af böngsum. Þetta er allt leifar af Kristínu.

Aníta virtist hafa verið flutt í kjallarann þegar Kristín flutti og ekki hirt um að gera herbergið að sínu nema að litlu leiti. Skápurinn stóð opinn og var kjaftfullur af pæjufötum. Hennar fötum. Skrifborðið var fullt af námsdóti. Þar var líka hnöttur, alsettur títuprjónum með rauðum hausum. Svona eins og hjá Jóakim Aðalönd. Hillurnar höfðu verið áður, og voru fullar af styttum og prjáli. Hún hafði ekki hreyft við því. Á gólfinu við einn vegginn var hins vegar búið að reisa bráðarbirgðarhillur úr kössum, fullar af bókum.

Gamlar bækur. Ég skoðaði þær. Eins og bækurnar á skrifstofunni hans afa.

Græjurnar hennar Kristínar voru hérna ennþá. Ég geri ráð fyrir að Benni hafi nú efni á því að kaupa handa henni eitthvað flottara. Ég man eftir geisladiskastandinum. Mjög fansí. Diskunum er raðað upp á lóðrétt færiband og mótor færir þá einn í einu fram hjá manni ef maður snýr litlum takka. Aníta hefur furðulegan tónlistarsmekk. Ég kannast ekki við neitt af hljómsveitunum.

Hún vakti mig í morgun. Sagðist vera að fara. Ég leit á hana og velti því fyrir mér hvort hún ætlaði að henda mér út ósofnum. Það væri eðlilegast. Ég gat ekki séð það á henni svo ég lokaði augunum aftur og beið þess sem verða varð. Hún opnaði dyrnar.

Hafðu ekki áhyggjur, það liðu þúsund ár áður en mamma og pabbi myndu álpast niður í herbergið mitt, sagði hún og skellti svo á eftir sér.

Ég held að hún sé týpan sem hefði ekkert á móti því þótt að foreldrar hennar myndu álpast á karlmann, sérstaklega mig, þannig að það liti út fyrir að hann hafi sofið hjá henni um nóttina, hugsaði ég. Hún er rebel. Unglingur. Það er best.

Maður á aldrei að hætta því, var það síðasta sem ég hugsaði áður en ég mig fór að dreyma asnalega og þýðingalausa drauma á ný.

Ég veit hins vegar ekki hvað klukkan er núna. Grænn garðurinn fyrir utan er baðaður sólskini. Eina klukkan í herberginu var stór lestarstöðvarklukka sem var 7 mínútur í 7. Stopp. Þessi Aníta á enga tölvu. Mér langar á netið.

Eitt andartak íhuga ég að fara út. Fara að drífa í þessu. Byrja nýtt líf. Koma einhverri áætlun á laggirnar. Verst að ég er tómur. Dett ekkert í hug. Ég finn máttleysi hellast yfir mig. Ég sit bara í sófanum á ókunnugu heimili og reyni að stjórna andardrættinum svo ég missi mig ekki. Inn út inn út. Hægt og rólega. Enga móðursýki. Ekki missa þig Kristján. Ekki missa þig. Inn. Fyrst skulum við ná almennilegri stjórn á andardrættinum. Út. Svo skulum við reyna ná stjórn á öðru. Ok?

Ég á ekkert. Það er bara rugl. Af hverju á ekkert? Ég á að eiga eitthvað. Jú að vísu var allt almennilegt hirt af mér, en það hlýtur að vera böns af smávægilegu drasli einhverstaðar sem þeir nenntu ekki að taka. Eitthvað. Ég hugsa. Og hugsa. Af hverju hafði ég ekki vit á því stinga einhverju undan?

Þegar fyrstu eindagarnir féllu og kröfurnar fóru að hlaðast inn þá var mjög nákvæmur í því að vinna í málinu. Ég fékk allt starfsliðið í björgunaraðgerðir. Þótt allt hafi farið á versta veg þá er ég samt stoltur af því hvernig ég brást við þessar hörmulegu vikur. Ég var ekki einu sinni stressaður, vann bara af fullum þunga, hratt og örugglega að reyna að bjarga firmanu. Þetta var eins og í menntaskóla á ný. Þetta var reikningsdæmi og ég reiknaði það fumlaust. En þegar lokatölurnar sýndu svo ekki var um villst að þetta gekk ekki, tja… þá hætti ég líka. Gafst upp. Gerði ekkert meir. Lét hlutina eiga sér stað.

Svo ég stakk engu undan. Þeir innsigluðu skrifstofurnar aðeins fjórum vikum eftir að allt ferlið fór í gang. Og það var allt inni. Ekki einn einasti penni í vasanum. Allt heima fór í kassa og út í vörubíl. Það skrítnasta var að það voru næstum engir persónulegir hlutir í húsinu mínu. Ekki myndaalbúm. Ekki neitt. Svo ég grét ekki heldur fór bara bugaður heim til mömmu. Þetta liði hjá.

Varð launþegi aftur. Eins og einhver afgreiðslustrákur á hamborgarastað. Fékk vinnu á vöktum hjá Securitas. Það er basl. Maður er mjög upptekinn en samt er þetta eitthvað svo ábatalaust. Svo er maður þreyttur á frívöktunum. Hvernig á maður að koma einhverju í verk. Peningarnir voru sjálfdauðir í höndunum á mér. Þeir dugðu fyrir neyslu, alveg ávaxtalaust. Hver einasta frívakt átti að verða sú síðasta.

Þessi frívakt verður sú síðasta!

Er þetta á leiðinni að verða skáldsaga? Það gæti bara vel verið. Sjáum til.