Hversu hár er Eiffelturninn? Það er ein gerð að fólki sem má aldrei - undir NOKRRUM kringumstæðum - baktala.
Það er fólk sem hugsanlega gæti verið að hlusta. En það verður nú að segjast
að Hreggviður Hjörleifs varð ekkert beinlínis hissa:

“Ég meina, kommon… það eina sem er spennandi við manninn er nafnið! En þið
verðið nú að viðurkenna að það er frekar sniðugt…”.

Hann var staddur í þessu ókunnuga partíi sem vinnufélagi hans hafði boðið honum
í, sá sami og hafði látið upp úr sér gullkornið hér að ofan, að Hreggviði
heyrandi. Þetta varð til þess að hann greip jakkann sinn, strunsaði út og
þrammaði heim. En hann var svo sem ekki að missa af miklu, hann þekkti engan
og það hafði hvort eð er enginn áhuga á honum, eins óspennandi og vesalings
maðurinn var. Hann hafði prófað að taka fulla gæjann á þetta. Gera sjálfann sig
að skjögrandi hirðfífli fyrir framan allt þetta ókunnuga fólk. Fulli gæjinn
nýtur kannski ekki virðingar en hann fær alltaf ágætis viðtökur. Smá hlátur,
nokkur glott og nóg af athygli. Allt kom þó fyrir ekki og þegar Hreggviður
heyrði þessa síðustu athugasemd ákvað hann að skjögra heim, henda sér í rúmið
og hugsanlega gráta smá fyrir svefninn.

Heimleiðin var næstum óbærileg. Það var nístingskuldi alla leiðina, rigning
með köflum og einu meira að segja haglél. Göturnar voru þaktar í snjónum
sem að hefði átt að koma á jólunum en lét sjá sig eitthvað í kringum miðjan
janúar. Það voru ekki beinlínis fallegar hugsanir sem að gistu huga Hreggviðs
þessa sársaukafullu tvo kílómetra sem hann þurfti að labba. Það sem lýsir
ástandinu best er líklega það að á miðri leið stoppaði hann og hreytti út úr
sér á gamla kellingu: “Er ég virkilega svona drullufokkingleiðinlegur?”
Hafið samt engar áhyggjur. Gamlar kellingar einar á ferli svona seint á
nóttunni geta ekki haft neitt heiðarlegt í hyggju.

Þetta voru hugsanir um lífið og tilveruna. Um líf sem var hrútleiðinlegt og
tilveru sem var næstum óbærileg. Þessi veisla var ekkert einstakt dæmi. Fólki
almennt fannst Hreggviður óvenjulega leiðinleg manneskja og fjandinn hafi það að
einhver nennti að tala við hann. Hann átti næstum enga vini. Þá fáu vini sem
hann átti væri í raun réttara að kalla kunningja en vini, því það var enginn
neitt sérlega náinn honum. Hann átti enga óvini heldur. Að eiga óvini er,
þrátt fyrir allt, dægrastytting. Hann var ekki þunglyndur, ekki beinlínis.
Tilfinningin var frekar einhvers konar sambland af örvæntingu, einmanaleika og
hreinum, ósviknum, lífsleiða. Hreggviður var leiður á lífinu. Það er engin
nákvæmari leið til að lýsa sálarástandi mannsins en að segja að honum
einfaldlega leiddist. Þið trúið mér kannski ekki, að einhverjum geti
einfaldlega LEIÐST svona hrikalega. Gott og vel, en þið verðið að taka það með
í reikninginn að Hreggviður var óvenjulega leiðinlegur einstaklingur!

Það var þó eitthvað sérstakt við þessa nótt. Kannski var það bara kornið sem
að fyllti mælinn. Kannski var það sú staðreynd að einhver hafði loksins sagt
upphátt það sem hann hugsaði oftast en þorði ekki að viðurkenna fyrir sjálfum
sér. Sálfræðimenntuð manneskja gæti áreiðanlega útskýrt það betur en ég… en
það var eins og heilinn á honum ákvæði allt í einu að framkvæma einhvers konar
varnaraðgerð til að bjarga sjálfum sér. Þegar Hreggviður kom loksins heim henti
hann sér í rúmið og dreymdi besta, og skemmtilegasta, draum sem hann hafði á
æfinni dreymt.

Þetta var langur og skýr draumur sem entist alla nóttina. Hann dreymdi ferðalög.
Hann fór frá París til Berlínar og þaðan til Hawaii, með dagsstoppi í London.
Þessi draumur virtist endast í heila viku - þegar heilinn er frelsaður undan viðjum
hins raunverulega tíma geta dagar breyst í vikur og vikur breyst í ár. Fyrir vikið
vaknaði Hreggviður fullkomlega endurnærður næsta dag - eða svo virtist í fyrstu. Í
rauninni hafði hann sofið allan sunnudaginn, fram á mánudagsmorgun, og var
meira að segja orðinn seinn í vinnuna.

Þetta var í fyrsta skipti á sínum tíu ára starfsferli sem verkfræðingur fyrir
Brúarhönnun HF sem að Hreggviður mætti seint. Út af því ákvað yfirmaðurinn að
gefa aðeins eftir. Hann minntist aðeins á að hann ætti raunverulega að mæta
klukkan átta fimmtán, ekki hálfellefu, en þar sem það hefði verið mikið að
gera undanfarið og Hreggviður hefði alltaf mætt vel og verið góður
starfsmaður, o.s.frv. þá ætlaði hann að líta í hina áttina í þetta skipti svo
lengi sem þetta kæmi ekki fyrir aftur, annars ætti hann að sjálfsögðu inni
frídaga sem hann gætti nýtt hvenær sem o.s.frv. Og Hreggviður afsakði sig
pent, þetta kæmi ekki fyrir aftur, nú ætlaði hann bara að skella í sig
kaffibolla það væri komin pása hvort sem er, en svo skyldi hann koma sér að
verki, það væri mikið að gera og, hei… hversu hár er aftur Eiffelturninn?

“Bíddu, hvað kemur það málinu við?”
“Æji, bara að pæla…”
“Hmm, ég held hann sé eitthvað svipaður og Hallgrímskirkja, 75 metrar?”
“Já, það hlýtur að vera.”
“En komdu þér nú að verki!”
“Já að sjálfsögðu, kaffið er líka tilbúið…”

Hreggviður var byggingarverkfræðingur. Þó svo að það sé að mörgu leyti
áhugavert starf, þá fannst honum það ekki. Það hafði einfaldlega reynst
auðvelt fyrir hann. Flestir velja að lokum starf sem liggur vel fyrir þeim.
Flestir hafa líka nokkura ánægju af því, það liggur í þeirri staðreynd að fólk
fær oftast sjálfkrafa áhuga á hlutum ef það hefur einhverja hæfileika til
þeirra. Þetta gæti haft eitthvað með sjálfsálit að gera. Venjulega leiðinlegt
starf getur fengið manneskju til að líða vel vegna þess að það að hafa tök á
því veitir henni aukið sjálfsálit. Þetta er þó ekki alltaf endilega rauninn.
Einstaka ólukkumaður hefur óbeit á því starfi sem liggur best fyrir honum.
Þetta gæti líka haft eitthvað með sjálfálit að gera. Manneskja sem hefur
raunverulega óbeit á sjálfri sér gæti þess vegna einnig haft óbeit á starfi
sínu og að eyða átta klukkustundum í það á dag gert henni lífið óbærilegt.
Hugsanlega er þetta allt kjaftæði - þið fyrirgefið mér vonandi ef ég hef
gleymt mér augnablik í þessum pælingum. Málið er þó að þessar pælingar virðast
passa furðulega vel við Hreggvið. Í stað þess að átta sig á því að starf hans
gæti mjög auðveldlega orðið áhugavert - í raun hafði hann hæfileikann til þess
að gera það áhugavert - þá lét hann það fara í taugarnar á sér. Hann sinnti
því þó vel. Í hvert skipti sem hann hugsaði um að hann gæti verið að eyða
tímanum í eitthvað allt annað komst hann að því að hann hafði ekki hugmynd um
hvað það ætti að vera. Hann var dæmdur til að drepa tímann með starfi sem
honum fannst hrútleiðinlegt. En einmitt út af því sinnti hann því vel.

Dagurinn í vinnunni þennan dag var þó skárri en flestir aðrir. Vinnufélaginn
hafði hringt sig inn veikan, svo Hreggviður þurfti ekki að hitta hann og hlusta
á lélega afsökun: “Æji, ég var bara fullur, ég meinti þetta ekkert, þú ert nú
ekkert svo leiðinlegur… ég meina, ÉG er nú vinur þinn, það hlýtur að segja
eitthvað… he, he… he?” Það var heldur ekki laust við að honum fyndist
vinnan örlítið áhugaverðari en venjulega - “burðarþolsgreining hefur sinn
sjarma, eftir allt”, hugsaði hann. En hann hafði þó hugann meira við
draumfarir síðustu nætur. Honum fannst hann vera að hugsa um góðar minningar,
um langt og viðburðaríkt ferðalag. Og í fyrsta skipti í langan tíma dirfðist
hann að láta hugann reika. Hversu hár ER aftur eiffelturninn… þrjúhundruð
tuttugu og fjórir metrar… vá! Þvílíkt afrek. Ég vildi að ég hefði hannað
þennan turn. Hei, hér er pæling: Gerum ráð fyrir að lítill lofteinn hitti
turninn. Hversu stór þyrfti hann að vera og HVAR væri best fyrir hann að lenda
svo að turninn FÉLLI… með sem minnstum skemmdum… bara velta. Vííí - boink.
Hmm, hann stendur væntanlega á ekki á þremur fótum. Ef að einn þeirra brotnaði…
ef að steinninn hitti akkúrat þennan í vinstra neðra horninu. Látum okkur sjá…
hei, þetta er nú bara einföld annars stigs jafna. Og þriggja metra steinn myndi
nægja! Það er skriðþunginn sem skiptir mestu. Hvern hefði grunað…

Það sem hann dreymdi um nóttina var alveg í takt við þessar hugleiðingar.
Hann var verkfræðingur. Snillingur. Hann stóð á stórum palli sem að gnæfði
yfir allt og alla. Hann hafði ellefu menn í kringum sig sem tóku skipunum
hans eins og heilögum sannleik. Það sem hann sagði VAR heilagur sannleikur.
Það skyldi byggja brú til Vestmannaeyja. Hann stjórnaði verkinu, sem þegar
var hálfnað. Þetta var glæsilegasta afrek í sögu brúarhönnunar á Íslandi.
Draumurinn endaði með hringingu frá fyrrum yfirmanni hans…

Sem var raunverulegi yfirmaðurinn hans! Að hringja til að segja Hreggviði að
hunskast í vinnuna því klukkan væri orðin hálfníu!

Það tók Hreggvið hálfa mínútu að átta sig á því hvar hann var. Vonbrigðin voru
ÓLÝSANLEG. En það þýddi ekki að kvarta. Hann dreif sig á lappir, greip bíl-
lyklana og mætti illa lyktandi, úrillur og svangur í vinnuna.

Það var engin leið að einbeita sér núna. Það var ekki fyrr en eftir fyrstu
kaffipásu sem að hann loksins kom sér að verki, loksins kominn yfir övænt-
inguna og vonbrigðin yfir því að draumur næturinnar skyldi bara hafa verið
draumur og að vinnan hans væri í rauninni drullufokkingleiðinleg.

Þið eruð kannski farin að ímynda ykkur hvert þetta er að stefna. Hreggviður
hélt áfram á þessari braut. Þrátt fyrir þennan eina góða mánudag fór honum
að finnast vinnan sífellt óbærilegri. Hann hélt áfram að dreyma yndislegust
drauma lífs síns. Öðru hvoru dreymdi hann kynlíf. Kynlíf með öllum þeim konum
sem honum hafði líkað við en aldrei þorað að tala við. Öðru hvoru dreymdi hann
ferðalög, tívoli, veitingastaði, góðan mat og þessa hluta sem að flestir vilja
gera í löngum frítíma með mikinn pening. En oftast dreymdi hann verkfræðiafrek.
Ódauðleg og glæsileg afrek. Afrek sem áttu skilið að komast á spjöld sögunnar.
Afrek sem HÖFÐU komist á spjöld sögunnar.

Hann hélt áfram að sofa yfir sig, sem olli yfirmanninum töluverðum pirringi
en enn þá meiri áhyggjum. Á endanum fékk hann nóg. Hann vildi ekki reka
Hreggvið beint, hann var of góður starfsmaður til þess, en hann vildi líka
að sú vinna sem að Hreggviður var löngu hættur að skila af sér væri framvæmd.
Svo hann stakk upp á ótímabundnu fríi. Þetta var í rauninni uppsafnað, þar sem
Hreggviður hefði aldrei tekið sér frí, hann fengi borgað, engar áhyggjur.
En það væri líka eins gott að hann tæki sig saman og jafnaði sig. Það væri
greinilega eitthvað að honum, heilsufarslega og hann gæti ekki unnið fyrr en
hannn væri búinn að finna út úr því. Sannleikurinn var að sjálfsögðu að
yfirmaðurinn var tilbúinn að segja honum upp ef að þetta frí lagaði ekki hvað
það nú var sem var að honum.

“Ég vona að þú móðgist ekki þótt ég ráði í starfið þitt tímabundið. Það er,
þrátt fyrir allt, mjög mikilvægt að þessu starfi sé sinnt.”

“Nei, nei, það er allt í lagi, ég skil þig alveg. Og það er líka rétt hjá þér,
það ER eitthvað að mér. Ég hef enga stjórn á svefninum. Vekjaraklukkur virka
ekki og eins og þú veist nú sjálfur þá vakna ég ekkert alltaf við símann…”

“Allt í lagi Hreggviður minn, þú kemur bara aftur þegar þú vilt. Þú hefur þó
í mesta lagi mánuð. Þú verður að skilja það.”

Þegar þessi mánuður var liðinn og hvorki hafði heyrst tangur nér tetur af
Hreggviði fór yfirmaðurinn raunverulega að hafa áhyggjur. Hann sendi þess
vegna vinnufélaga hans til að tékka á honum (ég er að sjálfsögðu að tala um
þennan sama og í byrjun sögunnar). Þið fyrirgefið mér vonandi þótt ég muni
ekki hvað hann heitir, eða hvað yfirmaðurinn heitir ef út í það er farið, ég er
hræðilegur þegar kemur að nöfnum. Það skiptir líka engu máli fyrir framgang
sögunnar svo það ætti að vera í lagi.

Vinnufélaginn fann Hreggvið heima hjá sér, eftir að hafa fengið samþykki
húsráðanda til að brjóta upp hurðina (hún var sjálf orðin áhyggjufull - þótt
að Hreggviður væri hljóðlátur maður þá væri nú enginn SVONA hljóðlátur).
Það var ekki sjón að sjá manninn. Hann var sofandi, að sjálfsögðu, og varla með
lífsmarki. Það leit út fyrir að hann hefði verið sofandi mjög lengi: Hann
voru nokkur einkenni af vægs næringarskorts og var að auki orðinn grindhoraður
og veiklulegur. Það var slík sjón að sjá vesalings manngarminn að félaginn hringdi
í neyðarlínuna eins og skot. Hreggviði var hent inn á spítala þar sem hann fékk
mat í æð í fyrstu en var síðan sendur inn til sérfræðings til frekari rannsóknar á
þessu “óvenjulega tilfelli”.

Þegar félaginn komm inn til að tékka á Hreggviði viku seinna kom læknirinn til
baka með sorgarsvipinn sem hafði æft svo oft fyrir þetta tilefni: “Mér þykir
leitt að tillkynna þér það… en félagi þinn er í dái. Við vitum ekkert hvort
eða hvenær hann vaknar aftur.” (Allt í lagi, leyfa slæmu fréttunum aðeins að
síast hinn). “Ég verð þó að viðurkenna að ég hef aldrei séð tilfelli eins og
þetta. Það virðist ekki vera nein undirliggjandi orsök og líkami hans er í það
góðu standi að hann ætti í raun að geta vaknað hvenær sem er. Við höfum líka séð
óvenjulega mikla heilavirkni, sérstaklega fyrir mann í dauðadái. Ég hef það á
tilfinningunni - þó ég hafi engin læknisfræðileg rök fyrir því - en ég hef það
einhvern veginn á tilfinningunni að hann VILJI ekki vakna…”

Eftirmáli:
Þið, kæru lesendur sem nenntuð að lesa alla söguna: Ég þakka innilega fyrir
mig. En þið eruð væntanlega að velta því fyrirykkur hvað varð af Hreggviði
Hjörleifs. Síðast þegar ég vissi var hann enn þá í dái, í merkilega góðri
heilsu miðað við mann í hans ástandi. Læknarnir segjast ekki þora að taka
hann úr sambandi. Þeir hafa nú raunar einhverja hagsmuni í þessu: Hreggviður
er orðinn að rannsóknarverkefni spítalans og halar inn bæði viðurkenningu og
peningum fyrir vikið. Að segja að Hreggviður skili meiru af sér í dauða en lífi
eru engar ýkjur… nema ef vera skyldi vegna þess að hann er langt frá því
dauður. Ég hef heyrt að hann brosi stundum. Ég ímynda ég mér að hann dreymi
um pýramídana miklu, og sfinxinn. Eða kannski er það Artimesarhofið. Eða
geimstöð á sprorbraut satúrnusar. Enginn veit það fyrir víst en mig grunar
að þessar ágiskanir sé ekki svo fjarri lagi…