Ég opna hurðina á íbúðinni minni í Fellunum, og kalla “Hæ Nonni, ég er komin heim ástin mín.” að gömlum vana, loka augunum og vona að ég fái svar. Nei, ekkert svar, ekki frekar en síðustu tvo mánuði.
Þegar ég opna augun finnst mér eins og ég geti séð hann standa inni í eldhúsi, á fullu í eldamennskunni eins og alltaf þegar ég kem heim af dagvaktinni, sem dróst alltaf þar til um kl. 8 á kvöldin.
Lít úr eldhúsinu inn í stofu, á sófann sem við völdum saman í Góða hirðinum. Ótrúlega sjúskaður mosagrænn 60's sófi með dökk-grænu kögri að neðan. Ég kolféll fyrir þessum sófa, og eins og alltaf leyfði hann mér að fá sófann, því hann elskar ekkert meira en að gleðja aðra. setur alltaf alla nema sjálfann sig í fyrsta sæti. Ég sé hann líka fyrir mér, sitjandi á sófanum með bjórdós, sem passaði mjög vel við sófann og fallegu mosagrænu augun hans, í hendinni, að horfa á fótboltann.
Ég legg frá mér töskuna mína, geng inn í eldhús og opna hvítvínsflösku, eins og ég hef gert á hverjum degi síðustu tvo mánuðina. Ég fer inn í stofu með hvítvínið, kveiki á geislaspilaranum, set lagið okkar á repeat, og drekk hálfa flöskuna.
Þá stend ég upp, labba eftir ganginum, með glasið og flöskuna í hendinni, færi mig inn á baðherbergi.
Ég legg glasið frá mér, helli meira víni í það, og fæ mér sopa. svo læt ég renna í bað.
Þegar ég klæði mig úr fötunum finnst mér eins og það sé Nonni sem er að klæða mig úr, eins og svo oft, oft áður, ekki ég sjálf. Við höfum líka verið saman svo lengi að við erum búin að samræma hverja einustu hreyfingu.
Þegar ég lít í spegilinn, og virði sjálfa mig fyrir mér, finnst mér ég sjá Nonna, standa fyrir aftan mig, haldandi utan um mig, í speglinum.
Ég stíg varlega ofan í baðkarið, með glasið í hendinni, og tek andköf þegar heitt vatnið umlykur mig.
Ég ligg lengi ofan í baðinu, og hugsa um það hversu mörgum stundum við Nonni vörðum í þessu baðkari.
Þegar ég klára síðasta sopann úr glasinu ákveð ég að það sé tími til að fara uppúr.
Ég geng inn í svefnherbergi þegar ég er búin að þurrka mér, hafði ekkert fyrir því að klæða mig, geng bara nakin inn í herbergið.
Þegar ég kem inn finnst mér ég heyra í Nonna, en ég veit að það er bara ímyndun, þó ég haldi alltaf í vonina.
Ég leggst á rúmið, og faðma að mér koddann minn, og hugsa um það sem gerðist fyrir 2 mánuðum.

Ég heyri raddirnar jafn skýrt og ég gerði fyrir tveim mánuðum, og það hræðir mig alltaf jafn mikið.

“Þau eru bæði meðvitundarlaus! Er einhver búinn að hringja á sjúkrabíl?”
“Hinn ökumaðurinn keyrði burt, það náði enginn bílnúmerinu”
“Hann er að vakna!”
“Sjúkrabílarnir eru komnir, þraukaðu aðeins lengur”
…..
“Hún er með of miklar innvortis blæðingar til að lifa þetta af”
“Hjartað er hætt að virka, lungun eru að gefa sig”
“Þetta er síðasta tækifærið þitt til að kveðja hana, hún á innan við klukkustund eftir. Þú mátt fara og vera hjá konunni þinni”
….
Ég get ennþá fundið lyktina af Nonna, heyri hann ennþá gráta við rúmstokkinn hjá mér, finn hann strjúka á mér ennið, hvísla því að mér að hann muni aldrei gleyma mér, ég verði alltaf stóra ástin hans.
….

Í huganum lofaði ég Nonna að ég færi aldrei frá honum, og að ég myndi elska hann að eilífu.
.the best things in life are unseen - thats why we close our eyes while we kiss, wish, and dream.